laugardagur, ágúst 06, 2005

Eftirlegukind.

Hafi einhverjir verið í vafa um hver sé verri helmingurinn þegar kemur að því að færa upp þessa síðu (og reyndar um ýmislegt annað líka) þá skulu hér gefnar nokkrar vísbendingar.

Um er að ræða karlmann fæddan í Reykjavík 9. júlí 1976. Öfugt við betri helming sinn fór hann ekki upp á hæsta tind landsins snemmsumars. Þegar það ber á góma á hann það til að skjóta því að hann hafi nú kynnst alvöru háfjallaveiki af eigin raun í 4000 metrum. Hið síðastnefnda hljómar eins og hetjuörsaga. Raunveruleikinn var þó hvergi nærri hetjulegur.

Og meðan ég man: Á væntanlegu ,,heimili” hans og betri helmingsins í London eru litlar sem engar vistarverur. Ekki mjög heimilislegt heimili það.

Kennsluvertíðinni minni lýkur í næstu viku og þá tekur við betri tíð með blóm í haga. Treysti mér ekki til að lofa því að hugsa um þessa síðu af sömu natni og bonzai tré en tíðarfarið verður nú betra engu að síður.

Óskum sam- og tvíkynhneigðum vinum okkar til hamingju með daginn. Á það líka við þau ykkar sem hugsanlega eruð enn inn í skáp. Þið eigið stuðning okkar vísan – og vitið hér með af því.

Nú er bara að vona að kaþólski biskupinn í Reykjavík lesi ekki þessa síðustu málsgrein. Það væri sérkennilegt að kveðja landið með bannfæringu á bakinu.

fimmtudagur, ágúst 04, 2005

2110 (eða 2109,6)...

,,Mannfjöldi stóð fyrir framan stjórnarráðið þegar Halldór Ásgrímsson og Sigríður Anna Þórðardóttir tilkynntu hæð Hvannadalshnjúks". Ég fagna þessu framtaki Dóra og Siggu þar sem mér gefst langþráð tækifæri á að monta mig af því að hafa akrað á hnjúkinn fyrr í sumar. Sumarið hófst með fögrum fyrirheitum um að ferðast meira um landið og ganga á fjöll. Hef metið sem svo að ég hef greinilega toppað mig of snemma þar sem nýju gönguskórnir (...sem voru keyptir fyrir umrædda ferð ...sem vakti skelfingu og óhug ferðafélaga) hafa ekki verið teknir úr skottinu. Kom blöðru og hælsærislaus niður af toppnum en var með tréfætur í viku á eftir.

Fór á dragkeppnina í gær og sá heimildarmyndina ,,dragzilla queen of the mountain" þar sem dragdrottning fór á 20 cm háum hælum upp á Esju... afrek það!


Fyrstu skrefin.


Ágætis útsýni á leiðinni.


Frábærir ferðafélagar.


Á toppnum..


Mælingarnar okkar voru eins og í gömlu skólabókunum!