fimmtudagur, apríl 27, 2006

Lakkrís.


Íslenskur lakkrís er með því besta sem Sylvía fær. Sjálfur er ég ekki mikil aðdáandi og undir eðlilegum kringumstæðum ætti það að hjálpa mér að horfa á málin af hlutleysi. Til dæmis er ég sannfærður um það að íslenskur lakkrís sé nú illskárri mörgum útlendum lakkrístegundum.

Um þetta eru útlendingar sem ég þekki ekki ósammála mér. Á því hefur til dæmis verið haft orð við mig að íslenskur lakkrís sé einstaklega klístraður og ógirnilegur á að líta. Það er sjaldan sem útlendu fólki hugnast einu sinni að smakka hann.

Ef orðinu lakkrís er flett upp á vef Alþingis kemur þar upp merkileg ræða sem flutt var nákvæmlega 24. mars 1993 kl. 13.52. Þar sagði orðrétt:

,,Hv. þm. Árni Johnsen fór til Kína fyrir nokkru síðan og opnaði lakkrísverksmiðju ( Gripið fram í: Og flutti kveðju frá landbrh.) og flutti kveðju frá landbrh. Ég sé að einstaka þingmenn hér í salnum eru eitthvað að gera grín að þessu og eru sposkir á svipinn. Ég geri ekki grín að þessu. Ég tel þetta lofsvert hjá þingmanninum Árna Johnsen og lofsvert hjá landbrh. að senda íslenskan þingmann til Kína til að vera viðstaddur opnun þessarar lakkrísverksmiðju. Það getur nefnilega vel verið að þessi lakkrísverksmiðja í Kína eigi eftir að gefa íslendingum miklu meiri hagnað en EES-ævintýri hæstv. utanrrh. Og þegar upp verður staðið snemma á 21. öldinni muni menn frekar hengja upp myndir af hv. þm. Árna Johnsen en hæstv. utanrrh. Jóni Baldvin Hannibalssyni því að hv. þm. Árni Johnsen hafi haft meira nef fyrir því hvar gróðavonina var að finna en hæstv. utanrrh. Það eru um það bil 1.000 millj. íbúar í Kína. Þeir geta borðað mikið af lakkrís. Íslendingar sem fengju sterka stöðu á þeim markaði geta skilað tekjum og arði til þjóðarbúsins í nánast himinháum stærðum. En hér hlæja menn að þessu og telja þetta eitthvert grín. Gott ef Pressan var ekki að reyna að búa til þann féttaflutning fyrir nokkrum mánuðum að þessi lakkrísverksmiðja væri ekki til. Bærinn sem henni væri ætlað að vera í fyndist ekki á landabréfum og ég veit ekki hvað og hvað. Þannig hefur málflutningurinn verið."

Örlög þessarar lakkrísverksmiðju eru mér hulin ráðgáta. Ef ég vissu hver þau væru svæfi ég sjálfsagt eilítið fastar.