fimmtudagur, september 15, 2005

Takk.

Einhvers staðar í undirmeðvitundinni átti ég ræðu. Þetta var ræða sem átti að koma að góðum notum ef ég ynni hugsanlega Óskarsverðlaun. Hún hefði líka alveg dugað þótt það hefðu bara verið Edduverðlaunin eða einhver önnur verðlaun. .

Þar sem ég hef ekki skipt mér af kvikmyndgerð í fjögur ár fara líkurnar á viðurkenningum á því sviðinu ört minnkandi. Enn sem komið er hefur ekki verið stofnað til lögfræðiverðlauna. Ég á því mér ekki annars úrkosti en að nota ræðuna mína.

,,Kæru vinir, vandamenn og starfssystkini. Við værum ekki komin hingað sem við erum í dag ef ykkar nyti ekki við. Ég vil byrja á því að þakka foreldrum mínum fyrir að hafa hýst ógrynni af húsgögnum og kössum fyrir okkur. Laila og Manni eiga ástarþakkir fyrir að hafa tekið sófann, skenkinn og aðra innanstokksmuni. Guðlaun, Trausti, sem geymir borðið og stólana, ásamt fjórum kössum, og sömuleiðis Þóra og Kolli fyrir að geyma eldhússettið okkar. Ykkar framlag gleymist ekki.

Þá vil ég þakka Hauki Má heimspekingi fyrir að hafa af góðmennsku sinni og örlæti ferjað tösku fyrir okkur milli landa þannig að við slyppum við yfirvigt. Jóngeir – heimurinn þarf fleiri greiðabílstjóra eins og þig. Það eru ekki allir bílstjórar sem stoppa mælinn á miðri leið þar sem þeim finnst þetta einfaldlega stefna í að verða of dýrt.

Þið öll hin sem ég næ ekki að nefna þar sem tilfinningarnar bera mig ofurliði. Þið vitið hvaða sess þið skipið í hjarta mínu.

Ef hjálp ykkar hefði ekki komið til værum við ennþá á Boðagrandanum. Íbúðin væri ótæmd, við værum búin að missa af flugvélinni og farin yfirum af stressi.

Síðast en ekki síst þakka ég ömmu minni fyrir að hafa sent engla og góða vætti á undan okkur. Það hefur greinilega haft sín áhrif.”

Að öðru leyti er það af okkur að frétta að við erum mætt á staðinn. Vegna Noregsfarar okkar verður tíðindalítið á síðunni yfir helgina. Framundan eru þó sögur af ævintýrum okkar í útlöndum, fregnir af Houseman-bræðrum og ýmislegt fleira.