föstudagur, nóvember 04, 2005

Hugljuf sending

Í gær urðum við svo heppin að fá pakka. Pakkinn innihélt listaverk frá upprennandi listamanni frá Noregi. Camillu. Nú hefur boxið fengið nýja ásýnd. Fimm ný listaverk hafa verið hengd upp. Ætli það sé ekki bara best að láta verkin tala:








Í nánd mannkynssögunnar.

Rakst á Monicu Lewinsky á leið minni úr tíma. Monica er búinn að skipta um hárgreiðslu og lita á sér hárið. Þá hefur hún grennst.

Ég leit undan um leið og ég bar kennsl á hana og hélt áfram göngu minni. Líklega eru fáar manneskjur í heiminum sem hafa verðskuldað meira að vera látnar í friði.

miðvikudagur, nóvember 02, 2005

Andófsmaður á hæðinni.

Á hæðinni okkar býr andófsmaður. Þennan mann hef ég aldrei séð. Sylvía hefur einu sinni rekist á hann. Samkvæmt henni er hann sennilega tyrkneskur.

Andófsmaður var algengt orð í Morgunblaðinu á 9. áratugnum. Þá voru reglulega birtar fréttir af því hvað andófsmaðurinn Sakharov eða andófsmaðurinn Solzhenitzyn væru að gera. Einhverra hluta vegna fannst mér þetta aldrei neitt sérstaklega fréttnæmt.

Orðið ,,andófsmaður er greinilega” á undanhaldi í Morgunblaðinu. Síðastliðið ár hefur það til dæmis aðeins birst þrisvar í Morgunblaðinu. Á sama tíma 1988 hafði það birst í 56 greinum.

Andófsmaðurinn í International Hall hefur hingað til ekki beitt sér gegn stjórnmálaástandi, trúarbrögðum eða stríðsrekstri. Andóf hans ber hins vegar vitni um árekstur ólíkra menningarheima. Slíkir árekstrar geta greinilega ekki síður æst fólk upp en áðurnefnd fyrirbæri.

Andófsmaðurinn gerði vart við sig á fyrsta degi komu okkar. Þann dag nýtti hann sér rétt sinn samkvæmt alþjóðlegum mannréttindasáttmálum með því að hengja upp tilkynningu á ganginum sem innihélt eftirfarandi texta: ,,Stop cooking all that garlic!”. Svo mörg voru þau orð.

Skömmu eftir þetta birtist tilkynning frá yfirvöldum hér í International Hall á sama stað. Var íbúum þar bent á að hengja ekki upp tilkynningar á göngunum. Þess í stað ættu þeir að nota þar til gerða töflu í anddyrinu.

Eftir þetta spurðist lítið til andófsmannsins. Verður að viðurkennast að mér þótti þetta heldur snautlegt andóf, fyrst ekki þurfti meira til að kveða það í kútinn. Reyndar sá Sylvía einu sinni til andófsmannsins með Airwick úðabrúsa á lofti, dæsandi þungan yfir hvítlauksanganinni. Það var eins og hann hefði játað sig sigraðan.

Í gær sást hins vegar aftur lífsmark með andófsmanninum þegar á ganginum gat að líta þessa tilkynningu:



Andófsmaðurinn er greinilega hvergi nærri hættur.

sunnudagur, október 30, 2005

Valkvíði



Ef ég lít aðeins tilbaka, svona þrjár vikur, þá þjáðist ég af óttarlegum valkvíða þegar ég byrjaði í skólanum. Valkvíðinn einkenndist fyrst og fremst af því hvaða kúrsa ég ætti að velja. Ég hafði enga undankomu leið aðra en að velja visst marga kúrsa sem gáfu visst margar einingar, víst ég var nú komin hingað á annað borð.

Ég var samt að velta því fyrir mér öðrum tegundum valkosta. Ég stend mig oft að því að rölta um bæinn og dást að fallegum flíkum og áhugaverðum bókum en geta ekki valið á milli þeirra. Stundum held ég að of margir valmöguleikar geri það að verkum að maður velji frekar ,,status quo” þ.e.a.s sleppi þessu bara.

Ég gleymi því aldrei þegar ég var eitt sinn með pabba og mömmu á ferðalagi um fyrrverandi Júgóslavíu. Við vorum uppiskroppa af sjampói og ákváðum að stoppa í verslun á leiðinni. Þegar við spurðum búðarkonuna um sjampó svaraði hún ,,kleine” eða ,,grosse” (einhverra hluta vegna var samskiptamátinn á þýsku) og við fjölskyldan gengum ánægð út með sjampóbrúsan okkar.

Um daginn fór ég hinsvegar í sjampóleiðangur hér í lundúnaborg. Það voru svo margar tegundir að ég nennti ekki að setja mig inn í þetta og ákvað að kaupa bara sjampóið seinna. – Kannski í annarri búð með færri valmöguleikum?