Á kjördag.

Einn af fáum lagabókstöfum sem framkölluðu bros í huga mér þegar ég sat yfir skruddunum forðum daga var grein í áfengislögum sem mælti fyrir um að áfengissölubúðir skyldu vera lokaðar á þeim dögum sem kosningar til Alþingis og sveitarstjórna færu fram. Mér fannst alltaf eins og þetta ákvæði varpaði ákveðnum dýrðarljóma á gildi hinnar lýðræðislegu hugsunar.
Ákvæðið sýndi augljóslega líka fram á ákveðna togstreitu milli Alþingis og forseta Íslands. Það gaf dæmis sterklega til kynna að menn yrðu að ganga alls gáðir til atkvæðagreiðslu í hreppsnefndina meðan það lét einu gilda þótt menn kysu sjálfan forseta Íslands við skál.
Eftir nýlega breytingu á áfengislögum eru útsölustaðir ÁTVR bæði opnir á kjördag í sveitarstjórnarkosningum sem Alþingiskosningum. Mér skilst að rökin fyrir breytingunni hafi verið “breyttir verslunarhættir”.
Kannski er þetta merki þess að fjármagnið sigri alltaf lýðræðið að lokum.