laugardagur, ágúst 20, 2005

Cleaning out of my closet

Lundúnaför nálgast og ég þarf að fara að sortera, henda og pakka niður fataskápnum mínum. Ég er að reyna að koma Kjartani í skilning um það að sum föt þurfi maður að eiga þó að maður fari aldrei í þau. Um daginn þurfti ég að rölta niður í geymslu til að ná í dót en kom með haug af fötum til baka, ég hef samt ekki enn farið í þau.

Einu sinni bjó ég í London í tvö sumur fyrir 9 árum. Þá var ég yngri og vitrari. Þá gekk allt út á það að lágmarka kostnað við allt annað en föt, enda á þeim aldri er mjög blóðugt að eyða peningum í sjálfsagða hluti eins og klósettpappír. Fatarinnkaupin mín fóru einna helst fram á Portabello markaði þar var hægt að gramsa og finna alskyns flíkur og prútta. Þó að ég fari aldrei í þessi föt núna þá hef ég bundist þeim tilfinningalegum böndum og meika ekki að henda þeim.

Einu sinni kom Sif að heimsækja mig ásamt fjölskyldu sinni. Við stálumst til að fara tvær saman á markaðinn en enduðum einhverra hluta vegna í brúðarkjólamátunarklefa í M&S. Ég var ekki kaþólskari en það að við lugum að búðarkonunni um að móðir hennar væri á spítala og við þyrftum endilega að fá að taka mynd af henni og sýna fársjúkri móðurinni. Búðarkonan harðbannaði okkur það. Hún hafði greinilega líka séð þetta sama trix í Muriels Wedding. Sem betur fer var mátunarklefinn nógu stór til þess að við gátum stolist til þess að taka mynd ég í einu horninu og Sif í hinu. Grínlaust, ætli mátunarklefinn sé ekki jafn stór og boxið okkar Kjartans í London.

fimmtudagur, ágúst 18, 2005

Kaupin a eyrinni.



Enski boltinn er byrjaður. Ég missti af upphafi leiktíðarinnar á laugardag.

Leit hins vegar við í mat hjá frændfólki mínu í fyrrakvöld þar sem laukur ættarinnar, Kjartan Þorri Kristjánsson (sjá mynd), setti mig mig inn í stöðu mála. Kjartan Þorri er búsettur í Edinborg og hafði aðeins skamma viðdvöl hér á landi að þessu sinni.

Kjartan Þorri er fjögurra ára og heldur með Liverpool. Þegar ég gekk í bæinn tjáði hann mér alvarlegur í bragði að leik hans manna og Middlesborough hefði lyktað með því að ,,Enginn vann.” Þótti honum það heldur snautleg úrslit.

Af Kjartani Þorra er það annars helst að frétta að hann skipti nýlega um leikskóla. Reyndar virðast þau vistaskipti hafa verið nokkuð frábrugðin því sem almennt gerist við slíkar aðstæður. Að sögn Kjartans Þorra bar þau nefnilega að með þeim hætti að nýi leikskólinn hafði samband við gamla skólann hans og falaðist eftir kröftum hans. Skildist mér á Kjartani Þorra að í kjölfarið hafi byrjað strangar samingaviðræður sem fengu þau óvæntu málalok að nýi skólinn ákvað að festa kaup á honum.

Kjartan Þorri hefur þegar samþykkt skiptin. Hann er hæstánægður með nýja skólann, enda hefur hann þá augljósu kosti að vera í nýja hverfinu hans og þar af leiðandi nálægt hinum frábæru foreldrum hans, Ingibjörgu og Kristjáni. Eins og í öllum alvörusamningum er kaupverðið trúnaðarmál. Varð ég því engu nær um markaðsvirði frænda míns er á leikskólamarkaðnum.

Það er þó örugglega himinhátt, enda drengurinn hvers manns hugljúfi.

miðvikudagur, ágúst 17, 2005

Norsk ukeblad

Í dag áskotnaðist mér norskt vikublað (no. Norsk Ukeblad) Kjartani til mikillar skelfingar. Ég gerðist svo kræf að læða því með matarinnkaupunum, kannski illa gert. Efnisinnihald blaðsins var ekki beint það sem ég var að sækjast eftir heldur ætla ég að setja mig inn í norskuna þar sem ég er að fara til Noregs um miðjan september.

Ég á nefnilega fjölskyldu í Noregi. Fjölskyldan mín er ,,Dallas". Ég á tvær hálfsystur og fjögur systrabörn í Noregi. Ég hef aldrei hitt systrabörnin mín og það elsta er 14 ára. Það er eitthvað hálf lélegt að vera tante Sylvía og tala bara á ensku/látbragð við börnin. Þess vegna keypti ,,ég” eitt stykki norsk ukeblad.

Nú get ég rætt við börnin um bæði matar og prjónauppskriftir og sagt þeim rómantískar og dramantískar noveller, en þær eru aðal uppistöðuefni blaðsins. Þá hugsa þau þegar þau verða stór og lenda í ástarsorg ,, æ best að hringja í tante Sylvíu hún veit allt um þau mál”. Eins gott að eiga þá nokkur norsk ukeblod við hendina þegar sú tíð kemur.

Jæja, hefst nú lesturinn.

Þetta mun ekki gerast a morgun.

Ég vakna hálf-átta um morguninn við að mamma hringir. ,,Ég trúi þessu bara ekki með ákærurnar á hendur Baugi”, segir hún grátklökk. ,,Hvernig geta menn verið svona óforskammaðir að ásaka þessa velgjörðarmenn þjóðarinnar um annað eins? Þessa góðu menn. Þeir voru kannski bara svangir þegar þeir fengu synjun á debetkortið sitt rétt eins og hann Björgólfur þarna og þurftu að nota fyrirtækjakortið? Annað eins hefur nú gerst. Hvað verður nú um Bónus? Fréttablaðið? Stöð 2. Dótabúðina Hamleys í London?”

Ég skynja að ég þarf að segja eitthvað til hughreystingar. Segi fyrst að sannleikurinn og ástin sigri alltaf að lokum og ætla að láta það nægja. Get þó ekki á mér setið og bæti við að dómur sögunnar verði þungur yfir þeim sem hafi rangt við í þessu máli. Orðum mínum til frekari áherslu leita ég til Biblíunnar. Lýsi því yfir að þeir sem fremji ranglæti verði jafnvel reknir út í ystu myrkur. Þar sé víst ekkert nema grátur og gnístran tanna.

Þegar ég les Moggann kemst ég að því að stjörnuspáin mín er frábær. Þar segir að dagurinn í dag sé góður til ferðalaga. Af því tilefni ákveð ég að skrópa í vinnunni. Hugsa með mér að lífið sé hvort sem er allt of stutt til að axla ábyrgð.

Sæki Sylvíu og segi henni að við séum að fara til San Francisco og hún verði að muna eftir að hafa blóm í hárinu. Á flugvellinum tökum við sameiginlega ákvörðun um að hrynja í það. Má minnstu muna að okkur sé vikið úr flugstöðinni fyrir dólgslæti. Sofnum síðan sætum ölvunarsvefni í flugvélinni. Rönkum fyrst við okkur þegar við lendum. Tölum um hvað það sé gott að vera komin í sólina. Fáum okkur sushi.

Í staðinn mun þetta gerast:

Ég vakna um morguninn. Mæti í vinnunna. Drekk átta bolla af kaffi. Vinn sleitulaust allan daginn. Reyni að taka sem styst hádegishlé. Þeim áætlunum verður kollvarpað á augabragði við kassann í 10-11 í Lágmúla þegar fyrirhyggjulaus borgari á undan mér ákveður að sóa þremur dýrmætum mínútum af lífi mínu með að borga með klinki. Þegar hann er búinn að borga kemur til með að rifjast upp fyrir honum að hann ætlar að kaupa sígarettupakka líka. Og fá nótu fyrir öllu saman.

Vinnan mín heldur áfram. Hún er ágæt. Á meðan ég sit grandlaus í vinnunni munu vondir menn leggja á ráðin um að hefja stórfelldar framkvæmdir á stofnumferðaræðum borgarinnar á sama tíma og ég þarf að komast heim. Ég mun bölva þessu þar sem ég sit fastur á Háaleitisbraut. Hringi í Sylvíu úr bílnum og segi að mér seinki. Erum 25 mínútur á leiðinni heim. Það verður gott að koma heim. Kannski býð ég okkur upp á sushi.

þriðjudagur, ágúst 16, 2005

Penninn góði

Á föstudaginn fór ég út á lager til að verða mér út um skriffæri. Eftir að ég hóf verkfræðinámið hef ég ekki án blýpenna verið. En allt bú. Haldiði að Gunnar málari betur þekktur sem Kóngurinn hér á stöðinni hafi ekki komið með einn Sumogrip penna í gær spes handa mér. Hann sýndi mér gaumgæfilega eiginleika pennans, hann getur geymt blý og er með 3 cm löngu strokleðri... ekki þessi aumu strokleður sem eru svo gjarnan á svona blýpennum.



Jæja best að fara að reikna eins og vindurinn.

mánudagur, ágúst 15, 2005

Bjargvætturinn i grasinu.

Var á leiðinni heim úr vinnu á föstudaginn þegar ég sá hvar lögreglumaður sat digurbarkalega á mótorhjóli og ræddi valdsmannslega við fimm stráka á aldrinum 8-12 ára sem stóðu hnípnir fyrir framan veggjakrot á Ægisgötunni.

Skyndilega greip um sig undarleg tilfinning í mér þar sem ég sat undir stýri í þýska eðalvagninum. Sennilega var það þessi hrópandi skekkja í valdahlutföllum sem voru á svartleðurklæddum lögreglumanninum með sólgleraugun og óttablandinni virðingu drengjanna gagnvart honum sem olli því. Þeir rétt náðu honum í bringu.

Mig langaði mest að snarhemla fyrir framan lögreglumanninn á svipaðan hátt og lögreglan gerir í hasarmyndum, hlaupa út úr bílnum og segja: ,,Ég hef tekið að mér að vera lögfræðingur þessara ungu manna. Drengir, ykkur er algerlega óskylt að svara spurningum hans – sagði hann ykkur það?”

Að loknu þessu samráði við skjólstæðinga mína ætlaði ég síðan að snúa mér að lögreglumanninum og vanda rækilega um við hann. ,,Ert þú að yfirheyra þessa drengi sem sakborninga varðandi meint eignaspjöll? Ef svo er, hefur barnaverndarnefnd verið tilkynnt um yfirheyrsluna svo hún geti sent fulltrúa sinn til að vera viðstaddan, sbr. 4. tölul. 69. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, með síðari breytingum? Er búið að kynna þeim sakarefnið, sbr. 1. mgr. 32. gr. sömu laga? ”

Í framhaldinu hefði ég veitt lögreglumanninum rækilega yfirhalningu um refsirétt. M.a. vakið athygli hans á því að eignaspjöll eru aðeins refsiverð ef krafa kemur fram um það frá þeim sem misgert væri við, sbr. 4. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ég man svo vel þegar maður komst í tæri við almennilegt klandur á prakkaraskeiðinu. Mikið gat maður alltaf vonað innilega að einhver fullorðinn birtist til að bjarga málunum. Helst utan úr geimnum. Það gerðist auðvitað aldrei.

Það hefði orðið gaman að verða einu sinni alvöru bjargvættur. Ég var hins vegar að verða of seinn í BYKO. Þurfti að kaupa kassa fyrir flutningana.

sunnudagur, ágúst 14, 2005

Dórugæsun

Gærdagurinn var geggjaður. Viktoría og María Guðbjörg eiga hrós skilið fyrir góða skipulagningu! Dagurinn hófst á því að Dóra var sótt heim til sín og sett á mótorhjól og brunað út á flugvöll á Ísafirði. Hún lenti svo á Reykjavíkurflugvelli þar beið sjúkrabíll eftir henni... henni var þrykkt í bílinn tjóðruð niður og keyrð á bláum ljósum út á slökkvistöð þar sem við vinkonurnar biðum eftir henni. Þar var hún sett í reykköfun, upp í körfu og aftur á mótorhjól. Stelpan stóð sig mjög vel og sýndi mikið hugrekki.

Svo var það brunch í nauthólsvík þar sem Ratleikurinn hófst. Ég og Gréta undirbjuggum ratleik og viktoría lýsir honum mjög vel í details á síðunni sinni.
Síðan tók breikið við... ég væri alveg til í að læra að breika... allavegana náði ég freezinu og six stepinu í slómó. Sund. Sumarbústaður. Grill. Partý. Bókaklúbburinn stofnaður og eftirminnilegasta pottaferð ársins...svo ekki sé minnst á heimferðina. Þar sem við keyrðum á 30 km hraða með galopnar bílrúður með þrjá stóra ruslapoka hangandi út úr bílnum að leita að ruslatunnum. Það er búið að planta svona grænum spennustöðum út um allt á sumarbúsaðarlandinu á vatnsleysuströnd sem sverja sig í ætt við grænar ruslatunnur... okkur til mikillar mæðu.