laugardagur, desember 17, 2005

Piltur og stúlka.

Einu sinni var í fjarlægu landi á stað sem við skulum kalla Akureyri ungur piltur í koti sínu. Hann þótti fríður sýnum og forkur til vinnu. Hann var ókvæntur og barnlaus.

Einn daginn þar sem pilturinn sat við vinnu sína bar sjónvarpsmann að garði. Þegar hann sá piltinn mælti hann: ,,Eigi er það gott að þessi piltur sé einsamall. Við skulum gera honum meðhjálp við hans hæfi.”

Gekk sjónvarpsmaðurinn að piltnum og mælti við hann: ,,Allir eru að leita ástinni í lífinu. Mig langar að bjóða þér í stórfenglegasta ævintýri lífins: sjálfa leitina að lífsförunautnum.”

Pilturinn horfði á sjónvarpsmanninn undrunaraugum og svaraði: ,,Vertu ekki að plata mig góði minn. Ég er ekki eins og allir hinir strákarnir. Þótt ég sé utan af landi þá þýðir það nú ekki að ég hoppi upp í bíla hjá hverjum sem er.”

Sjónvarpsmaðurinn mælti þá á móti: ,,Ég býð þér að gerast Bachelor Íslands. Þér gefst einstætt tækifæri til að velja konuefni þitt úr hópi yndisfríðra blómarósa. Það eina sem þú þarft að gera er að koma í sjónvarpið til mín og skrifa hérna undir.”

“OK.” – sagði pilturinn og skrifaði undir samninginn.

Þegar fyrirætlun sjónvarpsins spurðist út flykktust yngismeyjarnar að hvaðanæva af landinu. Urðu þær alls sautján. Og í hverjum þætti sendi Bachelorinn nokkrar heim. Þær sem Bachelorinn gat hugsað sér til undaneldis fengu hins vegar að vera áfram. Gaf hann hverri þeirra rós sem tákn um það hlutskipti hennar.

Til einnar þeirrar bar hann sterkari hug en hinna. Það gekk ekki áfallalaust að vinna ástir hennar. Hún átti til dæmis til að spyrja óþægilegra spurninga eins og: ,,Var gott að káfa á Elvu?” Við þessu átti söguhetja vor því miður ekkert betra svar en: ,,Ég man það ekki.”

Eftir því sem fram liðu stundir varð þó ljóst að stúlkan felldi jafnframt hug til Bachelorsins. Sást það aldrei betur en þegar hún hélt hann hafa bundist sundmey nokkurri tryggðaböndum. Varð Bachelornum þá að orði: ,,Þú situr þarna bara eins og dauðadæmd.” Stúlkan svaraði þá að bragði: ,,Ég er dauðadæmd.”

Ekki var þó öll nótt úti enn og sú dauðadæmda fékk sannkallaðan gálgafrest þegar sundmeyin vildi ekki gera Bachelornum þann heiður að þiggja af honum rós. Bauð Bachelorinn þeirri dauðadæmdu þá rósina og mælti hún þá nokkuð snúðugt: ,,Ég veit það ekki. Er þetta rósin hennar Írisar?”

Bachelornum líkaði þetta ekki og spurði höstulega: ,,Viltu þessa rós eða viltu hana ekki?” Tók sú dauðadæmda þá við rósinni. Lauk þá þar með þeim kafla sögu þessarar sem bókmenntafræðingar myndu kalla ris.
Til að gera langa sögu stutta þá valdi Bachelorinn blómarósina dauðadæmdu sem heitmey sína.

Fóru þau síðan í sjónvarpsþáttinn Fólk hjá Sirrý og lifðu hamingjusöm til æviloka, eða að minnsta kosti þangað til fjölmiðlar hættu að fylgjast með þeim.

föstudagur, desember 16, 2005

Jólakort.



Nú er runninn upp sá tími ársins sem jólakortin fara að berast okkur. Okkur finnst gaman að fá jólakort. Þau eru merki þess að einhver sé að hugsa til okkar. Og það í miðri jólageðveikinni.

Engu að síður er ekki laust við að maður hafi smávegis samviskubit á þessum árstíma. Við höfum ekki beinlínis verið dugleg við að senda fólki hlýjar kveðjur öðruvísi en í huganum um þetta leyti árs. Okkar hlutskipti hefur fyrst og fremst verið að þiggja.

Fyrir þessu er engin gild afsökun. Að vísu reynum við stundum að telja sjálfum okkur trú um að mynd af okkur tveimur muni ekki fara vel á kommóðum sem vísast verða undirlagðar myndum af brosandi börnum með jólahúfur eða nýgiftum hjónum. En auðvitað snýst málið ekki um það.

Líklega eru flestir þeir sem senda okkur jólakort í hópi lesenda þessarar síðu. Af því tilefni viljum við nota tækifærið og óska ykkur öllum gleðilegra jóla og farsæls komandi árs. Um leið þökkum við kærlega fyrir kortin.

Myndin hér að ofan er jafnframt jólagjöf okkar til lesenda síðunnar: tvær geitur til munaðarlausrar stúlku í Afríku. Geiturnar hafa þá þýðingu að aðrar fjölskyldur geta haft efni á því að taka stúlkuna að sér og veita henni heimili. Með því verður töluvert ósennilegra að hennar bíði grimm örlög á borð við að verða seld mansali.

Geitur er aðeins ein af mörgum gjöfum sem hægt er að gefa af síðunni www.goodgifts.org. Blaðið Independent tók síðuna út um daginn. Þetta er einn gagnrýnasti fjölmiðill í Bretlandi. Ef eitthvað misjafnt lægi að baki þessarar síðu má telja næsta öruggt að það hefði þá verið afhjúpað.

Á þessum tíma árs heyrist stöðugt hærra sá harmasöngur að jólin snúist eingöngu um neyslufyllerí og að gefa fólki eitthvað sem það hvorki langar í né vantar. Hér gefst kannski ekki tækifæri til að kveða þessa söngva í kútinn. Það ætti hins vegar að vera hægt að lækka eitthvað í græjunum hjá þeim sem spila þá.

Eins og með jólakortin þá höfum við svo sannarlega ekki verið nógu dugleg við að láta eitthvað af hendi rakna um jólin. Þar sem nær allir sem við þekkjum virðast vera okkur betri í að láta verkin tala í jólaundirbúningnum erum við viss um að hvatning okkar til að gefa pínulitla gjöf til annarra en vina og vandamanna hljóti góðar undirtektir. Látið þetta endilega berast til allra sem þið þekkið. Hérna er leiðin

Kærar jóla- og nýárskveðjur,

Sylvía og Kjartan

fimmtudagur, desember 15, 2005

Quarterlife Crisis

Já þá er ég búin að ná “Quarterlife Crisis” aldrinum. Búin að fyrirgera mér réttinum á því að vera unglingur lengur. Þeir sem vilja gefa mér afmælispakka þá er þessi bók viðeigandi:

Quarterlife Crisis: The Unique Challenges of Life in Your Twenties.

Fyndið að ég skildi akkúrat rekast á hana í heimildarleitarlestri fyrir ritgerðarefni í dag. Annars fékk ég skemmtilegt afmæliskort frá Kjartani varð að skanna það inn og sýna ykkur.


Svo fékk ég líka eins skó og Bruce lee var í myndinni “Game of Death”. Nú ætla ég að eyða afmælisdeginum í að spóka mig um götur Lundúna í gylltum íþróttaskóm. Enda svo á því að fá mér creme brulée á góðum veitingarstað.

miðvikudagur, desember 14, 2005

Einkamál.

Einhvern tíma í kringum 1985 birtist í DV auglýsing þar sem geðgóð miðaldra kona óskaði eftir að kynnast karlmanni á sama aldri.

Í ljósi þess að þetta voru einu upplýsingarnar sem fram komu í auglýsingunni staldraði lesandinn óhjákvæmilega við orðið ,,geðgóð” í þessu samhengi. Af hverju kaus auglýsandinn að leggja sérstaka áherslu á þetta orð tengslum við miðaldra konur?

Sjálfsagt fæst aldrei fullnægjandi svar við þeirri spurningu. Auglýsingin varð hins vegar tilefni til þess að ég ákvað lengi vel að gjalda sérstakan varhug við ókunnugum miðaldra konum.

Um daginn barst í hendur mínar eintak af tímaritinu London Review of Books (www.lrb.co.uk). Það er helgað skrifum um bókmenntir og líklega er vandfundinn sá snepill af rituðu máli í hinum enskumælandi heimi þar sem fólk tekur sig jafn-alvarlega. Orðið póstmodernismi er svo sannarlega ekki haft í flimtingum á þeim bænum.

Fyrir sjö árum tók London Review of Books upp á þeirri nýbreytni að birta einkamálaauglýsingar. Tilgangurinn var sá að lesendur blaðsins fengju með því tækifæri að nálgast fólk af svipuðu sauðahúsi. Forsvarsmönnum blaðsins nokkuð til blandinnar ánægju sló þessi nýi liður í gegn svo um munaði. Margir lesa nú blaðið eingöngu vegna einkamálauglýsinganna.

Það verður að segjast eins og er að einkamáladálkur London Review of Books er nokkuð sér á parti. Um daginn var til dæmis þessa auglýsingu að finna: ,,I like my women the way I like my kebab. Found by surprise after a drunken night out and covered into too much tahini. Before too long I will have discarded you on the pavement of life, but until then you are the perfect complement to the perfect evening.” – (Man, 32, rarely produces winning metaphors).

Önnur góð er hin auðmjúka: ,,Shy, ugly man, fond of extended periods of self-pity, middle-aged, flatulent and overweight, seeks the impossible.” Svo eru til auglýsingar þar sem fólk talar af meira sjálfsöryggi:

,I´ve divorced better men than you. And worn more expensive shoes than these. So don’t think placing this ad is the biggest come-down I´ve ever had to make.” (34 ára kona).

Margar eru stuttar en gagnorðar. 29 ára kona lýsti til dæmis áhugamálum sínum svona: ,,My hobbies include crying and hating men.” Eða þá: ,,My ideal woman is a man. Sorry, mother.” Stundum veit aðeins sá sem auglýsingunni er beint að hvað við er átt. Eins og til dæmis þessi örstutta sem hljóðaði einfaldlega: ,,I hate you Alan Rusbridger.”

Sjaldan, ef nokkurn tíma hefur birst jafn-kjarnyrt auglýsing eins og þessi: ,,Nihilist seeks nothing.”

Eftir því sem fregnir herma hefur sú viðleitni útgefenda London Review of Books að leiða saman menntasnobb ekki borið glæsilegan árangur. Fyrir skömmu lagði bresk blaðakona inn auglýsingu þar sem hún auglýsti eftir alvarlegu og innhaldsríku sambandi. Rösklega helmingur svaranna var frá verðbréfasölum á fimmtugsaldri sem voru að leita að viðhaldi. Hin voru að mestu leyti frá sólbrúnum strákum á hlýrabolum.

þriðjudagur, desember 13, 2005

Settu nafnið þitt í kommentakerfið og.........

1. Ég segi þér eitthvað handahófskennt um þig.
2. Ég segi þér hvaða lag/mynd minnir mig á þig.
3. Ég segi þér hvaða bragð minnir mig á þig.
4. Ég segi þér fyrstu ljósu minninguna mína af þér.
5. Ég segi þér á hvaða dýr þú minnir mig á.
6. Ég spyr þig að einhverju sem ég hef velt lengi fyrir mér um þig.
7. Ef þú lest þetta verðuru að setja þetta á bloggið þitt!

mánudagur, desember 12, 2005

OR álfur í heimspekipartýi.

Einn af kúrsunum mínum er samsettur úr fjórum valkúrsum. Einn valkúrsinn snýr að tengingu hagfræði og OR (því sem ég er að læra) kenndur af heldri hagfræðingi við heimspekideildina. Hann er einn af þeim kennurum sem getur sett flókið efni eins og t.d. leikjafræði fram á einfaldan hátt. Við byrjuðum rúmlega 60 í tímunum hans en þegar leið á veturinn voru við fimm. Á fimmtudaginn bauð hann okkur í jólaboð ásamt heimspekideildinni. Ég og Ísak mættum.

Þegar við komum inn tóku þjónar á móti okkur. Ekki bara einn heldur tveir. Sem betur fer hafði ég farið í jólafötin. Við gengum á efri hæðina þar sem barinn var og þar var píanóisti sem lék undir samræðum. Við Ísak vorum þau einu úr OR deildinni og hitt fólkið voru starfsmenn heimspekideildarinnar eða doktorsnemar.

Við Ísak fórum að skoða okkur um húsið svona til að hafa eitthvað að gera og tala um og okkur varð litið að viðurkenningarskjali sem hékk á veggnum. Ég bjóst við einhverju hefðbundu en þetta var staðfesting á því að kennarinn hafi farið í kringum jörðina í loftbelg. Mér hefur alltaf fundist loftbelgir tilheyra ævintýrum og fannst þetta heldur súrrealískt.

Ísak er frá Spáni og hófust samræður við breskan starfsmann um Spán og að það væri í raun þriðja heims ríki en samt gott að vera þar, Ísaki til mikillar armæðu. Hins vegar var maki starfsmannsinns sem kennir Public Health við UCL forvitinn um leið og ég sagðist koma frá Íslandi yfir gagnagrunnsmálinu. – Já, það eru ekki allir jafn fljótir að gleyma.

sunnudagur, desember 11, 2005

Bretland að kikka inn



Þá er ég sest við tölvuna eftir að hafa fengið mér ágætis brunch á breska vísu, beikon, egg og bakaðar baunir. Önnin kláraðist á föstudaginn og nú taka verkefni og ritgerðir við sem skilast inn rétt eftir “jólafríið” það verður því lítið um frí. Samt hlakka ég til að koma til Íslands og hitta alla. Það verður voða notalegt. Ég fékk svo góða sendingu af lakkrís sem ég er enn að borða um daginn þannig að hef ekki náð að sakna hans í bili en bæjarins bestu, malt og appelsín og piparbrjóstsykrar eru ofarlega í huga.

Þegar Ibba frænka hans Kjartans fluttist til Edinborgar þá sagði hún að það væri ekki orðið heimilislegt hjá manni fyrr enn maður fengi gesti. Það er nokkuð til í því. Sem betur fer var Guðný ekki lengi að bjarga okkur um það þegar hún kom sem næturgestur á leið sinni til Indlands. Aftur á móti þá er stórt skref í þá átt að búa í einhverju (öðru) landi er að leigja video/DVD þar. Í gær tókum við Kjartan stórt skref í þá átt að búa í Bretlandi við leigðum okkur breska DVD spólu á videoleigunni hér í nágrenninu og kórónuðum það svo með breskum brunch.