föstudagur, nóvember 11, 2005

Nýr svili.

Ég hitti svila minn í fyrsta skipti um daginn. Reyndar er hann ekki svili minn strangt til tekið þar sem einhverra hluta vegna hefur það farist fyrir að sambúð okkar Sylvíu hlyti blessun veraldlegra eða kirkjulegra yfirvalda.

Ef átta ára samband við mágkonu, þar af fimm ár undir sama þaki, og trúlofunarhringar á hendi í þrjú ár fara ekki langleiðina með að gera einhvern að svila manns þá veit ég ekki hvað gerir það.

Umræddur svili heitir Stig og er norskur. Þar sem maður hefur yfirleitt lítið um það að segja hvaða fólk tengist manni fjölskylduböndum er það alltaf sérstakt fagnaðarefni þegar það ber með sér mannkosti sem maður leitar að öllu jöfnu hjá vinum sínum. Ég má til með að segja að af sérstöku fagnaðarefni að vera hefur það verið nokkuð reynsla í mínu lífi.

Um síðustu helgi barst óvænt símhringing frá Stig. Stig var staddur í borginni, sem útaf fyrir sig voru gleðitíðindi. Ekki minnkaði sú óvænta ánægja þegar hann upplýsti okkur jafnframt um það að hann hefði tvo aukamiða á leik í ensku deildinni. Auðrataðri leið að mínu hjarta er vandfundin.

Ennu engang mange takk Stig og velkommen igjen til London! Vi glæder oss til Gretes og Astrids besøk!







Glæpakvendið og dekruðu námsmennirnir

Í gær var ég vitleysingurinn sem allir á International Hall (fólkið í hinum boxunum) hugsuðu óhlýtt til. Það kom mér verulega á óvart að hikstinn var enginn meðan ég óafvitandi rændi hina námsmennina internetinu í heila fjóra klukkutíma. Illa gert.

Glæpurinn fólst í því að ég tengdi router við internetið svo við Kjartan gætum verið bæði á internetinu í einu. Það er víst baneitrað athæfi. Núna er búið að loka á okkur. Við erum úti í kuldanum og verðum það næstu 7 dagana.

Eftir að hafa verið gerð uppvís af glæpnum fórum við Kjartan á tónleika nr. 2 í þessari viku. Tracy Chapman var með snilldartónleika. Hún tók ný og gömul lög í bland. Ég þorði varla að gera mér vonir um að hún myndi taka Fast Car eða Sorry en hún var sko ekkert að bíða eftir uppklappi til þess að taka þessi lög heldur gerði það bara snemma á tónleikunum.

Daginn þar á undan fórum við á Sinead O´Connor. Hún var líka með snilldartónleika. Hún var í Reggae sveiflu. Ef hún hefði komið til Íslands með tónleika þá væru Hjálmar pörfekt upphitunarband.


Sem sagt tónleikatvenna fyrir dekruðu námsmennina.

þriðjudagur, nóvember 08, 2005

Íslenskt samtal á ítölsku veitingahúsi í London.

Stúlka: Er þetta dvergur?
Piltur: Hvar?
Stúlka: Þarna (horfir í áttina án þess að benda. Piltur horfir sömuleiðis). Nei, þetta er barn. Það eru svo fá börn í London að maður heldur frekar að þetta séu dvergar.

(Tjaldið).