þriðjudagur, nóvember 07, 2006

Útvarp Reykjavík.

Klukkan er tólf. Ég sit í eldhúsinu við sjóinn og þyl upp úr mér margvíslegan fróðleik um skattamál á alþjóðavettvangi. Þetta er sérkennileg iðja, einkum vegna þess að hér er ég einn og algerlega laus við nokkuð sem heitir áheyrendur.

Þrátt fyrir þetta er útlit fyrir að heimildir um þessar stundir úr lífi mínu glatist ekki alveg . Eins og reiðiköst Nixons í Hvíta húsinu forðum daga er verður þetta allt fest á band fyrir þá sagnfræðinga framtíðarinnar sem eru fróðleiksfúsari en góðu hófu gegnir.

Í fyrsta skipti á ævinni er ég þess heiðurs aðnjótandi að kenna eitthvað sem heitir fjarnám.

Fjarnám er merkilegt fyrirbrigði. Einhvern tíma heyrði ég mann lýsa kostum þess fjálglega og í löngu máli. Hann talaði um hvað fjarnám myndi skapa þekkingarsamfélag á stöðum þar sem fólk nennti ekki læra og horfði bara á vídeó.

Ég hélt reyndar ekki vel athyglinni yfir því sem hann varð að segja. Ég held samt að hann hafi eitthvað misskilið konseptið. Ég er minnsta kosti ekki að hugsa það sama og hann þar sem ég sit og les fyrirlestrana mína inn.

Ég er að hugsa um að til séu ættbálkar einhvers staðar úti í heimi sem vilja ekki að teknar séu ljósmyndir af sér. Fólk heldur þar að það missi sálina inn í vélina ef það er fest á filmu.

Sjálfum finnst mér miklu óhugnanlegra að lesa rödd mína inn á einhverja spiladós þar sem hún lifir sjálfstæðu lífi um ókomna tíð.

Ég vil ekki vera fordóma í garð ólíkra menningarheima en mér finnst beygur minn að þessu leyti vera rökréttari. Í mínum hugarheimi eru draugar verur sem fara þusandi eitt og annað án þess að við sjáum tangur né tetur af þeim. Mér finnst hljóðið úr mér án myndar vera hálfgerður draugur af sjálfum mér.

Það er margt sem kemur á óvart í lífinu. Kannski mun maður einhvern tíma komast að því að draugar séu til í raun og veru til dæmis. Einu getur fólk þó sofið alveg rólegt yfir og það er vissan um að ég fari aldrei að útvarpa sjálfum mér á þessari síðu.

miðvikudagur, október 11, 2006

Sydney, juð og áfengismennt

Nú skuldum við ferðasögu, heimkomusögu, og alskonar sögur frá mánaðarlöngu bloggfríi. Sydney er hin vænsta borg og Ástralir hið ágætasta fólk svo ekki sé meira sagt. Beinskeyttur og kaldhæðinn húmor þeirra átti vel við okkur skötuhjú. Ferðasagan verður látin liggja milli hluta á þessum vettvangi úr því sem komið er og áhugasamir hvattir til að mæta í heimsókn fyrir frekari ferðasögu og myndasyrpur. Fest voru kaup á hágæða myndavél í ferðalaginu og af því tilefni sægur af myndum tekinn, en af einhverjum tæknilegum orsökum rata þær ekki inn á bloggið.

Við skötuhjúin erum búin að koma okkur vel fyrir hér á Tómasarhaganum. Þvílík dásemd þessi gata. Um klukkan hálf níu á morgnanna koma til okkar syngjandi gestir, þrír spörfuglar, og setjast á fína “nýja” handriðið okkar. Við sem sagt tókum okkur til og juðuðum svalarhandriðið og lökkuðum svo með hammerite lakki á eftir. Erum nokkuð stolt af árangri erfiðisins.

Maður er nú samt ekki almennilega fluttur fyrr en eftir að hafa haldið nokkur matarboð, gott partý og fengið til sín næturgesti. Helgin mun vera helguð því síðastnefnda því Bríet og Breki munu flytjast til okkar annaðkvöld meðan frú Laila stórafmælisbarn og Manni skreppa til Barcelona. Matarboðin verða reidd fram hvert á eftir öðru á nánustu framtíð; viðveran í boxinu leiddi til æfingaleysis sem er núna verið að ráða bótum á.

Partýið góða var haldið um helgina og var þar margt góðra gesta. Urðarkötturinn átti þar stórleik með því að færa mér þá stórkostlegu bók Áfenga drykki eftir bruggunarverkfræðinginn og Humboldt-styrkþegann Hinrik Guðmundson (Dipl.Ing).

Formáli bókarinnar vakti sérstaka athygli en hann er svohljóðandi:

,,Íslendingar hafa ekki alizt upp við áfengismennt eins og aðrar hvítar þjóðir, sem hafa aldagamla sögu og reynzlu að baki sér í þessum efnum, enda ekki við því að búast af landfræðilegum orsökum og vegna erfiðra lífskilyrða.” (Guðmundsson, H. 1953. Áfengir drykkir: Öl, vín, brenndir drykkir og vínblöndur. Borgarprent Reykjavík. Bls. 5)

Bók Hinriks hefur að geyma ýmsan fróðleik. Hann segir til dæmis frá tilurð barsins og hanastélsins. Barinn kemur af orðinu “Barrier” því á landnámstíma Ameríku þegar - að sögn höfundar- “óskipulagðir innflytjendur af ýmsu tagi höfðu sjálfir á hendi framkvæmd persónuöryggis síns og vernd eigna sinna að miklu eða öllu leyti, þegar hnífar sátu laust í skeiðum og byssur réðu oft á tíðum úrslitum í samskiptum manna, þótti veitingarmonnum örugggara að hafa varnargirðingu fyrir framan veitingaborðið til þess að tryggja sér svigrúm til ganráðstafana, ef um óspektir eð áras var að ræða.” (Guðmundsson, H. 1953. Áfengir drykkir: Öl, vín, brenndir drykkir og vínblöndur. Borgarprent Reykjavík. Bls 71)

Leggur hann einnig ríka áherslu á að glösin séu kristaltær og ber þvi við að “lituð glös séu miskilningur.” Í niðurlagi bókarinnar leggur hann ríka áherslu á að menn fylgist með því áfengismagni sem það hefur innbyrt þar sem ½ - 1 klst getur liðið þar til menn verða varir við áhrif þess. Hann heldur svo áfram:

,,Þeir sem þrátt fyrir allt hafa ruglazt í ríminu og drukkið meira en þeir eru menn til að þola, geta reynt að styrkja sig á eftirfarandi:

Praire-oyster-cocktail
Takið cocktailglas og látið í það 1 matskeið af enskri sósu og 1 heila eggjarauðu, sem á að fljóta á sósunni. Stráið salti og papríku yfir, hellið 1 teskeið af edikið þar á ofan og fyllið síðan glasið með matarolíu. Drekkið úr glasinu í einum sopa og skolið niður með vatni.” (Guðmundsson, H. 1953. Áfengir drykkir :Öl, vín, brenndir drykkir og vínblöndur. Borgarprent Reykjavík. Bls 176)

fimmtudagur, ágúst 31, 2006

Er ekki kominn tími á smá frí frá þessu öllu saman?

Einhvern tíma var mælt að trúa öllum væri ekki gott en engum hálfu verra. Ég hef mótað mér sams konar afstöðu til ákvarðanatöku: Í mínum huga er einhver ákvörðun yfirleitt betri en engin og því stærri sem hún er – þeim mun skemmtilegri. Því er fer hins vegar fjarri að allar ákvarðanir séu góðar.

Þessi afstaða er í ákveðnu ósamræmi við eðlislæga varfærni mína. Heilbrigð skynsemi ræður manni líka frá því að taka djarfar ákvarðanir ef maður er þokkalega ánægður með lífið og tilveruna. Ég tel mig skora dagsdaglega nokkuð yfir meðallagi á prófunum hvað varðar hið síðarnefnda.

Úr því að mér gefst ekki oft færi á að taka stóra og djarfa ákvörðun sem raskar ekki stöðu minni og högum að verulegu leyti hef ég tilhneigingu til að grípa gæsina þegar hún gefst.

Í vikunni átti ég samtal við verðandi eiginkonu mína um hvert við ættum að fara í frí þegar þessu námi okkar lyki. Þar sem hún var önnum kafin við að leggja lokahönd á meistaraverkefni sitt sagði hún: “Finndu bara eitthvað, ég treysti þér alveg til að finna eitthvað skemmtilegt ástin mín.”

Ég þurfti ekki frekari hvatningu. Eftir nokkurra klukkustunda netrannsóknir, samanburð á flug- og hótel var fannst mér ein ákvörðun áberandi stærri, flottari og skemmtilegri en allar aðrar innan fjárlaga okkar.

Við fljúgum til Sydney um hádegisbil á þriðjudaginn.

föstudagur, ágúst 11, 2006

Á fyrsta degi.



Guð skapaði heiminn á sjö dögum, ætli ég geti ekki skrifað verkefni á átta? Samkvæmt Supernova þá eru bestu lög rokkstjarna oft samin á innan við tíu mínútum.

Ég semsagt náði að leggja næstumþvílokahönd á líkanið mitt, fyrir þetta ráðgjafafyrirtæki/rannsóknabatterí. Sem fyrir áhugasama snýst um að besta mögulegar “pólisíur” varðandi það að draga úr vatnsleka Bretlandseyja. Þetta hefur verið mikið fréttaefni (þá vatnslekinn ekki verkefnið mitt) í sumar út af hitabylgjunni sem er “sembeturfer” lokið.

Fyrir enn áhugasamari þá er þetta líkan ósamfellt ólínulegt bestunarlíkan. Þau geta verið torleysanleg. Því fleiri “ó” sem eru í skilgreiningunni því svæsnara er þetta. En með hjálp svokallaðra “Genetic/evolutionary Algorithms” er þetta leysanlegt en þeir byggja á þróunarkenningu Darwins. Ég ætti kannski frekar að athuga hvað Darwin var lengi að hripa niður svipað langan greinarstúf sem mér er ætlað að skrifa og skila inn heldur enn að gera áætlanir mínar út frá því hvað Guð var lengi að skapa heiminn.

Það er svo sem engar stórfréttir hérna af okkur hjónaleysunum. Við erum komin aftur í B-týpu munstrið, spilum soldið af skvassi, borðum góðan mat og drekkum soldið kaffi endrum og eins. Það styttist í komu okkar til ægifagra Íslands. Ætli við hættum þá ekki þessu bloggstússi.

þriðjudagur, ágúst 08, 2006

Í fullri hreinskilni.


Hinn 28 ára gamli knattspyrnumaður Frank Lampard var að gefa út ævisögu. Titill hennar felur í sér ákaflega fyrirsjáanlegan orðaleik með fornafn hans. Ég þarf varla að taka fram úr þessu titillinn er: "Being Frank."

Ég hef því miður ekki haft stund aflögu til að lesa þetta mikla bókmenntaverk spjaldanna á milli en í henni getur að finna afar ljóðræna lýsingu á dvöl söguhetjunnar um borð í snekkju Romans Abrahamovich, eins ríkasta manns Bretlandseyja. Þar segir meðal annars:

"I suppose people imagine that as a Premiership footballer, my life is quite special. I would agree, but those two weeks opened my eyes to another world."

Einhvers staðar sá ég spurt hvort hægt væri að hugsa sér órómantískari draum en þegar milljónamæring dreymir um að verða milljarðamæringur. Ég á erfitt með að finna spurningu sem er meira leiðandi.

Annars er það helst að frétta af okkur hjónaleysum að það er torskilið milli sessunnar og sitjandans svo og fingranna og lyklaborðsins þessa dagana. Skilafrestur nálgast óðfluga.

Í tilefni af því að okkur áskotnuðust miðar frá forfallaðri vinkonu brugðum við okkur í Globe Theatre um helgina að sjá Anton og Kleopötru Shakespeares. Þar staðfesti ég grunsemdir mínar um að Shakespeare er betur lesinn heima en séður í leikhúsi.

Við fórum eftir einn langdreginn klukkutíma, sannfærð í þeirri trú okkar að veröldin fyrir utan væri áhugaverðara leiksvið en það sem blasti við okkur.

Til varnar leikhúsinu þá var ensk klassík ekki það sem þreyttir hugar okkar þörfnuðust þetta kvöldið. Leiðin úr leikhúsinu lá beint á Leicester Square þar sem kvikmyndin Miami Vice var nýverið tekin til sýninga.

Í stuttu máli þá er Miami Vice frábær mynd sem flestir ættu að verða betri menn af að sjá. Nú þarf maður að verða sér úti um þættina áður en maður lendir í annarri eins törn.

miðvikudagur, júlí 26, 2006

30.



Mikið vona ég að aldur eigi sér enga samsvörun í veðri. Eins og allir vita telst lofthiti frá 15 – 29 gráðum á Celsíus kjöraðstæður fyrir mannlega tilveru. Um leið hitamælirinn færist yfir töluna 30 verður lífið hins vegar hratt óbærilegra og útheimtir stöðugt meiri aðlögunarhæfileika af þeim sem hefur fengið það að láni.

Þótt ótrúlegt megi teljast þá fylltu tilteknir íbúar póstnúmerisins WC1NDJ í London þriðja tuginn fyrir skömmu. Að minnsta kosti er það “ótrúlegt” í skilningi Indverjans Raj sem vinnur í Tesco-versluninni á sama svæði og þvertekur fyrir að selja ykkar einlægum flösku af Peter Lehmann Barrossa Semillon 2004 og fleiri eðalvínum nema hann framvísi löglegum persónuskilríkjum.

Einhvern tíma veltum við Stebbi fyrir okkur hvenær maður væri kominn til manns. Mig minnir að Stebbi hafi komið með þá hittnu skilgreiningu að það væri þegar sundlaugarverðir hættu að sprauta á mann köldu vatni fyrir að baða sig ekki nægilega vel – sem væri um og í kringum tvítugt.

Seinni gerði ég áhlaup að skilgreiningu um hvenær maður væri orðinn miðaldra. Í huga mínum er það þegar maður hættir að hlusta á nýja tónlist. Ég held að mér hafi aldrei tekist að hræða fólk jafn-mikið með nokkru sem ég hef sagt: ég þekki frekar marga sem hættu að nenna nýrri tónlist á svipuðum tíma og þeir komust til manns.

Mér var hugsað til þessarar skilgreiningar þar sem á sunnudaginn varð ég þeirrar gæfu aðnjótandi að kynnast nýrri tónlist fyrir tilstilli Gvara bróður og Rögnu hans. Í tilefni af heimsókn þeirra hjónaleysa fórum við Sylvía með þeim á Jazz Café í Camden hlýddum þar á stórsveit hip-hopsins, Slum Village. Sérstaklega var Isaac Hayes samplið gott.

Daginn áður höfðum við bræðurnir orðið þess heiðurs aðnjótandi að vera viðstaddir opnun nýja Emirates leikvangsins í norðurhluta Lundúna. Ekki dró það úr gleði okkar að Marco Van Basten nokkur skyldi birtast óvænt á vellinum og sýna gamalkunna takta.

Líklega markar heimsókn þeirra hjónaleysa ákveðin kaflaskil hér í London þar sem nú tekur við vinnutörn hjá okkur sem aldrei fyrr fram að námslokum. Við kvöddum þau með söknuði enda hefur það sannarlega verið eitt af helstu gleðiefnunum við að vera hér í framhaldsnámi hversu stutt hefur verið fyrir fjölskyldu og vini að heimsækja okkur og hversu duglega þau hafa notað þau tækifæri.







þriðjudagur, júlí 18, 2006

Fleiri myndir


Bríet á "huge" stóru trampólíni


Komum við í undergroundinu svona til að fara á milli staða.


Við höfðum varla tíma til að borða en komum stundum við á búllunum


Þreyttir fætur að fá far eftir viðburðaríkann dag

Heitasti bletturinn í Evrópu

Hef verið að rúlla í gegnum blogg og sé að rigningar og rokmet í Íslandssögunni virðist vera slegið. Hér í Lundúnarborg er önnur saga, hitamet eru slegin daglega og á morgun á hitinn að fara upp í 37 gráður, sem þýðir 57 gráður í undergroundinu...mér segist svo hugur um að stemmingin verði sveitt þegar ég fer til Swindon í skrifstofufötunum á morgun.

Sveittir lófarnir klístrast við lyklaborðið meðan viftan þeytir hárinu til og frá augunum. Sem betur fer komu þau Laila, Breki og Bríet og hresstu okkur við í síðustu viku. Hér koma nokkrar myndir af dvölinni þeirra hjá okkur.

Krúsídúllurnar í London Eye


Breki að óska sér


Nú svo hittum við skrattann


Sylvía Frænka fórnaði sér í alla rússíbana og sjóræningjaskip


Þessi gíraffi varð á vegi okkar dágóða stund


Ætli þetta heiti ekki að grafa sína eigin gröf