fimmtudagur, janúar 05, 2006

Hristist fyrir lendingu.


Yfir Atlantshafinu er 1100 millibara lægð. Almennt séð vekja slíkar staðreyndir ekki sérstakan áhuga minn. Þegar maður er staddur inni lægðinni miðri og sætisbeltaljósin kvikna á ný er hins vegar ekki laust við að maður sjái veðurkortið í nokkuð öðru samhengi.

Sem betur fer þarf töluvert til að raska hugarró minni í flugvélum. Ég upplifi ekkert dramatískt á borð við það að sjá líf mitt þjóta hjá. Í staðinn líða klukkustundirnar frá því að ég vaknaði í rólegheitum í gegnum hugann.

Vaknaði kl. 4.40 fyrir flugið. Það tekur um 20 mínútur í svefnrofunum að átta sig á því að tveggja og hálfs tíma svefn er svo sannarlega ekki það sem þarf.

Ingvar og Sverrir bræður mínir skutla okkur út á flugvöll. Morgninum er alfarið bjargað þegar þeir setja hið sígilda ,,Eins dans við mig” með Hemma Gunn, af sólóplötu hans ,,Frískur og fjörugur.” Ég held að það væri hægt að koma fólki í jarðaför í gott skap með þessu lagi, sem og fleiri lögum af plötunni.

Á flugvellinum hittum við Óla og Laurence sem eru á leiðinni til Brussel gegnum Amsterdam. Þar sem flugvellir eru í eðli sínu óheimilislegir og fjarrænir staðir er eitthvað sérstaklega skemmtilegt við að rekast á vinafólk sitt þar þó stutt sé.

Í Leifsstöð reyndist annars allt vera lokað nema gamla kaffiterían. Einhvern tíma spurði ég Jónas Kristjánsson, veitingahúsarýnanda með meiru, að því hver væri versti veitingastaður á Íslandi. Jónas svaraði með þeirri innilegu ólund sem honum einum er gefin að það væri án nokkurs vafa kaffiterían í Leifsstöð. Maturinn þar væri ekki bara dýr, heldur líka óætur.

Í Fríhöfninni keyptum við Tópas-líkjör til að bjóða vinum okkar Andersson, Ligiu og Christinu í matarboði sem við ætlum að halda saman fljótlega. Mér verður hugsað til þeirra heilræða sem ég fékk einu sinni að áfengi sé eini varningurinn sem ekki eigi undir nokkrum kringumstæðum að flytja frá Íslandi.

Sylvía sofnaði langt á undan mér í flugvélinni. Ég setti á Antony and The Johnssons í símanum og leið út af í framhaldi af því. Ég get staðfest að draumarnir verða svo sannarlega undarlegir með þessa tónlist í eyrunum.

2 Innlegg:

Anonymous Nafnlaus sagði...

„Klukkan eitt fylltist gólf,
Siggi, Kalli, Gummi, Njalli, Valli, Jósafat það matargat”

Óborganlegt!

Þetta lag er annars upprunalega franskt. Sú útgáfa er nú mun leiðinlegri að mí mati, hafi einhver áhuga á að heyra hana þá er hægt að nálgast hana hérna: Plastic Bertrand - Ca Plane Pour Moi

8:59 f.h.  
Blogger sylvia sagði...

HAHAHAHAHA... ekki vissi ég að þetta lag væri upprunalega franskt.

Ég er alveg sammála þér að sú útgáfa er mun leiðinlegri. Hugsa ég þó að skilngingsleysi mitt í frönsku kunni að hafa einhver áhrifa á það. Ég skemmti mér samt við að hlusta á hana.

5:46 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home