mánudagur, ágúst 15, 2005

Bjargvætturinn i grasinu.

Var á leiðinni heim úr vinnu á föstudaginn þegar ég sá hvar lögreglumaður sat digurbarkalega á mótorhjóli og ræddi valdsmannslega við fimm stráka á aldrinum 8-12 ára sem stóðu hnípnir fyrir framan veggjakrot á Ægisgötunni.

Skyndilega greip um sig undarleg tilfinning í mér þar sem ég sat undir stýri í þýska eðalvagninum. Sennilega var það þessi hrópandi skekkja í valdahlutföllum sem voru á svartleðurklæddum lögreglumanninum með sólgleraugun og óttablandinni virðingu drengjanna gagnvart honum sem olli því. Þeir rétt náðu honum í bringu.

Mig langaði mest að snarhemla fyrir framan lögreglumanninn á svipaðan hátt og lögreglan gerir í hasarmyndum, hlaupa út úr bílnum og segja: ,,Ég hef tekið að mér að vera lögfræðingur þessara ungu manna. Drengir, ykkur er algerlega óskylt að svara spurningum hans – sagði hann ykkur það?”

Að loknu þessu samráði við skjólstæðinga mína ætlaði ég síðan að snúa mér að lögreglumanninum og vanda rækilega um við hann. ,,Ert þú að yfirheyra þessa drengi sem sakborninga varðandi meint eignaspjöll? Ef svo er, hefur barnaverndarnefnd verið tilkynnt um yfirheyrsluna svo hún geti sent fulltrúa sinn til að vera viðstaddan, sbr. 4. tölul. 69. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, með síðari breytingum? Er búið að kynna þeim sakarefnið, sbr. 1. mgr. 32. gr. sömu laga? ”

Í framhaldinu hefði ég veitt lögreglumanninum rækilega yfirhalningu um refsirétt. M.a. vakið athygli hans á því að eignaspjöll eru aðeins refsiverð ef krafa kemur fram um það frá þeim sem misgert væri við, sbr. 4. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ég man svo vel þegar maður komst í tæri við almennilegt klandur á prakkaraskeiðinu. Mikið gat maður alltaf vonað innilega að einhver fullorðinn birtist til að bjarga málunum. Helst utan úr geimnum. Það gerðist auðvitað aldrei.

Það hefði orðið gaman að verða einu sinni alvöru bjargvættur. Ég var hins vegar að verða of seinn í BYKO. Þurfti að kaupa kassa fyrir flutningana.

11 Innlegg:

Blogger Nielsen sagði...

Ég myndi allavega byrja á að fá mér skykkju.
Svo geturru brunað um bæinn í leit að fólki í neyð og stokkið út úr kerrunni og hrópað "Súper-Kjartan til bjargar"

10:53 f.h.  
Blogger Nielsen sagði...

Gvöð... skrifar maður ekki skikkja með "i"???

10:53 f.h.  
Anonymous Nafnlaus sagði...

HAHAHAHA... já og gert þetta að atvinnu... þefa uppi börn til bjargar... hver væri nú samt mórallinn í því? Er ekki ágætt að börnin lendi í smá klandri og fái föðurlegar ábendingar frá löggunni og lofi að hvorki stelast né stela aftur?

11:34 f.h.  
Blogger KjartanB sagði...

Alveg hlynntur þessu með föðurlegar ábendingar og börn. Stundum þarf þó löggan slíkar ábendingar líka. Við munum öll hvað gerðist á Nonnabitum um árið, sbr. dóm Hæstaréttar frá 27. maí 2004 (Mál nr. 477/2003).

Upp til hópa eru lögreglumenn samt öðlingar.

Góð hugmynd með skikkjuna. Ég hafði reyndar hugsað mér aðeins lágstemmdari bjargvættareinkenni svona í byrjun. Til dæmis nafnspjald.

12:21 e.h.  
Blogger Nielsen sagði...

Sumir prakkarar eru ekki einu sinni komnir á skólaaldur og því varla búnir að læra að lesa... Nafnspjald myndi því ekki henta þeim.
Skikkjan er hins vegar alheimsþekkt bjargvættar-múndering!!!

12:28 e.h.  
Blogger KjartanB sagði...

Lýsi mig reiðubúinn að fara ákveðinn milliveg í þessu skikkjumáli. Ég myndi þá fá mér nafnspjald en á það yrði prentuð mynd af mér skikkjuklæddum.

Bendi jafnframt á að skikkjan gæti hrætt sum börn. Til dæmis gengur Drakúla greifi um í skikkju.

2:47 e.h.  
Blogger sylvia sagði...

Hvað myndu foreldrar segja við þessu? Ekki tala við ókunnuga nema maðurinn gefi þér nafnspjald með skikkjumynd?

2:54 e.h.  
Blogger Nielsen sagði...

Ef óskikkjuklædd hetja byði mér aðstoð sína væri ég trúanleg til að telja hana pervert.
Hins vegar ef skikkjuklædd hetja... já, það er allt annað!

3:50 e.h.  
Blogger KjartanB sagði...

Eftir því sem ég best veit vilja öfuguggar og annar slíkur ósómi síst af öllu að einhver viti á þeim deili.

Hélt því að nafnspjaldið myndi fyrirbyggja allan misskilningi.

3:53 e.h.  
Blogger sylvia sagði...

Sko ef ég hugsa samt betur út í þetta þá er kannski bara perralegra að vera í skikkju. Hún þyrfti allavegana að vera vel hönnuð.

4:12 e.h.  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Eru ekki hetjurnar í sokkabuxum?

9:41 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home