þriðjudagur, nóvember 29, 2005

Heimsóknartími

Þegar ég lá fótbrotinn á því sem nú er öldrunarstofnunin Landakotsspítali skildi ég aldrei af hverju fólk mætti bara heimsækja mig á bilinu 15.00 – 17.00. Í ljósi þess að ég lá þarna hreyfingarlaus og gat lítið gert annað en að lesa og horfa á bíómyndir fannst mér vægast sagt óviðeigandi að geta ekki tekið á móti fólki allan daginn út og inn til að stytta mér stundir.

Vikan sem leið er búinn að vera einn samfelldur heimsóknartími. Það er góð vika. Þar síðustu helgi mættu þau Eggert Páll, Ragnar Jónas og spúsa hans Margrét María til London. Eggert og Ragnar voru staddir hér á vegum KB-banka. Með slíka öðlinga innanborðs á ég bágt með að trúa öðru en að umrædd bankastofnun beri hag og velferð almennings fyrir brjósti í öllum störfum sínum.

Í hópinn slógust enn fremur sómahjónin Árni og Guðrún. Fyrir þá sem ekki vita þá erum við Árni bæði skólafélagar úr lagadeildinni og nú skólafélagar hér. Ég hefði ekki getað haft betri ferðafélaga hér í náminu þótt ég hefði valið hann sjálfur.

Senuþjófur dagsins var óneitanlega Gunnar Árnason, sonur Árna og Guðrúnar, sem brátt verður sjö mánaða. Það er sannarlega tilbreyting að sjá börn í stórborginni (sbr. fyrri færslur um dverga og börn), svo ég tali nú ekki um þegar þau eru svona glaðsinna sjarmatröll.

Á mánudaginn mætti Þorbjörg yfirfrænka mín síðan til borgarinnar. Þorbjörg er óneitanlega ein jákvæðasta manneskja á Íslandi og ómögulegt annað en að smitast af því. Þorbjörg bauð okkur á tælenskan veitingastað í Covent Garden og má segja að það hafi markað upphafið að einni mestu dekurviku sem við hjónaleysin höfum upplifað lengi.

Seinna um kvöldið slógust síðan foreldrar mínir í hópinn. Mikið var nú gott að sjá þau. Til að setja síðastnefnda fullyrðingu í samhengi get ég sagt að það hafi verið betra en bæði maturinn á Sardo og Quirinale sem við borðuðum saman á og markið sem við pabbi sáum Van Persie skora á vellinum á laugardaginn. Viðstaddir vita hvað við er átt.

Heimsóknartrílógíunni lauk síðan um helgina þegar þær Astrid og Gréta, systur Sylvíu bættust í hópinn. Það tók átta ár til þess að kynna mig fyrir þeim systrum. Mikið er ég feginn að það tók ekki meira en rúmlega tvo mánuði til þess hitta þær aftur.


Margrét og Ragnar.


Góðvinur Kiefers Sutherland ásamt höfundi.


Gunnar Árnason.


Þorbjörg frænka og Sylvía.


Mynd af mömmu taka mynd af pabba.


Highbury í allri sinni dýrð.


Þrjár systur.

2 Innlegg:

Anonymous Nafnlaus sagði...

Mikið vildi ég að það væri minnst á mig í þessari færslu. Bæði af því að þá hefði ég að öllum líkindum verið í London í síðustu viku en ekki síst vegna þess að þú talar svo fallega um alla sem nefndir eru þarna!!!

4:47 e.h.  
Blogger KjartanB sagði...

Ég segi bara vertu velkomin. Að fenginni reynslu þá get ég örugglega ábyrgst falleg ummæli um þig á síðunni.

4:54 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home