þriðjudagur, desember 20, 2005

Jólasveinninn.


Mér skilst að einhver hafi birt þá flugufregn heima að jólasveinninn sé ekki til. Áður en þessi kviksaga skýtur rótum er rétt að taka fram eftirfarandi:

Jólasveinninn (Father Christmas) er þessa dagana staddur í leikfangaversluninni Hamleys við Regent Street í London. Þar var hann í allan dag og verður líka á morgun.

Jólasveinninn er til viðtals gegn 10 punda greiðslu til verslunarinnar. Það er væntanlega nokkurs konar umsýsluþóknun. Fyrir 20 pund er hægt að fá morgunverð með jólasveininum.

Þar sem ég stóð við anddyri jólasveinaherbergisins heyrði ég lagið ,,Is there Something I Should Know?” með Duran Duran. Betri einkennissöng fyrir jólasveininn er ekki hægt að hugsa sér.

mánudagur, desember 19, 2005

Raðir, samanburður og hamingja.

Ég afrekaði það að fara á pósthúsið í dag. Mikið er það góð tilfinning að klára eitthvað sem hvílir á manni. Staðan á verkefnunum er þannig að ég er byrjuð eitthvað á þeim öllum. Nú geta þau gerjast í mér þangað til ég slátra þeim einu á eftir öðru. Þegar ég kom á pósthúsið var röð út úr dyrum, enda kom það ekki á óvart á þessum árstíma. Ég lét það ekki á mig fá heldur skellti mér aftast í röðina.

Ég er ekki viss hvort að mér hafi liðið betur yfir því hvort að það styttist í mig eða að fleiri bættust við í röðina, alltaf leiðinlegt að vera öftust. Þetta þótti mér athyglisvert.

Nýverið las ég bókina ,,Happiness” eftir Richard Layard þar sem hann skoðar hamingju út frá hinum ýmsu þáttum. Þar kemur fram að þrátt fyrir það að vestrænu löndin hafi orðið ríkari með árunum þá hefur fólk ekki orðið hamingjusamara. Kennir hann áráttu fólks til samanburðar helst um í því sambandi. Þó svo að flestir hafi meira á milli handanna nú en fyrir nokkrum áratugum er fólk sífellt að bera sig saman við aðra rétt eins og ég þegar ég stóð í röðinni á pósthúsinu. Hugsunin, jæja ég er nú allavegana ekki síðust...

Maður skildi halda að samanburður sé rótgróinn í íslenska menningu. Einhverra hluta vegna erum við samt hamingjusamasta þjóðin þegar hamingja er mæld í hamingjukönnunum.

Við erum kannski of fá til þess að gefa færi á jafn miklum samanburði við okkur sjálf og í öðrum samfélögum. Við getum alltaf átt þann möguleika að sérhæfa okkur í einhverju sem að enginn annar af 300.000 hræðunum getur. Eða... við erum ekki bundin við eigin samanburð heldur getum við alltaf stært okkur af vinum og vandamönnum.

Einhverjir muna sjálfsagt eftir frændanum honum Einari úr heitapottsumræðunum í Svínasúpunni:

Vinkonur í heitapotti: ,,Hrikalegt með hana Guðbjörgu. Hún er bara búin að vera með flensu í tvær vikur, beinverki og hita.”

Ókunnugur maður: ,,Isss, þetta er nú ekkert. Hann frændi minn hann Einar hann er sko með eyðni og ekki er hann að kvarta.”

Á fósturjörðinni er samanburðurinn kannski ekki endilega bundinn við manneskjuna sjálfa. Stundum er einfaldlega bara nóg að eiga frænda sem er stærri, sterkari, syndir hraðar eða hreinlega veikari.

Bíræfni 2.

Við erum stödd í leikhúsi. Aðalleikarinn í sýningunni á Sölumaður deyr er að fara með magnaða einræðu. Þá hringir skyndilega sími framarlega í leikhúsinu. Leikarinn þagnar. Síminn heldur áfram að hringja. Hringitónninn er viðlagið úr Golddigger með Kanye West.

Eftir fjórar hringingar er loksins svarað í símann.

Áhorfandi: ,,Halló.”

(Þögnin sem færst hefur yfir salinn virðist aukast enn. Leikarinn horfir í átt til áhorfandans og er greinilega farinn úr karakter. Samtal áhorfandans við símavin sinn heyrist nú greinilega í salnum.)

Áhorfandi: ,,Aha….Einmitt. Skil þig.–
- Heyrðu má ég hringja í þig aftur á eftir? Ég á svolítið erfitt með að tala – ég er nefnilega í leikhúsi.”

(Undrunin eykst meðal áhorfenda sem og ískaldur hneykslunarsvipurinn á aðalleikaranum):

Áhorfandi: ,,Sölumaður deyr....Sýningin? – Æi….Ekkert spes svosem.”