miðvikudagur, júlí 26, 2006

30.



Mikið vona ég að aldur eigi sér enga samsvörun í veðri. Eins og allir vita telst lofthiti frá 15 – 29 gráðum á Celsíus kjöraðstæður fyrir mannlega tilveru. Um leið hitamælirinn færist yfir töluna 30 verður lífið hins vegar hratt óbærilegra og útheimtir stöðugt meiri aðlögunarhæfileika af þeim sem hefur fengið það að láni.

Þótt ótrúlegt megi teljast þá fylltu tilteknir íbúar póstnúmerisins WC1NDJ í London þriðja tuginn fyrir skömmu. Að minnsta kosti er það “ótrúlegt” í skilningi Indverjans Raj sem vinnur í Tesco-versluninni á sama svæði og þvertekur fyrir að selja ykkar einlægum flösku af Peter Lehmann Barrossa Semillon 2004 og fleiri eðalvínum nema hann framvísi löglegum persónuskilríkjum.

Einhvern tíma veltum við Stebbi fyrir okkur hvenær maður væri kominn til manns. Mig minnir að Stebbi hafi komið með þá hittnu skilgreiningu að það væri þegar sundlaugarverðir hættu að sprauta á mann köldu vatni fyrir að baða sig ekki nægilega vel – sem væri um og í kringum tvítugt.

Seinni gerði ég áhlaup að skilgreiningu um hvenær maður væri orðinn miðaldra. Í huga mínum er það þegar maður hættir að hlusta á nýja tónlist. Ég held að mér hafi aldrei tekist að hræða fólk jafn-mikið með nokkru sem ég hef sagt: ég þekki frekar marga sem hættu að nenna nýrri tónlist á svipuðum tíma og þeir komust til manns.

Mér var hugsað til þessarar skilgreiningar þar sem á sunnudaginn varð ég þeirrar gæfu aðnjótandi að kynnast nýrri tónlist fyrir tilstilli Gvara bróður og Rögnu hans. Í tilefni af heimsókn þeirra hjónaleysa fórum við Sylvía með þeim á Jazz Café í Camden hlýddum þar á stórsveit hip-hopsins, Slum Village. Sérstaklega var Isaac Hayes samplið gott.

Daginn áður höfðum við bræðurnir orðið þess heiðurs aðnjótandi að vera viðstaddir opnun nýja Emirates leikvangsins í norðurhluta Lundúna. Ekki dró það úr gleði okkar að Marco Van Basten nokkur skyldi birtast óvænt á vellinum og sýna gamalkunna takta.

Líklega markar heimsókn þeirra hjónaleysa ákveðin kaflaskil hér í London þar sem nú tekur við vinnutörn hjá okkur sem aldrei fyrr fram að námslokum. Við kvöddum þau með söknuði enda hefur það sannarlega verið eitt af helstu gleðiefnunum við að vera hér í framhaldsnámi hversu stutt hefur verið fyrir fjölskyldu og vini að heimsækja okkur og hversu duglega þau hafa notað þau tækifæri.







3 Innlegg:

Anonymous Nafnlaus sagði...

Takk kærlega fyrir okkur! Þetta var snilldarferð í alla staði. Hefði samt mátt vera lengri. :)
Hlakka til að sjá ykkur á Fróni.

2:14 f.h.  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Elsku Kay and Sly

Takk fyrir frábæra tónleika og enn betra sushi, ég get enn þá fundið bragðið þegar ég hugsa til þess.

Mig langar sérstaklega að þakka Sylvíu fyrir shopping hvatninguna, mér veitti ekki af henni áður en Gvari slóst í för með mér.

Hlökkum alveg hrykalega mikið til að fá ykkur aftur heim.

knús !!

3:30 e.h.  
Blogger sylvia sagði...

Já Ragna hvílíkur dugnaður í shoppinginu. Var stolt af þér!!! Ekkert að tvínóna við hlutina.

Það var æði að fá ykkur í heimsókn...hef ekki farið úr Ítalíubolnum;)

Takk fyrir mig

10:36 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home