föstudagur, apríl 21, 2006

Víðavangshlaup á sumardaginn fyrsta

Já, góðir Íslendingar til hamingju með sumarið! Ég tók eftir því á mbl.is að víðavangshlaupið er enn við lýði og var ræst í 92. sinn í gær. (frekar en 91. man það ekki alveg).


Þegar ég var ellefu ára átti ég vin sem heitir Jón Helgi. Hann var besti vinur minn og það var alltaf mjög skemmtileg dýnamík á milli okkar. Hún var þannig að ef okkur datt eitthvað í hug þá framkvæmdum við það. Okkur langaði til dæmis einu sinni að vinna í sjoppu. Við sáum fljótt að reikningskunnátta okkar gæti reynst vel þegar leggja ætti saman bland í poka (við vorum líka staðráðin í því að við myndum hreppa inn fleiri kúnna með að slumpa soldið upp í pokana og safna þannig eðal-fastakúnnum sjoppueigandanum okkar verðandi til mikils gróða). Þrátt fyrir að hafa farið í all flestar sjoppur á höfuðborgarsvæðinu sá engin sér fært um að bæta við sig starfskröftum. Við ákváðum því að stofna okkar eigin. Mömmur okkar reyndu þó að leggja stein í götu okkar og sögðu okkur frá því að fólk yrði að vera með sérstakt leyfi til slíks reksturs. Við létum sko ekki neina skriffinnsku stoppa okkur heldur urðum okkur út um leyfi frá Berki Skúlasyni hjá lögreglunni í Reykjavík og rákum svo sjoppu í c.a viku.

Eitt sinn fannst Jóni Helga vera kominn tími á að við myndum sína hlaupahæfileika okkar og við skráðum okkur í víðavangshlaupið á sumardaginn fyrsta. Ég átti þá glansandi grænar stuttbuxur mjög skrítnar í sniðinu, en til þess að geta harkað það af mér að vera í þeim var ég í ullargammósíum sem klæjaði alveg óskaplega undan. Við stilltum okkur upp fremstu víglínu og biðum eftir því að hlaupið yrði ræst. Þegar á leið á biðina tróðu hávaxnir karlmenn sem greinilega tóku hlaupið jafnalvarlega og við fyrir framan okkur og leist nú ekki á að þessir krakkagemlingar ætluðu að tefja fyrir þeim. En við hugsuðum einmitt það sama við uppstillinguna en um þessi hægu gamalmenni. Svo tók hlaupið við.

Þetta var einkennilegasta hlaupaleið sem ég hef séð. Maður átti að hlaupa í einhverja endalausa hringi um litla og stóra Hljómskálagarð til skiptis. Við urðum fljótt þreytt eftir fyrsta hring svo við drifum okkur bara í markið við mikinn fögnuð áhorfenda. Við lentum í 2 og 3ja sæti. Fyrst urðum við voða stolt af þessari frammistöðu okkar. Svo rann það upp fyrir okkur að við værum náttúrlega svindlarar ef við tækjum við medalíunum. Ég man að hafa farið til skipuleggjandans eins og kúkur og segja honum frá þessum “misskilningi”. Síðan þá hef ég aldrei tekið þátt í hlaupi.