laugardagur, nóvember 19, 2005

Stungið i samband.


Vikan hófst á samningaþrefi við ónefndan kerfisfræðing á vegum University of London. Mánudagsmorgnar eru ekki meðal hápunkta vikunnar fyrir mér. Ennþá síður þegar ég þarf að vakna snemma gagngert til að semja mig út úr vonlausri samningsstöðu.

Mér leið eins og dæmdum sakleysingja að biðja um reynslulausn. Í 30-síðna bæklingnum um netkerfi skólans var ekki stafkrókur um uppsetningu routers, hvað þá að það væri bannað. Þá hafði umræddum kerfisfræðingi ekki þóknast að svara tölvupósti mínum um sama efni, sem sendur var 10 dögum fyrir tilraun til uppsetningar.

Ekkert af þessu bar þó á góma í samtali okkar. Það hefur því miður sjaldan reynst mér vel að beita einhvern fortölum um leið og ég höfða til sektarkenndar hans.

Í stað þess taldi ég vænlegast að fara að fordæmi fyrrverandi Bandaríkjaforseta og segja manninum einfaldlega að ég væri ekki netskúrkur. Hann tók því ekki verr en svo en að hann tengdi okkur samstundis aftur.

Vegir mannanna eru órannsakanlegir.

fimmtudagur, nóvember 17, 2005

Steliþjófar út um allt eða bara lögmál Murphy´s

Þjófarnir gerðu fyrst vart við sig þegar við skötuhjúin fórum á mjög spennandi fyrirlestur um mannréttindi. Eftir fyrirlesturinn gengum við í gegnum skólalóðina og fengum tilboð um miðakaup í skandinavískt partý. Ég mundi að Sindri og fleira fólk sem ég þekki hérna ætlaði að skella sér svo við slógum til og keyptum miða. Við röltum í partýið en þegar þangað var komið þá vorum við ekki með miða heldur auglýsingar (flyer). Ekki það að upphæðin hafi verið mikil þá var ég nett fúl yfir því að hafa verið plötuð og það á eigin skólalóð.



Í dag athugaði ég stöðuna á heimabankanum mínum. Það tekur oftast smá tíma fyrir mig að mana mig upp í það. Með hugrekkið að vopni tékkaði ég meira að segja að visakortsstöðunni. Hún var há. Það furðulega var að nokkrar úttektir á því voru á Spáni. Þó að ég fegin vildi vera á Spáni, þá er ég í London og hef engin áform um að kaupa húsgögn upp á 1.473 evrur í Decora Hogar. Það kaldhæðnislega við þetta allt saman er að ég kæmi aldrei öllum þessum húsgögnum einu sinni fyrir í boxinu.

Jæja, ég fékk nett sjokk en ákvað að láta þetta ekki pirra mig of mikið ég hlyti að fá þetta leiðrétt einhvernveginn. Athugaði í fljótheitum hvort ég hefði fengið skemmtilegan póst svona til að ná mesta sjokkinu úr mér, meðan ég beið eftir því að hitta tutorinn minn. Fyrsti pósturinn sem ég las var um það að einhver steliþjófur hefði sett upp myndavélar við hraðbanka skólans í þeim tilgangi að ná númerum og kortum af fólki. Þar hef ég oft á tíðum notað debetkortið mitt. Nú þarf ég líka að skipta um það og plötuð aftur á sömu skólalóð. Mér finnst þessir steliþjófar heldur ósvífnir að stela af fátækum saklausum stúdentum.

Ég ákvað að þetta væri nóg dreif mig að hitta tutorinn og taka svo strætó heim. Það gat náttúrulega ekki gengið upp heldur. Maskínan sem selur strætómiðana át peningana mína. Ég fékk mér því ágætis göngutúr heim í boxið góða.

Murphy vakir yfir mér – þið hin njótið held hann sé fremur upptekinn;)

miðvikudagur, nóvember 16, 2005

Ekki að ég sé að kvarta….

En margt skilur maður nú betur eftir að hafa flutt hingað til Bretlands.

Ég skil til dæmis mun betur af hverju Bretinn kaus Möggu Thatcher á sínum tíma. Ég skil líka betur af hverju þeim er svona illa við hana núna. Hvort tveggja má líka segja um Tony Blair.

Best af öllu skil ég af hverju pönkið varð til í Bretlandi. Einhverjir hafa einfaldlega fengið nóg.

Hitt er mér hins vegar fyrirmunað að skilja að öll þjóðin skuli láta eins og England hafi unnið HM í fótbolta við það að vinna einn vináttulandsleik. Eina leiðin til að gera úrslitakeppni HM bærilega hérna næsta sumar er að Englendingar detti út snemma. Helst fyrir tilverknað Þjóðverja.