mánudagur, apríl 03, 2006

Frakkland.


Þegar ég tók skyldunámsskeiðið ,,Landafræði” hjá séra Hjalta Þorkelssyni í 10 ára bekk Landakotsskóla veturinn 1986-1987 var það eitt af helstu markmiðum námskeiðsins að maður legði á minnið ýmsar staðreyndir um hin og þessi lönd.

Um Frakkland lærði ég að landið væri 674.843 ferkílómetrar og þjóðsöngurinn héti ,,La Marsellaise”. Íbúatölur lágu yfirleitt ekki á lausu í kennslubókunum enda hefur sjálfsagt verið uppálagt að fólk legði meiri áherslu á hinar óbreytilegu stærðir til þess að hin dýrmæta vitneskja úreltist ekki.

Í síðustu viku uppgötvaði ég mér til skelfingar að þessari landafræðiþekkingu mun vera vandfundið nokkurt hagnýtt gildi, nema maður vinni við kortagerð eða skífuskank fyrir landsleiki á Laugardalsvellinum. Á móti kom að ég komst að ýmsu öðru um Frakkland sem gæti verið praktískt fyrir aðra að vita.

Fyrst bera að nefna að Frakkar telja það ekki viðeigandi í ljósi goggunarraðar hunda og mannfólksins að mannlegur máttur komi nærri því að þrífa upp eftir blessuð dýrin þegar þeim verður mál. Fyrir vikið er hundaskítur hvergi útbreiddari en einmitt í Frakklandi. Sorglega staðreyndin er sú að hann er oftast niðurstiginn þar sem hann er að finna. Slysin gera greinilega ekki boð á undan sér.

Frakkland er eina landið í heiminum þar sem franska er talið heimstungumál. Upplýsingar á hótelum, veitingastöðum og miðstöðvum almenningasamganga eru undantekingarlaust aðeins á frönsku.

Fyrst hélt ég að þetta væri yfirvarp til að þurfa ekki að tala við útlendinga. Vinalegi vertinn á hótelinu Toulon sannfærði mig um hið gagnstæða með því að útlista kosti bæjarins í löngu og ítarlegu máli á þjóðtungu sinni. Um leið horfði hann djúpt í augun á mér til að tryggja að hann nyti óskiptrar athygli minnar. Athyglina fékk hann en af tölu hans skildi ég ekki meira en um það bil 2-3 orð. Eitt þeirra var ,,vouz”.

Frakkland hefur upp á meira úrval af góðu bakkelsi, ostum, mat og víni en nokkurt annað land. Ég strengdi þess heit í ferðinni að ef ég verð einhvern tíma feitur þá ætla ég að verða það í Frakklandi. Fimm dagar nægðu því miður ekki til annars en að vera saddur. Einhvers staður verður maður að byrja.