fimmtudagur, september 01, 2005

Við Íslendingar.

,,Við Íslendingar“ er orðasamband sem ég vil helst ekki heyra. Mér líkar ekki þegar fólk setur fram eigin skoðanir eins og þær séu settar fram í umboði þjóðarinnar allrar. Það er óneitanlega mjög landsföðurlegt samt.

Eitthvað virðist kveða meira að þessum tjáningarmáta á Íslandi en annars staðar. ,,We the British“ á til dæmis ekki roð í ,,Við Íslendingar í“ Google-bardaga (www.googlefight.com). ,,We the British“ nær alls 5.190 niðurstöðum. ,,Við Íslendingar“ nær hins vegar 14.200.

Til gamans má geta að fyrstu síðurnar sem koma upp ef leitað er eftir,,Við Íslendingar” eru síður Stjórnarráðsins og pólitískra samtaka.

,,Landkynning“ er ljótt orð og leiðinlegt. Orðið hljómar eins og góð og skemmtileg umfjöllun um Ísland í erlendum fjölmiðlum. Raunveruleg merking orðsins er hins vegar ,,smáþjóðakomplex“.

,,Átthagafjötrar“ eru held ég séríslenskt orð. Man ekki eftir svipuðu orði í neinu öðru tungumáli.

þriðjudagur, ágúst 30, 2005

Harði diskurinn.

Einn er sá diskur sem er öðrum diskum fremri á heimilinu. Það er harði diskurinn.

Á heimilinu þrjár fartölvur sem hver um sig hefur 60, 40 eða 4 GB harðan disk. Af þessum tölvum hefur 4 GB Toshiba tölvan uppskorið langmesta aðdáun og forvitni. Mest af því síðastnefnda hlaut hún reyndar árið 1999. Síðan hefur athyglin meira verið af neikvæðum toga, ef einhver er.

Vegna flutninganna liggur megináherslan þessa dagana að koma sem mestu fyrir í sem minnstu plássi. Í dag lögðum við af stað í leit að nýjum og stærri hörðum diski. Sá diskur þurfti helst að hafa burði til þess að vera samastaður undir alla þá tónlist og bíómyndir sem fanga myndu athygli okkar næstu árin. Svo verður Sylvía að geta klippt í tölvunni.

Hef lengi gælt við hugmyndina um föður allra harða diska. Með því meina ég diskinn sem geymir bókstaflega allt. Að loknum rannsóknum á málinu varð mér ljóst að harðir diskar eiga nokkuð langt í land. Þeir eiga til að mynda enn í stökustu vandræðum með að ná pari við heilann. Áætlað geymslupláss heilans er um þrjú terabæti. Tera er þúsund í fjórða veldi. Mun fleiri núll en ég nenni að skrifa.

Fundum utanáliggjandi harðan disk upp á 160GB. Það er geymslupláss á við nær minnislausan mann.

mánudagur, ágúst 29, 2005

1x2

Þau stórtíðindi áttu sér stað um helgina að ég vann í happdrætti.

Reyndar er ekki nákvæmt að nota orðið ,,happdrætti” um þessi stórtíðindi. Það var nefnilega ítalski getraunaseðillinn sem var vettvangur sigra minna að þessu sinni.

Þegar menn spila í getraunum er það gert í trausti þess að þekking þeirra knattspyrnunni ráði mestu um uppskeruna. Væntanleg úrslit leikjanna eru því sjaldnast merkt inn á seðlanna öðruvísi en að undangenginni ítarlegri greiningu á gengi liðanna, meiðslum lykilmanna og liðsandanum – því óáþreifanlega fyrirbrigði.

Flestir þeir sem spila í getraunum myndu aldrei spila í lottói. Í þeirra augum er þátttaka í leik þar sem ávöxtun peninga ræðst alfarið af slembilukku ekkert annað en fullkomið ábyrgðarleysi.

Við sölu íbúðarinnar og upphaf náms þarf að huga að peningamálum. Eftir að hafa kannað landið á hlutabréfa- og gjaldeyrismarkaði komst ég að þeirri niðurstöðu að 1x2 væri vænlegasti fjárfestingarkosturinn. 1x2 er til dæmis mun gagnsærri en fyrrnefndu markaðarnir. Þá munu innherjasvik ekki vera eins algeng þar. Ég fylgist líka mun betur með því hvað Arsenal er að gera í sínum herbúðum en Actavis hf.

Smellti mér á netið og keypti nokkra seðla. Röðin kostaði tíu krónur. Það verður að teljast lítil áhætta. Í kjölfarið var bara að sitja og bíða.

Oft hef fylgst spenntur með gangi mála í boltanum. Þegar ég komst að því að ég væri með 11 rétta hélt ég hins vegar að spennan myndi bókstaflega ríða mér að fullu. Ég ætla ekki einu sinni að reyna lýsa þeirri tilfinningu sem greip mig þegar síðasta leiknum lauk. Ég var orðinn vinningshafi í getraunum.

Nú er bara að ákveða hvernig vinningsfjárhæðinni verður ráðstafað. Það er víst ýmislegt hægt að fá fyrir 240 krónur.

Klassiski vinsældalistinn.

Stór hluti helgarinnar fór í heilabrot um hvaða geisladiska ég tæki með til London. Það er þarft verkefni en síður en svo auðvelt.

Að vísu velur sú rokk- og dægurmúsík sem til er á heimilinu sig að mestu sjálf. Ef líf og samband okkar hjónaleysa væri rómantísk gamanmynd þá væru David Gray, Damien Rice, John Lennon og Sinead O´Connor öll hluti af sándtrakkinu. Þau eru örugg áfram í valinu.

Þegar Sylvía samþykkti að fara að búa með mér fyrir fimm árum var sérviska mín um ýmsa hluti þar ekki undanskilin. Í því fólst meðal annars að ég tæki inn á sameiginlegt heimili okkar á fimmta hundrað diska af klassískri tónlist.

Farangursreglur Iceland Express leyfa ekki að ég taki mikinn fjölda klassískra meistara með mér út. Settist því fyrir framan geisladiskastandinn á laugardag í sama niðurskurðarhug og Geir H. Haarde þar sem hann situr á skrifstofu sinni yfir fjárlagafrumvarpinu.

Mahler varð fyrstur fyrir barðinu. Mahler er reyndar öðrum tónskáldum fremri í tjá taugaveiklun og örvæntingu í tónlist sinni. Þar sem taugaveiklun og örvænting eru ekki forgangsatriði þessa daga frekar en aðra féll dómurinn skjótt: Mahler og ljóð hans um dáin börn sitja því eftir.

Bach var næstur í röðinni. Hann er hrein andstæða Mahlers. Í tónlist Bachs ríkir alger yfirvegun. Bach er hins vegar oft svo yfirgengilega yfirvegaður að hann verður kuldalegur. Hann er líka óþolandi fullkominn. Nýleg vitneskja mín um að hann hafi notað stærðfræðilegar aðferðir við að semja tónlist voru honum heldur ekki til framdráttar: Bach fer ekki með.

Minni spámenn voru fljótafgreiddir. Schumann situr eftir vegna þess að hann er væminn, og Verdi og Puccini vegna þess að þeir eru yfirborðskenndir. 20. aldar tónskáldin sitja eftir vegna þess að þau eru 20. aldar tónskáld. Á sama hátt fara Beethoven, Mozart og Wagner með af þeirri ástæðu að þeir eru Beethoven, Mozart og Wagner.

Þá var röðin komin að Brahms. Eitt uppáhaldsverkið mitt Þýsk sálumessa er eftir Brahms. Þýska sálumessan er sérstök að því leyti að Brahms var ekkert sérstaklega trúaður. Verkið samdi hann aftur á móti í minningu móður sinnar sem stóð honum afar nærri. Ólíkt öðrum messum þá einkennist verkið ekki af trúarhita og sannfæringu. Þess í stað einkennist tónlistin öðru fremur af söknuði, hlýju og væntumþykju.

Brahms er ekki fullkominn. Hann samdi hins vegar tónlist sem minnir mann öðru fremur á gamla vini sem maður veit að alltaf er hægt að stóla á og tengslin rofna aldrei við. Auðvitað tekur maður slíka tónlist með þegar maður flytur til annarra landa.