laugardagur, apríl 15, 2006

Fagurt mannlíf.

Í hádeginu um síðustu helgi mætti ég manni í sólskininu. Hann var klæddur einkennisbúningi borgarstarfsmanna og ók á undan sér stórri ruslatönnu sem við var festur kústur. Á handfangi tunnunnar hékk vasaútvarp. Úr því hljómaði bein lýsing á leik Tottenham og Manchester City. Þegar sagt var að Tottenham hefði brennt af dauðafæri andvarpaði maðurinn.

Ég veit ekki hvað það var en eitthvað í mér ákvað að halda með Tottenham í þessum leik.

Þegar ég kom út úr Russell Square lestarstöðinni mætti ég útigangsmanni sem hélt á fjórum dagskortum ferðamanna sem greinilega höfðu ekki not fyrir þau lengur.

Það er langt síðan ég hef heyrt nokkurn segja orðin “Thank you” jafnoft. .

Á leiðinni í skólann er Great Ormond Street barnaspítalinn, sennilega einn þekktasti spítali sinnar tegundar í heiminum. Ég hef aldrei séð börn þar í kring sem eru sjáanlega veik enda er móttakan fyrir innlagnir í porti bak við spítalann.

Við aðalinnganginn sér maður hins vegar reglulega foreldra ásamt barni sem eru greinilega að fara heim saman eftir innlögn á spítalanum. Það er ekki lítil gleðin yfir þeim andlitum og ekki heldur leiðinlegt að verða vitni að henni.

föstudagur, apríl 14, 2006

Dymbilvikan...


…Er víst hugsuð sem tími íhugunar og hugleiðslu fyrir þau okkar sem játa kristni. Hafi ég haft fyrirætlanir um slíkt þá fóru þær algerlega út um þúfur þegar ég komst yfir disk William Shattners “Has Been” og fyrsta lag plötunnar fór í gang.

Lagið er útgáfa af nýklassíkinni “Common People” með Pulp. Hversu skemmtilegt er að heyra 72 ára gamlan fyrrverandi leikara úr Star Trek syngja þetta lag? Sennilega óendanlega.

Þetta mun fara í safn þeirra laga sem hafa það göfuga hlutverk að halda mér síkátum á tímum þar sem ytri aðstæður draga úr eðlislægri glaðværð minni. Með ytri aðstæðum á ég við hluti eins og próflestur og skrif langra ritgerða.

Fleiri lög á þessum lista eru:

1. Einn Dans Við Mig. – Hemmi Gunn.

2. Your Boyfriend is a Really Nice Guy. – David Saw.

3. Make Someone Happy. – Jimmy Durante.

4. Somebody´s Watching Me. –Rockwell.

5. Right Here Right Now. – Fatboy Slim.

Síðasta lagið þarf ég reyndar að heyra í ákveðnu samhengi. Nánar tiltekið þarf það “hér og nú” sem lagið skírskotar til að vera á Highbury Stadium í London.

miðvikudagur, apríl 12, 2006

Fish and Chips

Breskur matur hefur ekki verið efst á vinsældarlistanum hjá mér síðan við komum hingað. Ítalskur, indverskur, líbanskur, afrískur, brasilískur, kínverskur og tælenskur matur hafa haft vinninginn þegar við gerum okkur dagamun (hehemm) og förum út að borða.

Þó að ég geti einstöku sinnum gætt mér á bökuðum baunum þá hefði ég ekki beint kreivíng í bakaðar frá KFC.

Má ég þá frekar biðja um hrásalatið góða. Það er mjög auðvelt að verða háður svona hrásalati eftir að hafa borðað í Múlakaffismötuneyti í rúmt ár var ég farin að nota það á ALLT – meira að segja Taco.


Við fórum semsagt á einn af helstu fisk og frönsku stöðunum hér í borg til að snæða kvöldmatinn. Ég vil ekki vita hvað ég hef innbyrt mikið af feiti...frönskurnar voru nær því að vera brúnar en gular.

Hér sést Kjartan matgæðingur gæða sér á þessum lystissemdum.

Það er tvennt í breskri matarhefð sem slær í gegn. Fyrst er þá að nefna beikonið. Þeir kunna að framleiða alvöru beikon. Þóra Kristín á svo heiðurinn af því að kynna mig fyrir Sticky Toffee Pudding þegar hún kom í heimsókn fyrir skemmstu. Ég var tvístígandi í því að prófa þetta þrátt fyrir að Þóra eigi nú óflekkað orðspor þegar kemur að matargerð. En það er engin pudding eins og nafnið gefur til kynna heldur er volg karamellukaka þakin karamellusósu....mmm...held ég haldi mig bara þar...

mánudagur, apríl 10, 2006

Læri, læri, læri – mætti ég þá frekar biðja um Páskalærið.


Bloggleysið undanfarnadaga skýrist ekki af því að of mikið hafi aðhafst hér í Lundunúnum. Þvert á móti, langar setur fyrir framan tölvur, greinar og bækur hafa einkennt okkur. Gærdagurinn hefði ekki getað byrjað betur. Við Kjartan fengum brúnan pakka sendan til okkar, og að þessu sinni var hann ekki merktur Amazon. Við fengum hvorki meira né minna en 12 páskaegg frá Nóa, hrís og djúpur frá tengdó. Nú er loksins orðið páskalegt hjá okkur. Það stefndi í það að ég færi að skreyta hjá okkur með post-it miðum til þess að fá einhverja páskastemmingu á heimilið.

Fyrsta eggið er komið í magann. En Málshátturinn var heldur betur viðeigandi og ætla ég ég að tileinka hann Saumavélinni!!!

,,Betra er að róa en reka undan”

Inniveran hefur aldeilis orðið til þess að hörundslitur minn hefur farið hvítnandi og afrakstur sólarsleikju í Frakklandi því með farinn fyrir bý. Ég býst við að Kanebo golden glow verði kreist jafnt og þétt yfir komandi verkefnatörn.

Jæja, betra er að róa en reka undan og því um að gera að halda áfram með svo mjög spennandi greiningu á því hvað fór í rauninni úrskeiðis í Challenger og Columbia málunum frægu.

O Brother Were Art Thou?



,,Hey brother, do you know where Neal Street is?”, spurði hörundsdökkur maður mig í Covent Garden áðan.

Ég var upp með mér, ekki bara vegna þess að maðurinn taldi mig augsýnilega umgangast rangala hverfisins af því sjálfsöryggi sem innfæddir einir hafa til að bera. Heiður minn var meira sá að vera ávarpaður með þeirri kumpánalegu kveðju sem einungis karlmenn af afrískum uppruna nota sín á milli. Ég upplifði mig skyndilega sem brú á milli menningarheima.

Kannski er það tilviljun en mér finnst engu að síður merkilegt að þetta skuli bera upp á 25 ára afmælisdag Ingvars bróður míns. Það er örugglega ekki á neinn hallað þótt ég segi að Ingvar bróðir minn sé einmitt sá sem ég hef saknað mest hérna úti, enda er hann sá eini í nánustu fjölskyldu minni sem hefur ekki enn haft tækifæri til að heimsækja okkur. Sem betur fer er allt útlit fyrir að það standi bráðlega til bóta.