föstudagur, ágúst 11, 2006

Á fyrsta degi.



Guð skapaði heiminn á sjö dögum, ætli ég geti ekki skrifað verkefni á átta? Samkvæmt Supernova þá eru bestu lög rokkstjarna oft samin á innan við tíu mínútum.

Ég semsagt náði að leggja næstumþvílokahönd á líkanið mitt, fyrir þetta ráðgjafafyrirtæki/rannsóknabatterí. Sem fyrir áhugasama snýst um að besta mögulegar “pólisíur” varðandi það að draga úr vatnsleka Bretlandseyja. Þetta hefur verið mikið fréttaefni (þá vatnslekinn ekki verkefnið mitt) í sumar út af hitabylgjunni sem er “sembeturfer” lokið.

Fyrir enn áhugasamari þá er þetta líkan ósamfellt ólínulegt bestunarlíkan. Þau geta verið torleysanleg. Því fleiri “ó” sem eru í skilgreiningunni því svæsnara er þetta. En með hjálp svokallaðra “Genetic/evolutionary Algorithms” er þetta leysanlegt en þeir byggja á þróunarkenningu Darwins. Ég ætti kannski frekar að athuga hvað Darwin var lengi að hripa niður svipað langan greinarstúf sem mér er ætlað að skrifa og skila inn heldur enn að gera áætlanir mínar út frá því hvað Guð var lengi að skapa heiminn.

Það er svo sem engar stórfréttir hérna af okkur hjónaleysunum. Við erum komin aftur í B-týpu munstrið, spilum soldið af skvassi, borðum góðan mat og drekkum soldið kaffi endrum og eins. Það styttist í komu okkar til ægifagra Íslands. Ætli við hættum þá ekki þessu bloggstússi.

þriðjudagur, ágúst 08, 2006

Í fullri hreinskilni.


Hinn 28 ára gamli knattspyrnumaður Frank Lampard var að gefa út ævisögu. Titill hennar felur í sér ákaflega fyrirsjáanlegan orðaleik með fornafn hans. Ég þarf varla að taka fram úr þessu titillinn er: "Being Frank."

Ég hef því miður ekki haft stund aflögu til að lesa þetta mikla bókmenntaverk spjaldanna á milli en í henni getur að finna afar ljóðræna lýsingu á dvöl söguhetjunnar um borð í snekkju Romans Abrahamovich, eins ríkasta manns Bretlandseyja. Þar segir meðal annars:

"I suppose people imagine that as a Premiership footballer, my life is quite special. I would agree, but those two weeks opened my eyes to another world."

Einhvers staðar sá ég spurt hvort hægt væri að hugsa sér órómantískari draum en þegar milljónamæring dreymir um að verða milljarðamæringur. Ég á erfitt með að finna spurningu sem er meira leiðandi.

Annars er það helst að frétta af okkur hjónaleysum að það er torskilið milli sessunnar og sitjandans svo og fingranna og lyklaborðsins þessa dagana. Skilafrestur nálgast óðfluga.

Í tilefni af því að okkur áskotnuðust miðar frá forfallaðri vinkonu brugðum við okkur í Globe Theatre um helgina að sjá Anton og Kleopötru Shakespeares. Þar staðfesti ég grunsemdir mínar um að Shakespeare er betur lesinn heima en séður í leikhúsi.

Við fórum eftir einn langdreginn klukkutíma, sannfærð í þeirri trú okkar að veröldin fyrir utan væri áhugaverðara leiksvið en það sem blasti við okkur.

Til varnar leikhúsinu þá var ensk klassík ekki það sem þreyttir hugar okkar þörfnuðust þetta kvöldið. Leiðin úr leikhúsinu lá beint á Leicester Square þar sem kvikmyndin Miami Vice var nýverið tekin til sýninga.

Í stuttu máli þá er Miami Vice frábær mynd sem flestir ættu að verða betri menn af að sjá. Nú þarf maður að verða sér úti um þættina áður en maður lendir í annarri eins törn.