miðvikudagur, janúar 11, 2006

Móralska hornið.


Flaggskip dagblaðsins The Times er án efa Móralska hornið sem birtist í blaðinu á miðvikudögum. Í dálkinum situr Joe Joseph fyrir svörum um hin og þessi siðferðislegu álitamál sem lesendur leggja fyrir hann.

Í dag lagði lesandi fyrir hann spurningu um fótboltaspil sem hann spilar í á hverfisbarnum sínum:

,,Hver leikur í spilinu kostar 1 pund. Þar sem viðhalds- og rekstrarkostnaður spilsins getur ekki verið mikill verður að teljast að þessi fjárhæð sé nokkuð úr hófi. Svo heppilega vill till að ég kom fyrir skemmstu frá Swazilandi með helling af smápeningum, en hver þeirra er nákvæmlega eins í laginu og eins punda myntin. Virði hvers penings er ekki nema 9 pens þannig að ég er að stórgræða á að nota þetta. Nú er spurningin: Hversu vondur er ég?

Svar:

,,Swazilanski peningurinn þinn er kannski í laginu eins og 1 pund. Það breytir þó ekki því að hann er EKKI eitt pund.

Þú átt ekki rétt á að ákveða hvað þú borgar fyrir leik í fótboltaspilinu frekar en þú átt rétt á að ákveða einhliða hvað þú borgar fyrir bjórinn sem þú svolgrar meðan þú spilar. Þannig er nú það kallinn minn. Og þrátt fyrir að það kosti nú ekki mikið að halda einu svona fótboltaspili við þá kostaði örugglega sitt að kaupa það á sínum tíma. Það er ekkert nema eðlilegt að eigandinn rukki fyrir notkunina til þess að ná upp í kaupverðið þótt það tengist ekki beint viðhaldinu.

Ég myndi ekki segja að þú værir beinlínis vondur. Háttsemi þín er hins vegar vissulega siðferðislega ámælisverð. Ef þú lætur ekki af þessu gætirðu átt á hættu að verða barinn.”

0 Innlegg:

Skrifa ummæli

<< Home