fimmtudagur, maí 11, 2006

Tired and Emotional.


Í breska þinginu er aldrei sagt um nokkurn mann að hann sé drukkinn. Einhvern tíma hefði maður haldið að það væri vegna þess að tilefnin skorti, m.ö.o: menn gengu til lýðræðislegra stjórnarhátta allsgáðir. Svo er hins vegar ekki.

Eins og annars staðar í Bretlandi eru fólki í þinginu einstaklega lagið að kalla hlutina röngum nöfnum. Þannig er aldrei sagt að þingmaður sé “drukkinn” heldur eru önnur orð notuð um ástand hans. Er þá ýmist sagt að viðkomandi sé “Tired and Emotional” eða að þeir i snætt “góðan hádegisverð” (“had a good lunch”).

Ef þingmaðurinn hefur bersýnilega farið nokkuð vel yfir strikið er stundum látið að því liggja að hann hafi snætt “mjög” góðan hádegisverð.

Þessa vitneskju mína á ég að þakka nýrri heimildarmynd BBC um drykkjuskap breskra þingmanna. Þarna var rætt við þingmenn, ráðherra og aðstoðarmenn um áfengisþorsta valinkunnra fulltrúa lýðræðisins af furðu mikilli bersögli.

Í þættinum voru til dæmis spilaðar ræður ráðherra og þingmanna sem allar voru skýr sýnishorn um að áfengi er ekki nauðsynlega til þess fallið að skerpa dómgreind manna. Þá voru sýndar myndir af afvelta utanríkisráðherra í stjórn Wilsons í kjólfötum.

Frægasti drykkjurútur Breta er án efa Churchill. Samkvæmt myndinni á hann að hafa klárað 2-3 koníaksflöskur á dag þegar best lét.

Einhvern tíma á Churchill að hafa reynt að stilla drykkju sinni í frekara hóf. Þá setti hann sér þá reglu að fá sér ekki koníak fyrir hádegismat. Þeirri reglu var hins vegar fljótlega breytt yfir í bindindi fram að morgunmat.

Tekið skal fram að þessi regla gilti strangt til tekið “fram að” morgunmat og kom ekki í veg fyrir að drukkið væri með morgunmatnum.

Enginn þeirra sem vann með Churchill minntist þess þó að hafa séð hann nokkru sinni drukkinn. Maðurinn hefur líklega verið með fílslifur.