laugardagur, ágúst 13, 2005

Houseman-bræðurnir

Ein sárustu vonbrigði bernsku minnar tengjast bræðrunum Marcelo og Rene Houseman.

Houseman-bræðurnir komu eins og stormsveipur inn í íslenska knattspyrnu á ofanverðum níunda áratugnum þegar þær fréttir spurðust út að þeir hefðu ákveðið að ganga til liðs við Knattspyrnufélag Reykjavíkur. Taka verður fram að á þeim tíma taldist það eitt til tíðinda að einhver útlendingur nennti að koma hingað til boltasparks. Houseman-bræður voru þó öllu stærri frétt.

Yngri bróðirinn Marcelo átti víst að eiga um 18 landsleiki að baki með landsliðum Argentínu sem út af fyrir sig má kalla býsna gott fyrir íslenska knattspyrnu. Eldri bróðirinn Rene átti hins vegar öllu meiri innistæðu. Rene átti sannanlega yfir 50 A-landsliðsleiki að baki og var einn af fastamönnum heimsmeistara Argentínu 1978.

Til að gera grein fyrir því hvílíkt stórhveli var hér á ferðinni má líkja þessu við að einhver úr heimsmeistarliði Frakka hefði meldað sig til leiks í Landsbankadeildinni nú í sumar. Houseman var reyndar nokkuð yngri en Marcel Desailly og Laurent Blanc eru í dag þannig að þeir teljast ekki tækir til samanburðar. Bixente Lizarazu eða Lilian Thuram eru hins vegar á sama aldri og Rene. Þeir myndu vafalaust gera góða hluti í KR-vörninni ef til þess kæmi.

Á lesendasíðum dagblaðanna fór allt á annan endann. Þar helltu menn nær daglega úr skálum reiði sinnar yfir því að KR-ingar hefðu nú ákveðið að binda enda brátt tveggja áratuga bið eftir titli með því að kaupa hann í formi tveggja heimsklassa leikmanna frá Argentínu. Valsarar og Framarar lýstu frati á mótið og sögðu ekkert mundu vera að marka það þar sem KR væri búið að svindla fyrirfram áður en mótið hæfist.

Houseman-bræðurnir léku ekki svo mikið sem einn leik með KR. Annar þeirra kom þó til landsins. Sagnir herma að þegar honum voru sýndar aðstæður hjá félaginu hafi fljótlega orðið ljóst á augnaráði hans og líkamstjáningu að væntingar hans um starfsemi og umsvif félagsins voru nokkuð aðrar en það sem fyrir augu hans bar hér á landi.

Þá mun það hafa komið honum talsvert á óvart þegar forsvarsmenn KR sögðu honum að þeir bræður ættu að þjálfa alla yngri flokka félagsins. Mun honum þá hafa orðið að orði: ,,Mamma er veik. Heima í Argentínu. Ég verð að fara núna.”

Síðan hefur víst ekkert til bræðranna spurst hér á landi. Fram eða Valur vann mótið þetta sumarið og 10 ára stuðningsmenn KR á borð við mig sjálfan sátu eftir með sárt ennið. Sérstaklega féll manni þungt að bræðurnir hefðu ekki gengið að gylliboði félagsins um að þjálfa okkur í yngri flokkum félagsins. Það hefði verið gaman.

Brotthvarf bræðranna eru ein af þessu fáu ráðgátum í mínu lífi sem enn eru óleystar. Mér hefur að vísu ekki verið hugsað oft til bræðranna. Spurningin um örlög þeirra hefur hins vegar leitað á mig af og til. Þegar Stebbi sagði mér um daginn frá því að barnastjarnan Katla María héti fullu nafni Katla María Hausmann rifjaði það upp alla söguna. Ég hef nú einsett mér að komast til botns í þessu máli.

Meira um það síðar.