mánudagur, janúar 16, 2006

Galloway



Þetta er ekki færsla um kýr. Það er rétt að taka þetta fram, þar sem orðið Galloway hefur helst verið notað á Íslandi um nautgripastofn þann sem fluttur var inn frá Skotlandi um miðbik 8. áratugarins. Gott ef einangrunarstöðin í Hrísey var ekki byggð yfir þessi kvikindi. Mér skilst að Galloway-kýr séu bæði einstaklega kjötgæfar og mjólkurlagnar.

Undanfarna daga hef ég tekið upp þann ósið að sofna stundum útfrá þættinum Big Brother hér í Bretlandi. Í stuttu máli gengur þátturinn útfrá að stela hugmynd Georges Orwell um ógnarstjórn sem vaktar þegna sína jafnt í vöku sem í svefni. Þátturinn byrjar á því að nokkrir einstaklingar flytja inn í sama húsið. Eftir það rúllar þátturinn í beinni útsendingu allan sólarhringinn í einn mánuð. Þátttakendur mega ekki hafa samband við neinn utan hússins á þeim tíma.

Forsvarsmönnum þáttarins til varnar þó verður að segjast að líklega kviknaði Orwell sú hugmynd að 50 árum eftir útgáfu bókar hans myndi fólk í frjálsu samfélagi keppast um að undirgangast slíkar persónunjósnir.

Útgáfan af Stóra-bróður sem nú er í gangi er sérstök fyrir þær sakir að hún er helguð þekktum einstaklingum. Það fólk er af ólíku sauðahúsi. Einn karlmaður er þekktur körfuboltakappi úr NBA. Ein konan mun hafa leikið í ljósbláum myndum og önnur lék í Strandvörðum. Sá sem hefur fengið hvað mesta athygli fyrir þátttöku sína er þó líklega þingmaðurinn George Galloway.

Hér í Bretlandi hefur Galloway helst getið sér orð fyrir andstöðu sína við Íraksstríðið. Reyndar hefur það þvælst fyrir honum í því sambandi að hafa einhvern tíma verið boðið í kaffi til Saddam Hussein. Hvað sem því líður þá hefur Galloway náð ágætum árangri í baráttu sinni. Í síðustu kosningum skipti hann til dæmis um kjördæmi og vann sigur í einu helsta höfuðvígi Verkamannaflokksins hér í London.

Þótt Galloway sé almennt ekki vinsæll maður á Bretlandseyjum eru menn sammála um eitt. Hann er orðhákur af klassíska skólanum og með flugmælskari mönnum ef svo ber undir.

Galloway heimsótti LSE um daginn. Þar fjallaði hann meðal annars um hræsni bresku ríkisstjórnarinnar í baráttunni gegn hryðjuverkum og benti í því samhengi á að nýlega hefði verið gengið frá samkomulagi um sölu á vopnum til Gaddafis Líbýuleiðtoga. Fyrir nokkrum árum hafi hins vegar Gaddafi verið lýst sem erkióvini númer eitt af sömu ríkisstjórn.

Eftir að Galloway hafði sagt ,,Gaddafi hasn´t changed! He has just changed sides?” heyrðist skyndilega kallað úr salnum:

,,Non-sense! Gaddafi is a reformed character.”

Við þetta gerði Galloway hlé á máli sínu og sagði: ,,Excuse me is there a photographer here? – Could you please come over and take a picture of the person who said Gaddafi was a reformed character? Nobody will believe that I met such a person unless I provide some evidence.”

Það er ekki laust við að manni finnist heldur lítið leggjast fyrir kappann þegar hann hefur rofið samband við kjósendur sína til að vera mánuð í Stóra-bróðurs húsinu. Síðast þegar ég gáði var hann að leika kött þar, sbr. meðfylgjandi mynd.