Á kjördag.

Einn af fáum lagabókstöfum sem framkölluðu bros í huga mér þegar ég sat yfir skruddunum forðum daga var grein í áfengislögum sem mælti fyrir um að áfengissölubúðir skyldu vera lokaðar á þeim dögum sem kosningar til Alþingis og sveitarstjórna færu fram. Mér fannst alltaf eins og þetta ákvæði varpaði ákveðnum dýrðarljóma á gildi hinnar lýðræðislegu hugsunar.
Ákvæðið sýndi augljóslega líka fram á ákveðna togstreitu milli Alþingis og forseta Íslands. Það gaf dæmis sterklega til kynna að menn yrðu að ganga alls gáðir til atkvæðagreiðslu í hreppsnefndina meðan það lét einu gilda þótt menn kysu sjálfan forseta Íslands við skál.
Eftir nýlega breytingu á áfengislögum eru útsölustaðir ÁTVR bæði opnir á kjördag í sveitarstjórnarkosningum sem Alþingiskosningum. Mér skilst að rökin fyrir breytingunni hafi verið “breyttir verslunarhættir”.
Kannski er þetta merki þess að fjármagnið sigri alltaf lýðræðið að lokum.
3 Innlegg:
Húrra fyrir þessu Kjartan!
Það er náttúrulega aðeins ein leið að kjósa: Að kjósa með "stæl"
Er þetta ekki miklu frekar vitnisburður um enn einn sigur ykkar kratanna?
Kratar vita nefnilega sem er að það kýs þá enginn ófullur.
Kv.
Hafsteinn.
Miðað við áfengismagnið sem landinn innbyrðir er ég hissa á því að ekki sé Krataeinræði á Íslandi - reynist kenning þín rétt.
Annars verð ég að setja "?" við orðið "ykkar" í þessu samhengi. Ég get aldrei verið sammála neinum lengur en í 5 mínútur. Þess vegna hef ég aldrei komist svo langt að binda tryggð mína við ákveðna stjórnmálaskoðun.
Skrifa ummæli
<< Home