föstudagur, janúar 20, 2006

Ársbirgðir af bjór.


Þegar ég lagði stund á nám við Háskóla Íslands á sínum tíma tíðkaðist sá siður hjá ýmsum fyrirtækjum að bjóða mér og bekkjarsystkinum mínum í svokallaðar vísindaferðir. Eins og flestir með reynslu af slíkum ferðum vita eru þær frekar fjarskyldar vísindalegri iðkun í hefðbundnum skilningi.

Að vísu er yfirleitt einhver þáttur í vísindaferðum sem tengist náminu. Þannig var ekkert óalgengt að lagenemar þyrftu að sitja undir flóði nákvæmra upplýsinga um skráningu tiltekins félags á hlutabréfamarka.

Aðdráttarafl ferðanna byggðist hins vegar lítið á þessum fyrirlestrum. Þær áttu mest sitt undir væntingum gesta um ókeypis veitingar í fljótandi formi. Á lögfræðimáli eru slíkar væntingar kallaðar ,,réttmætar væntingar”.

Aðeins einu sinni man ég eftir því að vonir laganema til vísindaleiðangurs hafi brostið. Mér skilst að það hafi verið ferð í álverið í Straumsvík. Þennan dag mun hafa verið kafaldsbylur. Þátttaka í ferðinni var takmörkuð við þann hluta nemenda sem að jafnaði var þyrstari en svo að aftakaveður gæti staðið í vegi fyrir ferðalögum. Að sögn viðstaddra varð þögnin í hópnum ótrúlega fljótt þrúgandi þegar í ljós kom að veitingar þann dag voru takmarkaðar við kaffi og kökur.

Laganemar báru lengi kala til ÍSAL vegna þessa. Þegar betur er gáð verður að viðurkennast að líklega er fátt fráleitara en að hafa ölvaða laganema á reiki í álverinu.

Þegar háskólaárunum lauk og fjárráðin bötnuðu fór maður að hugsa um vísindaferðirnar í öðru samhengi. Þannig rann það upp fyrir manni að líklega innbyrti meðalgestur í svona ferð í kringum þrjá bjóra af Egils Gulli. Það jafngildir um 450 krónum.

Setjum sem svo að tryggingafélag hefði sent laganemum tölvupóst og boðið þeim í heimsókn gegn 500 króna greiðslu. Er líklegt að maður hafi þekkst boðið? Sú spurningin svarar sér auðvitað sjálf.

Eftir komuna hingað til London hefur lítið farið fyrir vísindaferðunum. Í gær barst mér hins vegar póstur frá fyrirtækinu Inbev, sem að eigin sögn eru afkastamestu bjórframleiðendur í heimi og framleiða m.a. Becks, Stella Artois og fleiri tegundir.

Í póstinum er dagskránni lýst á einfaldan og skorinorðan hátt:

,,As well as sampling some of our fantastic brands you could also win a year's supply of beer. What do you have to do - come along to the InBev Employer Presentation and find out more about our brands and the great career opportunity open to you.”

Það er greinilega meira lagt undir í vísindaleiðangranna núorðið.

þriðjudagur, janúar 17, 2006

Að ala upp sektarkenndina

Kaþólska kirkjan hefur löngum verið þekkt fyrir það að stimpla inn sektarkennd hjá sóknarbörnum sínum. Ég skildi sjálf ekki þegar ég fór í fyrstu Kaþólsku messuna afhverju hún hófst á bæninni ,,Mín sök, Mín mikla sök...” hvaða syndsamlega lífi lifði allt þetta fólk sem ég vissi ekki um. Seinna skildi ég bænina vel og fór með hana af einlægni í vikulegri hámessu. Ekki veit ég þó beinlínis hvað olli þessari óseðjandi sekt minni.

Í vikunni fór ég að rifja upp þær góðu stundir sem ég átti í Landakotskirkju og þá sérstaklega í tengslum við unglingafélagið Píló. Ég ákvað að nú væri tími til að skrifa bréf til þeirra þar sem mér þætti vænt um og hófst þá leit mín að netföngum á heimasíðu kaþólsku kirkjunnar á Íslandi. Ekki fann ég netfangið sem ég leitaði að en álpaðist inn á myndasíður barnanna.

Ég man eftir því að sitja við hliðina á stelpu í sunnudagaskólanum, sem þá var á laugardögum, sem hafði mikla skoðun á því að vatn ætti í rauninni ekki að vera blátt og hún skildi ekki afhverju allir lituðu það blátt þegar það væri í rauninni glært. Ég hinsvegar tók bláa litinn í sátt en þótti afar leiðinlegt að lita andlit á fólki. Þótti andlitsliturinn eitthvað svo karakterslaus og tefjandi.

Þegar ég svo 15 árum seinna skoða myndasíðu barnanna þá eiga börnin að lita fóstur. Vegir kirkjunnar eru eins og alltaf órannsakanlegir en fóstur verður að teljast aðeins of mikill andlitslitur fyrir minn smekk.

mánudagur, janúar 16, 2006

Galloway



Þetta er ekki færsla um kýr. Það er rétt að taka þetta fram, þar sem orðið Galloway hefur helst verið notað á Íslandi um nautgripastofn þann sem fluttur var inn frá Skotlandi um miðbik 8. áratugarins. Gott ef einangrunarstöðin í Hrísey var ekki byggð yfir þessi kvikindi. Mér skilst að Galloway-kýr séu bæði einstaklega kjötgæfar og mjólkurlagnar.

Undanfarna daga hef ég tekið upp þann ósið að sofna stundum útfrá þættinum Big Brother hér í Bretlandi. Í stuttu máli gengur þátturinn útfrá að stela hugmynd Georges Orwell um ógnarstjórn sem vaktar þegna sína jafnt í vöku sem í svefni. Þátturinn byrjar á því að nokkrir einstaklingar flytja inn í sama húsið. Eftir það rúllar þátturinn í beinni útsendingu allan sólarhringinn í einn mánuð. Þátttakendur mega ekki hafa samband við neinn utan hússins á þeim tíma.

Forsvarsmönnum þáttarins til varnar þó verður að segjast að líklega kviknaði Orwell sú hugmynd að 50 árum eftir útgáfu bókar hans myndi fólk í frjálsu samfélagi keppast um að undirgangast slíkar persónunjósnir.

Útgáfan af Stóra-bróður sem nú er í gangi er sérstök fyrir þær sakir að hún er helguð þekktum einstaklingum. Það fólk er af ólíku sauðahúsi. Einn karlmaður er þekktur körfuboltakappi úr NBA. Ein konan mun hafa leikið í ljósbláum myndum og önnur lék í Strandvörðum. Sá sem hefur fengið hvað mesta athygli fyrir þátttöku sína er þó líklega þingmaðurinn George Galloway.

Hér í Bretlandi hefur Galloway helst getið sér orð fyrir andstöðu sína við Íraksstríðið. Reyndar hefur það þvælst fyrir honum í því sambandi að hafa einhvern tíma verið boðið í kaffi til Saddam Hussein. Hvað sem því líður þá hefur Galloway náð ágætum árangri í baráttu sinni. Í síðustu kosningum skipti hann til dæmis um kjördæmi og vann sigur í einu helsta höfuðvígi Verkamannaflokksins hér í London.

Þótt Galloway sé almennt ekki vinsæll maður á Bretlandseyjum eru menn sammála um eitt. Hann er orðhákur af klassíska skólanum og með flugmælskari mönnum ef svo ber undir.

Galloway heimsótti LSE um daginn. Þar fjallaði hann meðal annars um hræsni bresku ríkisstjórnarinnar í baráttunni gegn hryðjuverkum og benti í því samhengi á að nýlega hefði verið gengið frá samkomulagi um sölu á vopnum til Gaddafis Líbýuleiðtoga. Fyrir nokkrum árum hafi hins vegar Gaddafi verið lýst sem erkióvini númer eitt af sömu ríkisstjórn.

Eftir að Galloway hafði sagt ,,Gaddafi hasn´t changed! He has just changed sides?” heyrðist skyndilega kallað úr salnum:

,,Non-sense! Gaddafi is a reformed character.”

Við þetta gerði Galloway hlé á máli sínu og sagði: ,,Excuse me is there a photographer here? – Could you please come over and take a picture of the person who said Gaddafi was a reformed character? Nobody will believe that I met such a person unless I provide some evidence.”

Það er ekki laust við að manni finnist heldur lítið leggjast fyrir kappann þegar hann hefur rofið samband við kjósendur sína til að vera mánuð í Stóra-bróðurs húsinu. Síðast þegar ég gáði var hann að leika kött þar, sbr. meðfylgjandi mynd.