sunnudagur, október 23, 2005

Skólavikan

Skólinn er byrjaður á fullu núna. Fyrstu ritgerðarskrifin í höfn. Búin að fá nýja tölvu og allt að gerast. Tölvan kom samt á sama degi og ég var að skrifa ritgerðina svo ég þurfti að sitja á mér og dást af nýju tölvunni meðan ég pikkaði á þá gömlu.


Boxið stækkaði óneitanlega þegar við Kjartan komumst að því að það væri skvassvöllur hjá okkur í kjallaranum. Við settum okkur í stellingar og Kjartan sagðist kokhraustur hafa spilað skvass áður og kynni reglurnar. Ég ákvað að treysta Kjartani enda þaulkunnugur heimi reglugerða og lagasetningar. En lögfræðingurinn mér til mikillar furðu hafði ekki unnið heimavinnuna nógu vel þannig að upphófst hið mesta stjórnleysi. Það er alveg ótrúlegt hvað reglur skipta miklu máli í íþróttum.

Við lærðum svo reglurnar og erum öll að koma til í skvassinu.

Um tímans óvissa afstæði.


Á mánudagskvöldið fórum við Sylvía á fyrirlestur um Terrorism og Development hérna í skólanum.

Það er ekki hægt að segja annað en efnið hafi verið áhugavert fyrirfram. Það breyttist snarlega þegar á hólminn var komið. Fljótlega gekk í pontu bandarískur prófessor að nafni James Gadsen. Fræðilegt framlag hans til orðræðunnar þetta kvöld var stranglega afmarkað. Nánar tiltekið gekk það út á að rekja hvernig Bandaríkjastjórn hefði ráðist inn í Írak undir því yfirskyni að þar væru gereyðingarvopn. Þau hefðu hins vegar ekki fundist.

Einhvern tíma var mér sagt að ræðuhöld í fjölmenni væri það sem flest fólk óttaðist mest. Dauðinn kemur í öðru sæti þar á eftir. Ef þetta er rétt er James Gadsen með hugrakkari mönnum. Mér hefði til dæmis ekki liðið vel að standa þarna upp á sviði fyrir fullum sal með sambærilegt erindi. Gadsen var hins vegar hvergi smeykur og fór yfir þetta allt saman af aðdáunarverðu seinlæti.

Óhjákvæmilega var mér hugsað til þess að sjaldan eða aldrei hefðum við Sylvía upplifað jafn-hægar 45 mínútur í lífi okkar. Að vísu liðu mínúturnar nokkru hægar þegar við fórum á japanska Hibiki-dansleikhúsið á listahátíð 2005. Það voru hins vegar 100 mínútur og því ekki marktækur samanburður.

Á þriðjudagskvöldið fór ég síðan á Siegfried Wagners í Covent Garden. Mætti beint eftir skóla þar sem sýningin hófst á slaginu fimm. Þegar tjaldið féll vantaði klukkuna 20 mínútur í ellefu.

Ef ekki hefðu verið hlé þá hefði ég ekki haft hugmynd um hvað klukkan var. Þetta voru hraðar 340 mínútur.