laugardagur, apríl 22, 2006

,,Manstu daginn þegar..."

Þegar maður situr fyrir framan tölvu heilu næturnar og pikkar inn samanofinn texta úr nokkrum fræðigreinum (helst soldið mörgum) því fleiri fræðigreinar því lengri heimildaskrá og því betri ritgerð, kryddar svo þetta með nýrri og feskri hugsun að manni finnst, ef að hún er þá til, þá á maður sér eiginlega ekkert líf.

Ég efast um að ég muni nokkru tíma hugsa manstu daginn þegar ég skrifaði barasta 4 heilar blaðsíður um kerfisflæði, um mína persónulega stefnumótun, um árangursríka hópavinnu, um siðfræði aðgerðarrannsakarans eða biðaraðafræði (allt þetta eitt fag, dýrasta eining sem ég hef tekið).

Ónei, svona dagar hafa engan þannig sjarma yfir sér. Þeim er öllum hægt að slá saman í eitt tímabil. Í mesta lagi getur maður sagt manstu tímabilið þegar ég framleiddi froðutextana miklu. Svona dagar eru til þess að aðrir dagar verði ,,manstu daginn þegar...” Sá dagur verður manstu daginn þegar ég útskrifaðist. Mikið verður sá dagur ljúfur. Þann dag verð ég búin að gleyma þessum degi. Sem er kannski ágætt.

föstudagur, apríl 21, 2006

Víðavangshlaup á sumardaginn fyrsta

Já, góðir Íslendingar til hamingju með sumarið! Ég tók eftir því á mbl.is að víðavangshlaupið er enn við lýði og var ræst í 92. sinn í gær. (frekar en 91. man það ekki alveg).


Þegar ég var ellefu ára átti ég vin sem heitir Jón Helgi. Hann var besti vinur minn og það var alltaf mjög skemmtileg dýnamík á milli okkar. Hún var þannig að ef okkur datt eitthvað í hug þá framkvæmdum við það. Okkur langaði til dæmis einu sinni að vinna í sjoppu. Við sáum fljótt að reikningskunnátta okkar gæti reynst vel þegar leggja ætti saman bland í poka (við vorum líka staðráðin í því að við myndum hreppa inn fleiri kúnna með að slumpa soldið upp í pokana og safna þannig eðal-fastakúnnum sjoppueigandanum okkar verðandi til mikils gróða). Þrátt fyrir að hafa farið í all flestar sjoppur á höfuðborgarsvæðinu sá engin sér fært um að bæta við sig starfskröftum. Við ákváðum því að stofna okkar eigin. Mömmur okkar reyndu þó að leggja stein í götu okkar og sögðu okkur frá því að fólk yrði að vera með sérstakt leyfi til slíks reksturs. Við létum sko ekki neina skriffinnsku stoppa okkur heldur urðum okkur út um leyfi frá Berki Skúlasyni hjá lögreglunni í Reykjavík og rákum svo sjoppu í c.a viku.

Eitt sinn fannst Jóni Helga vera kominn tími á að við myndum sína hlaupahæfileika okkar og við skráðum okkur í víðavangshlaupið á sumardaginn fyrsta. Ég átti þá glansandi grænar stuttbuxur mjög skrítnar í sniðinu, en til þess að geta harkað það af mér að vera í þeim var ég í ullargammósíum sem klæjaði alveg óskaplega undan. Við stilltum okkur upp fremstu víglínu og biðum eftir því að hlaupið yrði ræst. Þegar á leið á biðina tróðu hávaxnir karlmenn sem greinilega tóku hlaupið jafnalvarlega og við fyrir framan okkur og leist nú ekki á að þessir krakkagemlingar ætluðu að tefja fyrir þeim. En við hugsuðum einmitt það sama við uppstillinguna en um þessi hægu gamalmenni. Svo tók hlaupið við.

Þetta var einkennilegasta hlaupaleið sem ég hef séð. Maður átti að hlaupa í einhverja endalausa hringi um litla og stóra Hljómskálagarð til skiptis. Við urðum fljótt þreytt eftir fyrsta hring svo við drifum okkur bara í markið við mikinn fögnuð áhorfenda. Við lentum í 2 og 3ja sæti. Fyrst urðum við voða stolt af þessari frammistöðu okkar. Svo rann það upp fyrir okkur að við værum náttúrlega svindlarar ef við tækjum við medalíunum. Ég man að hafa farið til skipuleggjandans eins og kúkur og segja honum frá þessum “misskilningi”. Síðan þá hef ég aldrei tekið þátt í hlaupi.

miðvikudagur, apríl 19, 2006

Varúð: Vond fyrirsögn.

“Tilgangsleysi lífsins í röklausum heimi.”- Ég hef rekist á þessu setningu núna stanslaust á netinu í tvær vikur. Þetta er víst fyrirsögn á einhverri umfjöllun um Samuel Beckett.

Ég hef séð þessa setningu áður. Mig minnir að hún hafi verið aftan á safnritinu sem gefin var út með verkum Becketts í þýðingu Árna Ibsens 1987. Gott ef hún var ekki líka notuð í íslensku alfræðiorðabókinni nokkrum árum síðar.

Notkun þessarar fyrirsagnar var ekki til þess fallin að vekja áhuga minn á að lesa lengra.Ef ég man samt kynni mín af Beckett rétt þá er þessari lýsingu á verkum hans ætlað að gefa til kynna að lífið sé nöturlegt, einmitt vegna þess að það sé röklaust og tilgangslaust.

Kannski er það til marks um að ég sé grunnhyggnari en sumir velvildarmenn mínir mundu láta. Öfugt við Beckett finnst mér lífið einmitt sjaldan betra akkúrat þegar maður lifir því hvorki með tilgang né rök í huga.

Í kvöld lét ég á þetta reyna. Um sexleytið tók ég lestina um 15 mínútna leið norður í bæ. Þar hafði ég mælt mér mót við Harry nokkurn, sem ég vissi ekki frekari deili á en að hann hafði símanúmerið 07958102254.

Á leið minni urðu nokkrar tafir þar sem ég mætti rútu. Mikill mannfjöldi safnaðist um rútuna og ég slóst í hópinn. Í hvert skipti sem einhver steig úr rútunni klöppuðu ég og mannfjöldinn eins og við ættum lífið að leysa.

Þegar ég hitti Harry rétti hann mér eftirfarandi bréfssnifsi. Ég mun taka það með mér í gröfina hvað ég borgaði fyrir það.



Eftir fór ég á staðinn sem miðinn gaf til kynna. Það var klukkustund í að tilefni komu minnar hæfist. Ég ætlaði að nota tímann og lesa í Human Rights og Civil Liberties eftir Steve Foster. Þegar á reyndi gat ég ómögulega fest hugann við bókina. Vissulega var tilgangur í að lesa hana, þar sem ég fer í próf úr henni 5. júní. Ég var hins vegar ekki í tilganginum. Ég var í núinu.



Klukkan 19.45 var ég farinn að öskra hvatningaróp til stuðnings mönnum sem ég er ekki einu sinni málkunnugur, þótt ég þekki þá vissulega með nafni. Mér til málsbóta gerðu 30.000 manns hið sama. Ekki gat ég verið félagsskítur.

Eftir það voru sungnar nokkar vel þekktar dægurflugur, með breyttum textum. T.d. “There is Only One Arsene Wenger.” (Lag: Guandalamera) og “We´ve Got the Best Player in the World.” (Lag: He´s Got the Whole World in his Hands.)

Gulklæddu aðkomumennirnir á grasinu fyrir framan okkur fengu hins vegar fremur kaldari kveðjur. Ég ákvað að vera félagsskítur þegar að þeim kom og lét duga að kalla “cheat” ef mér þótti tilefni vera til.

Eftir slímusetur og fræðilegar vangaveltur undanfarna daga var svo sannarlega gott að eiga kvöld þar sem hvorki tilgangur né rök komu neitt við sögu.

Viðeigandi ávarp – lært af reynslunni


Hér í Bretlandi er mjög auðvelt að vera óviðeigandi gjörsamlega óafvitandi og ómeðvitað (þrjú ó). Nú hefur mér til dæmis verið kennt það hvurnig eigi að ávarpa lærifeður og- konur mínar. En sú kennsla var lærð af reynslunni (e. Learning by doing), en sú aðferð reynist oft hin áhrifaríkasta og þykir móðins í dag.

Ég semsagt sendi tölvupóst til kennarans “John Robert” (köllum hann bara það) þar sem ég ávarpaði hann, virðulega að mér fannst:

Dear Roberts”

Hann svaraði:
“Ask X. what happened when (s)he called me “Dear Roberts”.

Ég svaraði:
“I did not get hold on X. but I guess it should have been Dear Robert, I apologise”.

Ég náði í skottið á X. og komst að því að sá/sú hafði fengið langan póst með engu essi, svo þetta var líklegast rétt hjá mér. Ég skildi svo sem manninn þar sem mér er oft ruglað saman við einhverja Silvíu sem ég þekki ekki.

Hann svaraði svo:

"In fact, you wouldn't normally address me by my surname unless you were a male of my own age that I had been to school with, and even that is a bit old-fashioned nowadays. It can sound a bit rude otherwise.If you wish to be formal, it's title, then surname. So Mr X, Dr Y, Prof. Z. If informality is OK (which it is with me) then dear John would be normal. However, it's normally safer to be formal until invited to be informal. Some people will be upset by being addressed by their Christian name. If you wish to conduct a controlled experiment, try calling Dr Y by his surname and see what happens. Better still, persuade someone else to try it!"

Ég er enn að hugsa út í það. Afhverju tekur hann sérstaklega fram ”male” sem hann hafði verið í skóla með? Það er samt eitthvað sem segir mér það að það sé ekki viðeigandi að spyrja hann út í það.

Jæja, ég klikka ekki á þessu í framtíðinni.

mánudagur, apríl 17, 2006

Blint stefnumót.


Í gærkvöldi fór ég á blint stefnumót með tilvonandi eiginkonu minni.

Nú geri ég mér vel grein fyrir því hugtakið blint stefnumót hljómar býsna einkennilega í eyrum margra, og þá sérstaklega ef maður fer á það með sinni heitmey. Áður en lengra er haldið skal það því tekið fram að Sylvía fór jafnframt á blint stefnumót með mér og annað fólk kom hvergi við sögu.

Stórhátíðir fjarri nánustu fjölskyldu eru óhjákvæmilega einkennilegur tími. Maður er algerlega sviptur þeirri kjölfestu sem áralangar hefðir hafa vanið mann við. Ekkert kemur nákvæmlega í stað hennar.

Í ljósi þessa hugsuðum við hjónaleysin að það væri svo sem ekki frágangsök þótt páskahátíðin þetta árið yrði ennþá einkennilegri. Að svo búnu pöntuðum okkur borð á nýopnuðum veitingastað í hverfinu okkar, Dans Le Noir (sjá mynd).

Dans Le Noir er franskur veitingastaður. Um daginn var sagt um hann í blaði að hann væri eini staðurinn í London sem höfðaði á engan hátt til hégómagirndarinnar.

Þegar við komum inn á staðinn vorum við beðin kurteislega um að taka af okkur og skilja öll verðmæti, einkum farsíma eftir í öryggishólfi staðarins. Þá pöntuðum við “The Surprise Meal” af matseðlinum.

Í kjölfarið vorum við kynnt fyrir George, þjóni okkar þetta kvöldið. George var klæddur í svartan bol sem á stóð slagorð staðarins: “There is no darkness, only ignorance.” Það var sérstaklega vel til fundið þar sem George er - eins og flest starfsfólk staðarins – blindur.

George bað okkur um að leggja hönd á öxl hans, mynda röð og fylgja sér inn í matsalinn, sem luktur er allmörgum, þykkum tjöldum. Hið síðastnefnda gerir að verkum að í salnum er kolniðamyrkur. Kolniðamyrkur er greinilega alls ólíkt rökkri þótt þessu tvennu sé oft ruglað saman.

Við fylgdum George bókstaflega í blindni. “Please try to grab for your chairs” sagði George, sem hafði greinilega góða tilfinningu fyrir því hvar borðið væri þótt við hefðum ekki hugmynd. Í myrkrinu var George fljótari að færa okkur vatn, brauð og vín en margir þjónar með fulla sjón í dagsbirtu.

Það er undarlega róandi að borða í myrkri. Maður neyðist til að hægja á öllum hreyfingum og slaka á. Þegar haft var orð á þessu við George bætti hann við: “There is also nothing to occupy your eyes.”

Ekki var alveg þrautalaust að finna matinn á disknum, hvað þá að finna hvað það var. Hlutfallslega var maður búinn að borða einkennilega mikið af sætum kartöflum og sveppamauki áður en fyrsti kjötbitinn rataði rétta leið. Bitinn var of meyr til að vera svínakjöt, og líktist á engan hátt lambakjöti sem það var þó næst.

Eftir á var okkur sagt að þetta væri fasani. Ég myndi alveg vera til í að prófa fasana aftur, og þá sjá hvernig hann lítur út matreiddur.

sunnudagur, apríl 16, 2006

Að vera B týpa


Stundum öfunda ég A týpur. Heimurinn snobbar fyrir A týpum. Það þykir mjög fínt að vera A týpa. Því fyrr sem fólk vaknar því meiri dyggð er yfir því. Það að einhver hafi vaknað fyrir sjö og farið í sund áður en hann hafi farið í vinnuna gerir hann reffilegri yfir daginn. Eða ef sá hinn sami fór ekki í sundið heldur vaknaði kl 6 til þess að koma saman glærusjóvi sem sýna átti eftir hádegi með samstarfsfélögunum.

Það hefði nú ekki þótt par fínt ef fyrrnefndur hefði vakað langt fram á nótt til þess að klára þetta. Það er ómennska. Því fólk sem vinnur frameftir er í einhverskonar stjórnleysi. Sá sem vaknar, er hafinn yfir það að vera þreyttur og hefur fullkomna sjálfstjórn.

Við Kjartan erum bæði B týpur. Það væri hrikalegt ef annað okkar væri A og hitt B. Sérstaklega þegar að box með rúmum í vegg eru annars vegar. En þegar við erum námsmenn og þurfum ekki að mæta t.d. í tíma þá snýst sólarhringurinn við með tilheyrandi samviskubiti.

Já. Það er bara nett samviskubit í því að vakna kl 12 eða jafnvel 13 þegar fólk á að vera að læra. Um leið og maður vaknar hugsar maður til A týpnanna sem eru ferskar í bragði búnar að læra síðan gvuð má vita hvenær. Þetta veldur því að morgunmaturinn/hádegismaturinn er gjarnar brauðsneið + slatti af kaffi yfir tölvunni. Maður leyfir sér einn bloggrúnt en helst ekki of lengi. Nú svo hefst lestur og skriftir. Það er varla að maður taki pásu því þær á maður ekki inni ef maður vaknar svona seint. Einungis A týpur mega taka pásur. Svo er það kvöldmaturinn sem að er í raun kannski á B mælikvarðanum barasta hádegismatur. Þá tekur kaffi, lestur og skriftir....framm á rauða nótt...af því að maður vaknaði svo seint.