miðvikudagur, ágúst 17, 2005

Þetta mun ekki gerast a morgun.

Ég vakna hálf-átta um morguninn við að mamma hringir. ,,Ég trúi þessu bara ekki með ákærurnar á hendur Baugi”, segir hún grátklökk. ,,Hvernig geta menn verið svona óforskammaðir að ásaka þessa velgjörðarmenn þjóðarinnar um annað eins? Þessa góðu menn. Þeir voru kannski bara svangir þegar þeir fengu synjun á debetkortið sitt rétt eins og hann Björgólfur þarna og þurftu að nota fyrirtækjakortið? Annað eins hefur nú gerst. Hvað verður nú um Bónus? Fréttablaðið? Stöð 2. Dótabúðina Hamleys í London?”

Ég skynja að ég þarf að segja eitthvað til hughreystingar. Segi fyrst að sannleikurinn og ástin sigri alltaf að lokum og ætla að láta það nægja. Get þó ekki á mér setið og bæti við að dómur sögunnar verði þungur yfir þeim sem hafi rangt við í þessu máli. Orðum mínum til frekari áherslu leita ég til Biblíunnar. Lýsi því yfir að þeir sem fremji ranglæti verði jafnvel reknir út í ystu myrkur. Þar sé víst ekkert nema grátur og gnístran tanna.

Þegar ég les Moggann kemst ég að því að stjörnuspáin mín er frábær. Þar segir að dagurinn í dag sé góður til ferðalaga. Af því tilefni ákveð ég að skrópa í vinnunni. Hugsa með mér að lífið sé hvort sem er allt of stutt til að axla ábyrgð.

Sæki Sylvíu og segi henni að við séum að fara til San Francisco og hún verði að muna eftir að hafa blóm í hárinu. Á flugvellinum tökum við sameiginlega ákvörðun um að hrynja í það. Má minnstu muna að okkur sé vikið úr flugstöðinni fyrir dólgslæti. Sofnum síðan sætum ölvunarsvefni í flugvélinni. Rönkum fyrst við okkur þegar við lendum. Tölum um hvað það sé gott að vera komin í sólina. Fáum okkur sushi.

Í staðinn mun þetta gerast:

Ég vakna um morguninn. Mæti í vinnunna. Drekk átta bolla af kaffi. Vinn sleitulaust allan daginn. Reyni að taka sem styst hádegishlé. Þeim áætlunum verður kollvarpað á augabragði við kassann í 10-11 í Lágmúla þegar fyrirhyggjulaus borgari á undan mér ákveður að sóa þremur dýrmætum mínútum af lífi mínu með að borga með klinki. Þegar hann er búinn að borga kemur til með að rifjast upp fyrir honum að hann ætlar að kaupa sígarettupakka líka. Og fá nótu fyrir öllu saman.

Vinnan mín heldur áfram. Hún er ágæt. Á meðan ég sit grandlaus í vinnunni munu vondir menn leggja á ráðin um að hefja stórfelldar framkvæmdir á stofnumferðaræðum borgarinnar á sama tíma og ég þarf að komast heim. Ég mun bölva þessu þar sem ég sit fastur á Háaleitisbraut. Hringi í Sylvíu úr bílnum og segi að mér seinki. Erum 25 mínútur á leiðinni heim. Það verður gott að koma heim. Kannski býð ég okkur upp á sushi.

0 Innlegg:

Skrifa ummæli

<< Home