fimmtudagur, maí 11, 2006

Tired and Emotional.


Í breska þinginu er aldrei sagt um nokkurn mann að hann sé drukkinn. Einhvern tíma hefði maður haldið að það væri vegna þess að tilefnin skorti, m.ö.o: menn gengu til lýðræðislegra stjórnarhátta allsgáðir. Svo er hins vegar ekki.

Eins og annars staðar í Bretlandi eru fólki í þinginu einstaklega lagið að kalla hlutina röngum nöfnum. Þannig er aldrei sagt að þingmaður sé “drukkinn” heldur eru önnur orð notuð um ástand hans. Er þá ýmist sagt að viðkomandi sé “Tired and Emotional” eða að þeir i snætt “góðan hádegisverð” (“had a good lunch”).

Ef þingmaðurinn hefur bersýnilega farið nokkuð vel yfir strikið er stundum látið að því liggja að hann hafi snætt “mjög” góðan hádegisverð.

Þessa vitneskju mína á ég að þakka nýrri heimildarmynd BBC um drykkjuskap breskra þingmanna. Þarna var rætt við þingmenn, ráðherra og aðstoðarmenn um áfengisþorsta valinkunnra fulltrúa lýðræðisins af furðu mikilli bersögli.

Í þættinum voru til dæmis spilaðar ræður ráðherra og þingmanna sem allar voru skýr sýnishorn um að áfengi er ekki nauðsynlega til þess fallið að skerpa dómgreind manna. Þá voru sýndar myndir af afvelta utanríkisráðherra í stjórn Wilsons í kjólfötum.

Frægasti drykkjurútur Breta er án efa Churchill. Samkvæmt myndinni á hann að hafa klárað 2-3 koníaksflöskur á dag þegar best lét.

Einhvern tíma á Churchill að hafa reynt að stilla drykkju sinni í frekara hóf. Þá setti hann sér þá reglu að fá sér ekki koníak fyrir hádegismat. Þeirri reglu var hins vegar fljótlega breytt yfir í bindindi fram að morgunmat.

Tekið skal fram að þessi regla gilti strangt til tekið “fram að” morgunmat og kom ekki í veg fyrir að drukkið væri með morgunmatnum.

Enginn þeirra sem vann með Churchill minntist þess þó að hafa séð hann nokkru sinni drukkinn. Maðurinn hefur líklega verið með fílslifur.

miðvikudagur, maí 10, 2006

Dagurinn sem “tragíkómískt” varð meira “tragískt” en “kómískt”.


Í Bandaríkjunum gilda engin lög um hvernig fangar eru teknir af lífi með sprautum, t.d. um hvaða lyf skuli notuð og þá í hvaða röð.

Mörg fylki Bandaríkjanna hafa hins vegar sett ítarlegar lagareglur um sama efni þegar dýr eiga í hlut.

Ef ég væri laganemi á fyrsta ári í lögfræði þá væri praktíska spurningin væntanlega sú hvort beita mætti lögjöfnun frá síðastnefndu reglunum þegar menn ættu í hlut.

Síðastur með fréttirnar.


Chelsea eru Englandsmeistarar. Þeir lesendur sem hafa alls engan áhuga á fótbolta heyrðu það hér fyrst. Aðrir heyrðu það síðastir.

Síðasta setningin gæti orðið tilefni til biblíulegrar ritskýringar. Ég ætla að standast þá freistingu, enda er hún ekki sérstaklega mikil.

Ég fór á leikinn í góðum félagsskap þeirra Árna, Eggerts og bróður hans, svo og Ragnars og Maríu. Eggert útvegaði okkur Árna miða á útseldu verði en markaðsverðið (sem kennt er við svarta litinn) var fjórfalt hærra. Með menn eins og Eggert innanborðs er augljóst af hverju KB-banki hf. er að mokgræða.

Þegar Chelsea fékk bikarinn var spilað lagið “We Are the Champions” með Queen. Það er sennilega með mest óþolandi lögum allra tíma, yfirfullt af ódulinni og sjálfmiðaðri upphafningu. Hið síðastnefnda er allt það sem einkennir slæman sigurvegara.

Þetta leiðir auðvitað hugann að því að það er erfitt að syngja hógværlega um sigur. Það er eitthvað svo miklu göfuglegra að syngja um ósigur. Hvaða lag væri til dæmis meira viðeigandi um örvæntingu liðsins sem fellur um deild en Bohemian Rhapsody (sjá texta).


Ef ykkur vantar lögfræðiráðgjöf um milljarðasamninga þá eru þetta mennirnir sem þið þurfið að tala við.

þriðjudagur, maí 09, 2006

Ég segi það og skrifa...


Að maður hefur ekki kynnst því að hvað það er að búa í fjölmenningarsamfélagi fyrr en maður hefur farið til tannlæknis og sá sem er á undan manni er rabbíni.

mánudagur, maí 08, 2006

Inspector Morse segir “Allt í drasli”


Í dag fengum við bréf. Það er alltaf ánægjulegt að fá bréf á tímum tölvupóstssamskipta ef þau berast ekki í gluggapóstsumslagi. Ánægjutilfinningin stóð þó ekki lengi yfir þar sem erindið var það að við skötuhjú stöndumst ekki þrifnaðarastandarda inspectors Morse.

Hann sem sagt kom og leit gaumgæfilega í kringum sig, ofan í klósett, inní ofninn og undir rúm. Þetta þarf allt að þrífa betur. Sér í lagi vaskurinn, þar sem vatnið hér í lundúnaborg er mun kalkríkara en heima. Ef við tökum okkur ekki á þá kemur sérdeild, í að þrífa hjá okkur á okkar kostnað. Það finnst okkur reyndar ekkert svo slæm hugmynd.

Það er spurning hvort sérdeildin muni mæta með sebramunstraða gúmmíhanska með tjulli í líkingu Heiðar og Ingibjörgu. Ég bíð spennt eftir inspector Morse en hann mun láta sjá sig þann 22. maí til þess að athuga hvort allt sé enn í niðurníslu.

sunnudagur, maí 07, 2006

Hið ljúfa líf

Eftir stífar setur við að skrifa um Challenger og Columbia slysin skilaði ég inn greinarstúfnum á miðvikudaginn. Þar hitti ég stallsystur mínar og við ákváðum að kaupa okkur samlokur og setjast út í blíðskaparveðri í “Sommerset House.” Ekki slæm hugmynd það.


Á fimmtudaginn reis hitinn í 24 gráður okkur lundúnarbúum til mikillar ánægju. Ég dreif mig í klippingu, enda komin með soddan lubba, og dreif svo Kjartan út í góða veðrið. Fjárfest var í sólgleraugum fyrir sumarið.


Við Unnur drifum okkur svo í Hyde Park á föstudaginn, þar lágum við á bleiku picnic teppi og fengum okkur beyglu með rjómosti og vínber. Gáfum svo svönunum brauð, talandi um að vera “living on the edge” á tímum fuglaflensunar.


Ég kom svo við í búðinni á leiðinni heim og keypti í matinn fyrir matarboð kvöldsins. Kjartan kom af bókasafninu sveittur eftir rökræður í umræðuhópnum sínum. Fengum svo til okkar góða vini.


Anderson og Ligia í góðu stuði


Chris og Gian Reto að gæða sér að eyrnasnepplapasta og kjúlla


Strákarnir töluðu um ústlit í brasilísku knattspyrnunni meðan við stelpurnar lékum okkur með snæri (man einhver hvað svona fingra-teygjutvist kallast?)


Komumst að því að við kunnum þetta allar, virðist vera alþjóðlegur leikur.

Í gærkveldi urðum við þess heiðurs aðnjótandi að fá Árna og Guðrúnu í kvöldkaffi. En Guðrún kom til London í óvænta heimsókn í gær, virkilega gaman að hitta þau. Þau færðu mér líka lakkrís, það finnst mér aldrei leiðinlegt.