miðvikudagur, júní 07, 2006

Að velja og hafna.

Yfirleitt væri það engin spurning hvort ég ætti að fara á Sálumessu Brahms í St. Pauls 20. júní nk. Leikur Englands og Svíþjóðar í HM á sama tíma hefur hins vegar flækt málið. Sennilega er ég eini maðurinn í London sem á erfitt með að gera upp hug sinn til þessara viðburða.

Í dag fékk ég tölvupóst frá vini mínum Gian í Helsinki sem ég hélt að myndi einfalda líf mitt til muna. Erindið var þrítugsafmæli kærustunnar hans og vinkonu minnar, 20. júni, sem hann óskaði eftir hjálp minni við að skipuleggja. Það eru óskráð og óhagganleg lög að vinir manns ganga fyrir í svona aðstæðum.

Mitt verkefni í þessu öllu saman er að finna huggulegan og fínan stað fyrir okkur til að borða á. Ef það er eitthvað svið þar sem annars skeikul dómgreind mín er nánast óbrigðul þá er það einmitt að finna slíka staði.

Niðurlag bréfs Gians veldur mér hins vegar ákveðnum vandræðum: “Staðurinn þarf að vera smart og huggulegur og rúma um 15-20 manns. Á móti kemur að Englendingar og Svíar eru að spila á sama tíma, þannig að það þarf helst að vera skjár þarna þar sem hægt er að horfa leikinn.”

Næsta skref er sennilega að senda Gian svar og útskýra fyrir honum að líklegt er að hver einasti sjónvarpsskjár í landinu muni laða að sér um 20 sveitta Englendinga á þessum tíma. Það verði því veruleg áskorun að halda uppi huggulegri stemmningu við þær aðstæður.

Af mér er það annars að frétta að ég er búinn í prófum og úti er 27 stiga hiti. Það er auðvitað gjörsamlega fráleitt af hafa sóað mínútu af þessum aðstæðum í blogg á tölvu.