laugardagur, apríl 15, 2006

Fagurt mannlíf.

Í hádeginu um síðustu helgi mætti ég manni í sólskininu. Hann var klæddur einkennisbúningi borgarstarfsmanna og ók á undan sér stórri ruslatönnu sem við var festur kústur. Á handfangi tunnunnar hékk vasaútvarp. Úr því hljómaði bein lýsing á leik Tottenham og Manchester City. Þegar sagt var að Tottenham hefði brennt af dauðafæri andvarpaði maðurinn.

Ég veit ekki hvað það var en eitthvað í mér ákvað að halda með Tottenham í þessum leik.

Þegar ég kom út úr Russell Square lestarstöðinni mætti ég útigangsmanni sem hélt á fjórum dagskortum ferðamanna sem greinilega höfðu ekki not fyrir þau lengur.

Það er langt síðan ég hef heyrt nokkurn segja orðin “Thank you” jafnoft. .

Á leiðinni í skólann er Great Ormond Street barnaspítalinn, sennilega einn þekktasti spítali sinnar tegundar í heiminum. Ég hef aldrei séð börn þar í kring sem eru sjáanlega veik enda er móttakan fyrir innlagnir í porti bak við spítalann.

Við aðalinnganginn sér maður hins vegar reglulega foreldra ásamt barni sem eru greinilega að fara heim saman eftir innlögn á spítalanum. Það er ekki lítil gleðin yfir þeim andlitum og ekki heldur leiðinlegt að verða vitni að henni.

0 Innlegg:

Skrifa ummæli

<< Home