föstudagur, desember 02, 2005

Óvænt tenging.


Ég gerði þau mistök í vikunni að vekja athygli vinar míns Andersons hérna í London að Ronaldinho hefði verið kjörinn knattspyrnumaður ársins. Þar sem Anderson er bæði brasilískur og mikil áhugamaður um knattspyrnu hélt ég að það væri vel við hæfi.

,,Nefndu ekki þann mann í mín eyru” - svaraði Anderson að bragði. Ég krafðist að sjálfsögðu skýringa, enda taldi ég viss um að hinn síkáti samlandi hans væri átrúnaðargoð alls þorra manna í Brasilíu.

Það kom á daginn að Anderson hafði eitt sinn att kappi við nefndan Ronaldinho. ,,Það var löngu áður en hann varð frægur” bætti Anderson við, til að undirstrika hógværð sína, sem þegar er orðin mér vel kunn. Til að gera langa sögu stutta þá spilaði Anderson í vörninni þennan dag. Ronaldinho í sókninni. Lið Andersons tapaði 8-0. Ronaldinho skoraði sjö.

Góðu heilli hefur maður ekki þurft að bíða neina viðlíka ósigra það sem af er dvölinni í London. Reyndar er töluverður hamagangur í náminu. Ég náði með fortölum að sannfæra skólayfirvöld í lagadeild London School of Economics að það væri hagur allra að ég skrifaði tvær ritgerðir í stað einnar. Nú er unnið hörðum höndum að sýna fram á kosti þessarar tilhögunar.

Þegar Franz Ferdinand komu til Íslands í september komst ég því miður ekki á tónleikanna. Þá var ég ekki ánægður. Nú finnst mér það hins vegar allt í lagi. Franz Ferdinand eru að spila í London í kvöld.