mánudagur, apríl 17, 2006

Blint stefnumót.


Í gærkvöldi fór ég á blint stefnumót með tilvonandi eiginkonu minni.

Nú geri ég mér vel grein fyrir því hugtakið blint stefnumót hljómar býsna einkennilega í eyrum margra, og þá sérstaklega ef maður fer á það með sinni heitmey. Áður en lengra er haldið skal það því tekið fram að Sylvía fór jafnframt á blint stefnumót með mér og annað fólk kom hvergi við sögu.

Stórhátíðir fjarri nánustu fjölskyldu eru óhjákvæmilega einkennilegur tími. Maður er algerlega sviptur þeirri kjölfestu sem áralangar hefðir hafa vanið mann við. Ekkert kemur nákvæmlega í stað hennar.

Í ljósi þessa hugsuðum við hjónaleysin að það væri svo sem ekki frágangsök þótt páskahátíðin þetta árið yrði ennþá einkennilegri. Að svo búnu pöntuðum okkur borð á nýopnuðum veitingastað í hverfinu okkar, Dans Le Noir (sjá mynd).

Dans Le Noir er franskur veitingastaður. Um daginn var sagt um hann í blaði að hann væri eini staðurinn í London sem höfðaði á engan hátt til hégómagirndarinnar.

Þegar við komum inn á staðinn vorum við beðin kurteislega um að taka af okkur og skilja öll verðmæti, einkum farsíma eftir í öryggishólfi staðarins. Þá pöntuðum við “The Surprise Meal” af matseðlinum.

Í kjölfarið vorum við kynnt fyrir George, þjóni okkar þetta kvöldið. George var klæddur í svartan bol sem á stóð slagorð staðarins: “There is no darkness, only ignorance.” Það var sérstaklega vel til fundið þar sem George er - eins og flest starfsfólk staðarins – blindur.

George bað okkur um að leggja hönd á öxl hans, mynda röð og fylgja sér inn í matsalinn, sem luktur er allmörgum, þykkum tjöldum. Hið síðastnefnda gerir að verkum að í salnum er kolniðamyrkur. Kolniðamyrkur er greinilega alls ólíkt rökkri þótt þessu tvennu sé oft ruglað saman.

Við fylgdum George bókstaflega í blindni. “Please try to grab for your chairs” sagði George, sem hafði greinilega góða tilfinningu fyrir því hvar borðið væri þótt við hefðum ekki hugmynd. Í myrkrinu var George fljótari að færa okkur vatn, brauð og vín en margir þjónar með fulla sjón í dagsbirtu.

Það er undarlega róandi að borða í myrkri. Maður neyðist til að hægja á öllum hreyfingum og slaka á. Þegar haft var orð á þessu við George bætti hann við: “There is also nothing to occupy your eyes.”

Ekki var alveg þrautalaust að finna matinn á disknum, hvað þá að finna hvað það var. Hlutfallslega var maður búinn að borða einkennilega mikið af sætum kartöflum og sveppamauki áður en fyrsti kjötbitinn rataði rétta leið. Bitinn var of meyr til að vera svínakjöt, og líktist á engan hátt lambakjöti sem það var þó næst.

Eftir á var okkur sagt að þetta væri fasani. Ég myndi alveg vera til í að prófa fasana aftur, og þá sjá hvernig hann lítur út matreiddur.

9 Innlegg:

Blogger sylvia sagði...

...Og ég sem fór í sparifötin:)

2:01 e.h.  
Blogger sylvia sagði...

...Og ég sem fór í sparifötin:)

2:02 e.h.  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Vá, þetta hefur verið mögnuð máltíð!!!
Ég verð annars í Lundúnum frá fimmtudegi til sunnudags. Ef þið eruð ekki of upptekin við námið gætum við kannski mælt okkur mót?

7:27 e.h.  
Blogger Unknown sagði...

Óóóóóóóóótúúúúúlegt!!!!
Vá.
Mj. spes.

7:28 e.h.  
Blogger KjartanB sagði...

Líst að sjálfsögðu mjög vel á hitting. Láttu bara heyra í þér á netfangið K.Bjorgvinsson@lse.ac.uk eða í síma 0044 07738 290295 hvernig ferðaáætlanir þínar eru og dagskrá.

8:47 e.h.  
Blogger sylvia sagði...

Við getum kannski hist á Newsburgh street nr. 5!!!

8:48 e.h.  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Væntanlega lúxus að starfa sem kokkur þarna, þurfa ekkert að pæla í því hvort diskurinn líti vel út :-)

5:03 f.h.  
Blogger Nielsen sagði...

Magnaður staður!
Þetta verð ég að prófa.

Ég leitaði upp fasan og fann eftirfarandi "fyrir og eftir" myndir:

fyrst:
http://www.hlasek.com/foto/phasianus_colchicus_8796.jpg

svo:
http://www.annissegaard.dk/Billeder/fasan-2.jpg

síðan:
http://www.weimaraner.dk/images/fotoside/Dirty%20med%20fasan%20fra%20folder%20foto%20beskaret.jpg

að lokum:
http://www.2020site.org/carving/images/dish1.gif

6:19 f.h.  
Blogger �engill sagði...

Hehe sniðugt, ég á Weimaraner!!! ;)

8:29 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home