þriðjudagur, nóvember 07, 2006

Útvarp Reykjavík.

Klukkan er tólf. Ég sit í eldhúsinu við sjóinn og þyl upp úr mér margvíslegan fróðleik um skattamál á alþjóðavettvangi. Þetta er sérkennileg iðja, einkum vegna þess að hér er ég einn og algerlega laus við nokkuð sem heitir áheyrendur.

Þrátt fyrir þetta er útlit fyrir að heimildir um þessar stundir úr lífi mínu glatist ekki alveg . Eins og reiðiköst Nixons í Hvíta húsinu forðum daga er verður þetta allt fest á band fyrir þá sagnfræðinga framtíðarinnar sem eru fróðleiksfúsari en góðu hófu gegnir.

Í fyrsta skipti á ævinni er ég þess heiðurs aðnjótandi að kenna eitthvað sem heitir fjarnám.

Fjarnám er merkilegt fyrirbrigði. Einhvern tíma heyrði ég mann lýsa kostum þess fjálglega og í löngu máli. Hann talaði um hvað fjarnám myndi skapa þekkingarsamfélag á stöðum þar sem fólk nennti ekki læra og horfði bara á vídeó.

Ég hélt reyndar ekki vel athyglinni yfir því sem hann varð að segja. Ég held samt að hann hafi eitthvað misskilið konseptið. Ég er minnsta kosti ekki að hugsa það sama og hann þar sem ég sit og les fyrirlestrana mína inn.

Ég er að hugsa um að til séu ættbálkar einhvers staðar úti í heimi sem vilja ekki að teknar séu ljósmyndir af sér. Fólk heldur þar að það missi sálina inn í vélina ef það er fest á filmu.

Sjálfum finnst mér miklu óhugnanlegra að lesa rödd mína inn á einhverja spiladós þar sem hún lifir sjálfstæðu lífi um ókomna tíð.

Ég vil ekki vera fordóma í garð ólíkra menningarheima en mér finnst beygur minn að þessu leyti vera rökréttari. Í mínum hugarheimi eru draugar verur sem fara þusandi eitt og annað án þess að við sjáum tangur né tetur af þeim. Mér finnst hljóðið úr mér án myndar vera hálfgerður draugur af sjálfum mér.

Það er margt sem kemur á óvart í lífinu. Kannski mun maður einhvern tíma komast að því að draugar séu til í raun og veru til dæmis. Einu getur fólk þó sofið alveg rólegt yfir og það er vissan um að ég fari aldrei að útvarpa sjálfum mér á þessari síðu.