föstudagur, desember 16, 2005

Jólakort.



Nú er runninn upp sá tími ársins sem jólakortin fara að berast okkur. Okkur finnst gaman að fá jólakort. Þau eru merki þess að einhver sé að hugsa til okkar. Og það í miðri jólageðveikinni.

Engu að síður er ekki laust við að maður hafi smávegis samviskubit á þessum árstíma. Við höfum ekki beinlínis verið dugleg við að senda fólki hlýjar kveðjur öðruvísi en í huganum um þetta leyti árs. Okkar hlutskipti hefur fyrst og fremst verið að þiggja.

Fyrir þessu er engin gild afsökun. Að vísu reynum við stundum að telja sjálfum okkur trú um að mynd af okkur tveimur muni ekki fara vel á kommóðum sem vísast verða undirlagðar myndum af brosandi börnum með jólahúfur eða nýgiftum hjónum. En auðvitað snýst málið ekki um það.

Líklega eru flestir þeir sem senda okkur jólakort í hópi lesenda þessarar síðu. Af því tilefni viljum við nota tækifærið og óska ykkur öllum gleðilegra jóla og farsæls komandi árs. Um leið þökkum við kærlega fyrir kortin.

Myndin hér að ofan er jafnframt jólagjöf okkar til lesenda síðunnar: tvær geitur til munaðarlausrar stúlku í Afríku. Geiturnar hafa þá þýðingu að aðrar fjölskyldur geta haft efni á því að taka stúlkuna að sér og veita henni heimili. Með því verður töluvert ósennilegra að hennar bíði grimm örlög á borð við að verða seld mansali.

Geitur er aðeins ein af mörgum gjöfum sem hægt er að gefa af síðunni www.goodgifts.org. Blaðið Independent tók síðuna út um daginn. Þetta er einn gagnrýnasti fjölmiðill í Bretlandi. Ef eitthvað misjafnt lægi að baki þessarar síðu má telja næsta öruggt að það hefði þá verið afhjúpað.

Á þessum tíma árs heyrist stöðugt hærra sá harmasöngur að jólin snúist eingöngu um neyslufyllerí og að gefa fólki eitthvað sem það hvorki langar í né vantar. Hér gefst kannski ekki tækifæri til að kveða þessa söngva í kútinn. Það ætti hins vegar að vera hægt að lækka eitthvað í græjunum hjá þeim sem spila þá.

Eins og með jólakortin þá höfum við svo sannarlega ekki verið nógu dugleg við að láta eitthvað af hendi rakna um jólin. Þar sem nær allir sem við þekkjum virðast vera okkur betri í að láta verkin tala í jólaundirbúningnum erum við viss um að hvatning okkar til að gefa pínulitla gjöf til annarra en vina og vandamanna hljóti góðar undirtektir. Látið þetta endilega berast til allra sem þið þekkið. Hérna er leiðin

Kærar jóla- og nýárskveðjur,

Sylvía og Kjartan

1 Innlegg:

Blogger Sigrun Lilja sagði...

Ég er ekki heldur mikið í því að senda jólakort og óska ykkur hér með gleðilegra jóla.

5:25 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home