föstudagur, september 23, 2005

Ísland-London-Norge-London

Þá er ég komin í boxið og fundið smugu til þess að setjast niður og taka til við að blogga. Flutningarnir frá Íslandi til London gengu naumlega upp. Ég tek hjartanlega undir takk bloggið hans Kjartans hér að neðan. Við fengum viðurnefnið fólkið með kassanna þegar við vorum að reyna að troða síðustu kössunum í geymslur víðsvegar um borgina.

Við vorum ekki fyrr lent og búin að koma okkur fyrir í tíðræddu boxi þegar við lögðum af stað til Noregs. Það var nú soldið skrítin tilhugsun að hitta hálf-systur sínar í fyrsta skipti eftir 14 og 9 ár. Það var samt vel tekið á móti okkur og þetta var ekkert undarlegt heldur kósí og þæginleg stemming.

Ég tók tante Sylvíu hlutverkið mjög alvarlega. Það hófst formlega með því að ég fékk að lesa ævintýri á norsku fyrir Camillu (5 ára). Ég skildi ekki öll orðin sem ég las en áttaði mig á því í stórum dráttum út á hvað ævintýrið gekk. Ævintýrið var um hanska. Fyrst kom mús og hreiðraði sig um í hanskanum, svo villisvín og endaði ævintýrið á því að það voru 7 dýr sem bjuggu saman í þessum eina hanska. Mér þótti þetta ævintýri vel valið hjá henni Camillu og sá strax í hendi mér að það yrði auðvelt fyrir okkur að hýsa hana Guðný Indlandsfara í boxinu okkar þegar til London væri komið.

Tante Sylvía fór svo í sædýrasafn, spilaði fótbolta, borðaði pizzur og vatnsrennibrautagarð með allan barna skarann eins og sannri tante sæmir. Komst að því að við systurnar ættum í raun margt sameiginlegt… greinilega meira genetískt heldur en umhverfislegt…

Noregsferðinni lauk svo í Osló í góðu yfirlæti hjá Beredskapetaten. Þar komst ég endanlega að því að goðsögnin um nísku norðmanna væri í raun íronía.

Guðný mætti svo í boxið... fór til Indlands í morgun hugdirfskan þar á ferð.


börnin og tröllið


Systurnar


Tante Sylvía og Onkel Kjartan í faðmi barnaskarans


Hele familien


,,Slysið" Staetó fullur af hermönnum rekst á eiturefnabíl


Björgunarstörf í fullum gangi

þriðjudagur, september 20, 2005

Baugsmálið.

Þá er búið að vísa Baugsmálinu frá. Að minnsta kosti í bili.

Málsskjölin í því fylla 52 möppur sem leika á þúsundum síðna. Áður en yfir lýkur mun fjölmiðlar hafa eflaust hafa skrifað og þulið annað eins.

Af Baugsmálinu hef ég aðeins lært eitt. Það er að vínber eru mun ódýrari hér í London en á Íslandi. Þetta hefur orðið okkur til mikil gagns hérna úti og eru vínber nánast borðuð í hvert mál.

mánudagur, september 19, 2005

Sönn ást.

Er kominn aftur til London einn míns liðs. Sylvía þurfti að sinna brýnum erindum í Osló (er annars nokkuð brýnna en almannavarnir?) og kemur ekki fyrr en á miðvikudagskvöld.

Til þess að hafa ofan af fyrir mér í ákvað ég að skella mér á völlinn 10 mínútna ferð með lestinni í norður til að sjá Arsenal spila við Everton.

Leikurinn var algerlega að mínu skapi: Mínir menn sýndu skemmtileg tilþrif, skoruðu tvö mörk og sigur þeirra var aldrei í hættu.

Þar sem ég er viðkvæm sál og tilfinninganæmur frábið ég mér alfarið að leikir þar sem mín lið koma við sögu séu spennandi. Slíkt er eingöngu til þess fallið að hækka blóðþrýsting með tilheyrandi líkum á heilsutjóni. Helst myndi ég kjósa að liðið mitt ynni alltaf 5-0 eða meira.

Það vakti annars athygli mína að fyrir leik og í hálfleik voru lesnar upp kveðjur til fólks á vellinum, svona eins og í útvarpinu á jóladag.

Margir á vellinum áttu greinilega afmæli í gær. Þá höfðu líka margir fengið sömu hugmyndina að senda þeim afmæliskveðjur í hátalarakerfi vallarins.

Ein kveðja var hins vegar til karlmanns sem hafði sett sér það takmark að fara á völlinn hjá hverju einasta atvinnumannaliði á Englandi. Í gær lokaði hann hringnum á Highbury sem var 92. völlurinn í röðinni. Það eru 8.280 mínútur af fótbolta. Með því er ekki talinn viðbótartími, hvað þá ferðalög til og frá velli.

Af því tilefni var manninum borin eftirfarandi kveðja:

,,Elsku Gary minn. Innilega til hamingju með áfangann. Ég er svo stolt af þér. Þín elskandi eiginkona, Heather.”

Með þeim fyrirvara að nefnd Heather sé ekki ákaflega meðvirk kona, er erfitt að ímynda sér einlægari og fölskvalausari ástarjátningu en þessa.