laugardagur, október 15, 2005

Haldið framhjá.


Í dag gerðist það í fyrsta skipti að ég hélt framhjá. Það er nokkuð sem ég taldi mig aldrei eiga eftir gera. Ennþá óvæntara finnst mér að hafa gengið til verksins að fullkomlega yfirlögðu ráði og að Sylvía hafi mest hvatt mig til þess.

Með þessu hefur formlega verið bundinn endir á 15 ára trygglyndi mitt við Gísla V. Þórisson rakara á Hárlínunni að Snorrabraut 22 í Reykjavík. Fram að deginum í dag hafði hár mitt engra annarra skæra kennt en skæranna hans Gísla.

Góðu fréttirnar eru þær að ég hef sjaldan eða aldrei talið hár mitt jafn-mikla höfuðprýði og í dag. Marcus á hárgreiðslustofunni Compton í Covent Garden veit greinilega hvað hann syngur.

fimmtudagur, október 13, 2005

Að finna gelgjuna í sjálfum sér


Í gær fann ég gelgjuna í sjálfri mér. Ég held að það sé vanmetið fyrirbæri. Tilefnið voru tónleikar með James Blunt. James var semsagt mjög svalur og mér eins og sannri gelgju á tónleikum sæmir klökknaði, brosti og æpti til skiptis. Kjartan fær 10 rokkprik fyrir að redda þessum miðum.

Annars er ég flest alla aðra daga í fullorðinsleik. Kúrsarnir byggjast sumir upp á því að maður á að lesa (langa leslista – svo langa að þú kemst aldrei yfir allt efnið) fyrir umræðutíma og koma svo með gáfuleg komment á lesefnið. Aðrir eru verkfræðilegri með hefðbundum dæmatímum.

Í kringum mig er fullt af fólki í ennþá meiri fullorðinsleik. Það er allt að verða vitlaust í atvinnumálum hjá stúdentum hér í Bretlandi. Það er ekki seinna vænna en að fara að sækja um vinnu, helst í gær, fyrir næsta ár. Meðan ég var í sakleysi mínu að reyna að hakka mig í gegnum lesefnið þá voru allflestir að verða sér út um miða á banking og finance fair sem svipa til framadaga í HÍ nema færri komast að en vilja. T.d er töluvert um falsanir á miðum. En reglan um miða komst á vegna þess að eitt árið var þetta opið hús sem varð til þess að ákafir stúdentar ruddust á milli banka og troðningurinn varð svo mikill að það varð manni að bana.

þriðjudagur, október 11, 2005

Knattspyrnuæfing.



,,My name is Rafiki Zuluman Yrambambalele, but people call my Zimba. Because I am from Zimbabwe.”

Zimba er hafsentinn í skólaliði LSE í knattspyrnu þar sem ég fór á æfingu um daginn. Zimba hefur kynningu sína á að lýsa í fáum orðum aðdraganda veru sinnar í skólanum.

,,I played football very much in high school but I studied hard to get a scholarship so I could come here. Because of that I could not play football. Now I am here, so I am playing football again.”

Þrátt fyrir að mér finnist almennt skemmtilegra að hlaupa um grænar grundir knattspyrnuvallarins stóð ég í marki þennan dag. Þessi staða mín er að mestu afleiðing blinds metnaðar míns sem knattspyrnumanns.

Skömmu eftir komu mína hingað fékk þá flugu í höfuðið að það skipti verulegu máli að ég kæmist í aðallið skólans í knattspyrnu. Hvers vegna veit ég ekki. Þar sem ég hafði nú einu sinni leikið í marki í yngri flokkunum var markvarsla hins vegar ekki svo galin í þessu skyni.

Frammistaða mín þennan daginn var því miður á þann veg að nærveru minnar var óskað á frekari æfingum. Reyndar fannst mér eftirspurnin eftir henni fullmikil ef eitthvað var. Til að skýra það nánar tekur ferðin á æfingasvæðið hálfan annan tíma hvora leið. Æfingar eru fjórum sinnum í viku, og hver æfing stendur aldrei skemur en tvær klukkustundir.

Vegna lítilla undirtekta minna ákvað sérlegur formaður knattspyrnufélags skólans að taka að sér það vanþakkláta hlutverk að lýsa kostum aðildar fyrir mér. Þar á meðal voru tíð bjórkvöld, auðvelt aðgengi að busastelpum og svo hápunktur ársins – sem að mér skilst – felst í því að heimsækja einhvern grandlausan smábæ á Spáni, drekka stanslaust þar í 7 daga og skilja við allt í kaldakoli.

Ræða formannsins gerði það að verkum að gömul meiðsli hjá mér tóku sig upp. Ég á ekki eftir að sjá á eftir þessum félagsskap – nema auðvitað Zimba.

mánudagur, október 10, 2005

"You cannot go naked in the swimmingpool"

Bretar og aftur Bretar. Ofurkurteisir og skrifræði er þeirra vopn til þess að losna við umkomulausa námsmenn frá öðrum löndum. Ég held að ég komist ekki hjá því að tileinka mér breskan hreim til þó það væri ekki nema bara til að fá betri þjónustu í þeim tilgangi að sleppa við einn tíunda af því skrifræði sem til er ætlast.

Ég fór í ræktina í gær. Fékk leiðsögn um staðinn. Svo kom hin klassíska og óumflýgjanlega spurning: Where are you from? I am from Iceland. Þið Skandinavar verðið nú að taka tillit til þess að þessi sundlaug hér... og hann benti á laugina er "mixed" sem þýðir að þið getið ekki farið nakin í sund.

Annars komst ég að því að tutorinn minn Indverjinn talar norsku. Aldrei hefði mér dottið í hug að ég hefði átt eftir að tala við Indverja á norsku. Ætli hann tileinki sér skandinavíska siði þegar hann fer í sund? Hvernig ætli sundvenjur Indverja séu?

sunnudagur, október 09, 2005

Nú andar suðrið….



Vikan sem leið staðfesti það sem ég óttaðist mest. Nám mitt hérna verður vinna. Mikil vinna.

Ef ég þekki sjálfan mig rétt á meðfædd og ólæknandi samviskusemi mín örugglega eftir glepja mig frá ótal merkilegri hlutum en náminu á komandi vetri. Um merkilegri hluti læt ég nægja að vísa hingað.

Ákvað engu að síður að fagna þessum áfanga á þroskaferli mínum með viðeigandi hætti. Á föstudagskvöldið fórum við Árni til fundar við þennan mann og sáum hann fara á kostum í hlutverkinu sem Tom Cruise lék í A Few Good Men. Gott réttardrama fyrir okkur lögfræðinganna.

Laugardagskvöldið fórum við Sylvía síðan að sjá óperuna Maskerade í boði Konunglegu óperunnar hér í næsta nágrenni við okkur. Sýningin var töluvert fyrir augað en kannski ekkert svo mikið fyrir eyrað. Þegar óperur eiga hluta er reynsla mín yfirleitt á hinn veginn.

Í dag var svo farið á Brick Lane. Þar stóð yfir ráðstefna áhugamanna um húðflúr. Nokkru ofar í götunni hittum við fyrir mann sem stóð þar með kind í tjóðri. Það er ekki algeng sjón hér í stórborginni.