föstudagur, janúar 20, 2006

Ársbirgðir af bjór.


Þegar ég lagði stund á nám við Háskóla Íslands á sínum tíma tíðkaðist sá siður hjá ýmsum fyrirtækjum að bjóða mér og bekkjarsystkinum mínum í svokallaðar vísindaferðir. Eins og flestir með reynslu af slíkum ferðum vita eru þær frekar fjarskyldar vísindalegri iðkun í hefðbundnum skilningi.

Að vísu er yfirleitt einhver þáttur í vísindaferðum sem tengist náminu. Þannig var ekkert óalgengt að lagenemar þyrftu að sitja undir flóði nákvæmra upplýsinga um skráningu tiltekins félags á hlutabréfamarka.

Aðdráttarafl ferðanna byggðist hins vegar lítið á þessum fyrirlestrum. Þær áttu mest sitt undir væntingum gesta um ókeypis veitingar í fljótandi formi. Á lögfræðimáli eru slíkar væntingar kallaðar ,,réttmætar væntingar”.

Aðeins einu sinni man ég eftir því að vonir laganema til vísindaleiðangurs hafi brostið. Mér skilst að það hafi verið ferð í álverið í Straumsvík. Þennan dag mun hafa verið kafaldsbylur. Þátttaka í ferðinni var takmörkuð við þann hluta nemenda sem að jafnaði var þyrstari en svo að aftakaveður gæti staðið í vegi fyrir ferðalögum. Að sögn viðstaddra varð þögnin í hópnum ótrúlega fljótt þrúgandi þegar í ljós kom að veitingar þann dag voru takmarkaðar við kaffi og kökur.

Laganemar báru lengi kala til ÍSAL vegna þessa. Þegar betur er gáð verður að viðurkennast að líklega er fátt fráleitara en að hafa ölvaða laganema á reiki í álverinu.

Þegar háskólaárunum lauk og fjárráðin bötnuðu fór maður að hugsa um vísindaferðirnar í öðru samhengi. Þannig rann það upp fyrir manni að líklega innbyrti meðalgestur í svona ferð í kringum þrjá bjóra af Egils Gulli. Það jafngildir um 450 krónum.

Setjum sem svo að tryggingafélag hefði sent laganemum tölvupóst og boðið þeim í heimsókn gegn 500 króna greiðslu. Er líklegt að maður hafi þekkst boðið? Sú spurningin svarar sér auðvitað sjálf.

Eftir komuna hingað til London hefur lítið farið fyrir vísindaferðunum. Í gær barst mér hins vegar póstur frá fyrirtækinu Inbev, sem að eigin sögn eru afkastamestu bjórframleiðendur í heimi og framleiða m.a. Becks, Stella Artois og fleiri tegundir.

Í póstinum er dagskránni lýst á einfaldan og skorinorðan hátt:

,,As well as sampling some of our fantastic brands you could also win a year's supply of beer. What do you have to do - come along to the InBev Employer Presentation and find out more about our brands and the great career opportunity open to you.”

Það er greinilega meira lagt undir í vísindaleiðangranna núorðið.

3 Innlegg:

Anonymous Nafnlaus sagði...

Þetta er alvöru tilboð. Maður minnist þess nú úr þeim fáu vísindaferðum sem við fórum í í sagnfræðinni forðum daga að þar flaut mjöðurinn og þó hvergi eins og hjá Vífilfelli. Eina vísindaferðin sem ég held að hafi í raun haft eitthvað með sagnfræðinga að gera sem slíka var þegar við fórum til Kára að skoða Íslendingabók sem var þá í vinnslu. Og ekki var Kári heldur spar á ölið ó nei!

12:19 e.h.  
Blogger Þórfreður sagði...

„Aðdráttarafl ferðanna byggðist hins vegar lítið á þessum fyrirlestrum. Þær áttu mest sitt undir væntingum gesta um ókeypis veitingar í fljótandi formi. Á lögfræðimáli eru slíkar væntingar kallaðar ,,réttmætar væntingar”.“

Þessari klausu hló ég að – þetta er náttúrlega bara snilld.

7:34 e.h.  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Ég gafst upp á þessu eftir tvær vísindaferðir.

11:24 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home