laugardagur, desember 17, 2005

Piltur og stúlka.

Einu sinni var í fjarlægu landi á stað sem við skulum kalla Akureyri ungur piltur í koti sínu. Hann þótti fríður sýnum og forkur til vinnu. Hann var ókvæntur og barnlaus.

Einn daginn þar sem pilturinn sat við vinnu sína bar sjónvarpsmann að garði. Þegar hann sá piltinn mælti hann: ,,Eigi er það gott að þessi piltur sé einsamall. Við skulum gera honum meðhjálp við hans hæfi.”

Gekk sjónvarpsmaðurinn að piltnum og mælti við hann: ,,Allir eru að leita ástinni í lífinu. Mig langar að bjóða þér í stórfenglegasta ævintýri lífins: sjálfa leitina að lífsförunautnum.”

Pilturinn horfði á sjónvarpsmanninn undrunaraugum og svaraði: ,,Vertu ekki að plata mig góði minn. Ég er ekki eins og allir hinir strákarnir. Þótt ég sé utan af landi þá þýðir það nú ekki að ég hoppi upp í bíla hjá hverjum sem er.”

Sjónvarpsmaðurinn mælti þá á móti: ,,Ég býð þér að gerast Bachelor Íslands. Þér gefst einstætt tækifæri til að velja konuefni þitt úr hópi yndisfríðra blómarósa. Það eina sem þú þarft að gera er að koma í sjónvarpið til mín og skrifa hérna undir.”

“OK.” – sagði pilturinn og skrifaði undir samninginn.

Þegar fyrirætlun sjónvarpsins spurðist út flykktust yngismeyjarnar að hvaðanæva af landinu. Urðu þær alls sautján. Og í hverjum þætti sendi Bachelorinn nokkrar heim. Þær sem Bachelorinn gat hugsað sér til undaneldis fengu hins vegar að vera áfram. Gaf hann hverri þeirra rós sem tákn um það hlutskipti hennar.

Til einnar þeirrar bar hann sterkari hug en hinna. Það gekk ekki áfallalaust að vinna ástir hennar. Hún átti til dæmis til að spyrja óþægilegra spurninga eins og: ,,Var gott að káfa á Elvu?” Við þessu átti söguhetja vor því miður ekkert betra svar en: ,,Ég man það ekki.”

Eftir því sem fram liðu stundir varð þó ljóst að stúlkan felldi jafnframt hug til Bachelorsins. Sást það aldrei betur en þegar hún hélt hann hafa bundist sundmey nokkurri tryggðaböndum. Varð Bachelornum þá að orði: ,,Þú situr þarna bara eins og dauðadæmd.” Stúlkan svaraði þá að bragði: ,,Ég er dauðadæmd.”

Ekki var þó öll nótt úti enn og sú dauðadæmda fékk sannkallaðan gálgafrest þegar sundmeyin vildi ekki gera Bachelornum þann heiður að þiggja af honum rós. Bauð Bachelorinn þeirri dauðadæmdu þá rósina og mælti hún þá nokkuð snúðugt: ,,Ég veit það ekki. Er þetta rósin hennar Írisar?”

Bachelornum líkaði þetta ekki og spurði höstulega: ,,Viltu þessa rós eða viltu hana ekki?” Tók sú dauðadæmda þá við rósinni. Lauk þá þar með þeim kafla sögu þessarar sem bókmenntafræðingar myndu kalla ris.
Til að gera langa sögu stutta þá valdi Bachelorinn blómarósina dauðadæmdu sem heitmey sína.

Fóru þau síðan í sjónvarpsþáttinn Fólk hjá Sirrý og lifðu hamingjusöm til æviloka, eða að minnsta kosti þangað til fjölmiðlar hættu að fylgjast með þeim.