laugardagur, nóvember 19, 2005

Stungið i samband.


Vikan hófst á samningaþrefi við ónefndan kerfisfræðing á vegum University of London. Mánudagsmorgnar eru ekki meðal hápunkta vikunnar fyrir mér. Ennþá síður þegar ég þarf að vakna snemma gagngert til að semja mig út úr vonlausri samningsstöðu.

Mér leið eins og dæmdum sakleysingja að biðja um reynslulausn. Í 30-síðna bæklingnum um netkerfi skólans var ekki stafkrókur um uppsetningu routers, hvað þá að það væri bannað. Þá hafði umræddum kerfisfræðingi ekki þóknast að svara tölvupósti mínum um sama efni, sem sendur var 10 dögum fyrir tilraun til uppsetningar.

Ekkert af þessu bar þó á góma í samtali okkar. Það hefur því miður sjaldan reynst mér vel að beita einhvern fortölum um leið og ég höfða til sektarkenndar hans.

Í stað þess taldi ég vænlegast að fara að fordæmi fyrrverandi Bandaríkjaforseta og segja manninum einfaldlega að ég væri ekki netskúrkur. Hann tók því ekki verr en svo en að hann tengdi okkur samstundis aftur.

Vegir mannanna eru órannsakanlegir.