fimmtudagur, febrúar 09, 2006

Heimsókna- og verkefnatími

Við náðum að lokka tengdó til okkar í byrjun mánaðarins með miðum í óperuna. Við spilltumst af dekri og lúxusmáltíðum milli þess sem ég skrifaði ritgerð og drakk kaffi í boxinu góða. Beint eftir ritgerðaskilin var svo stefnan tekin í Sheperds Bush á tónleika með Jose Gonzales. Ég fékk þessa tónleika í jólagjöf frá snillingunum Sverri og Gvara sem kynntu mig fyrir þessum frábæra söngvara.

Sif, Herborg og Sóley skelltu sér svo í helgarferð hingað. Dagskráin var stíf enda margt um að vera hér í Lundúnum. Að sjálfsögðu voru búðirnar heimsóttar og innhald þeirra skoðað af alúð. Svo svona til að monta okkur aðeins þá var farið í London Eye, Dalí sýningu, Aquarium, Science Museum, Circus Soleil, Spitalfields og vínsmökkun. Semsagt mottóið “work hard, play hard” tekið alvarlega. Því eftir að stelpurnar voru kvaddar með miklum söknuði tók næsta verkefni við. Umfjöllunarefnið var fóstureyðingarbann í Rúmeníu 1966 og því var skilað rétt áðan. Góð tilfinning!

Núna er Sverrir umræddur snillingur í lestinni á leiðinni til okkar í boxið – ekki slæmt!



Ég ætlaði að sýna ykkur fleiri myndir en næ þeim ekki út af símanum. En Sif með Joey húfuna verður sett inn leið og ég læri á þetta.

miðvikudagur, febrúar 08, 2006

Skammstöfunin LSE.



Í skólanum gengur sú saga að skammstöfunin LSE hafi aðra og duldari merkingu en þá sem opinber er. Sú merking ku vera: ,,Let´s see Europe”.

Nemendur eru hins vegar varaðir við því að taka slíka skammstöfun of alvarlega. Í því skyni er til dæmis sögð sagan af bandaríska laganemanum sem tók próf í alþjóðlegum skattarétti.

Umræddur Bandaríkjamaður mun hafa skundað í prófsalinn af því sjálfsöryggi sem einkennir víðförla heimsborgara. Eftir að hafa sest niður við prófborðið tók hann við að fletta í 1000 bls. safni skattalaga og tvísköttunarsamninga sem menn máttu hafa meðferðis í prófinu.

Tíminn leið og bandaríski laganeminn fletti stöðugt hraðar í doðrantinum meðan hann skimaði yfir spurningarnar. Eftir drykklanga stund nam hann staðar í flettingunum og dæsti þannig að undir tók í prófsalnum: Jesús.

Nærstöddum mun hafa þótt þetta býsna undarlegt þar sem hvorki prófið né skattalagasafnið höfðu að geyma trúarlegar skírskotanir af neinu tagi. Að svo búnu gekk laganeminn út úr prófinu.

Við Sylvía höfum undanfarið verið að leggja drög að ákveðnu tilbrigði við skammstöfunina LSE. Í okkar huga hefur hún verið: ,,Let´s see Egypt.” Heimskir menn hafa hins vegar orðið til þess að Danir og Norðmenn í Mið-Austurlöndum hafa verið gerðir að sérstökum skotspæni heimskra manna í sömu löndum. Nú þarf maður líklega aðeins að doka við að sjá hver framvindan verður.

Ég hef annars mjög einfalda skoðun á þessu máli: Þeim sem stóðu að birtingu skopmyndanna er líklega best komið fyrir í öðru starfi en á fjölmiðli. Þeim sem hvetja til ofbeldisverka á grundvelli myndanna er hins vegar best komið fyrir bak við lás og slá.