þriðjudagur, nóvember 22, 2005

Bíræfni…


Náði nýjum og óþekktum hæðum þegar við Sylvía mættum ungum manni fyrir framan leiði óþekkta hermannsins í London.

Maðurinn stóð niðurlútur og horfði á blómin á leiðinu. Það var eins og hann væri að syrgja eða votta föllnum hermönnum virðingu sína.

Að svo búnu hrifsaði hann fallegasta vöndinn og fór af vettvangi.

Í réttlátum heimi myndi kærastan hans örugglega komast að því um síðir hvaðan vöndurinn væri.

Ég skal veðja tíu pundum á að hún sé núna alsæl með hinn hugulsama kærasta og vöndinn sem hann kom færandi hendi með á leið sinni heim af barnum.

mánudagur, nóvember 21, 2005

Til heiðurs boxinu.



Ég vil fyrirbyggja misskilning: ég hef ekkert á móti mánudögum. Mér finnst þriðjudagar og miðvikudagar fínir. Og margir af mínum bestu dögum eru fimmtudagar og föstudagar.

Engu að síður verður að segjast að ég er almennt betur fyrirkallaður um helgar heldur en á virkum dögum. Fyrir því eru ýmsar ástæður, sem óþarfi er að fara út í náið. Í stuttu máli tengjast þær svefni, tíma og mat.

Helgin sem leið var meðal annars nýtt til að heimsækja Tate Museum of Modern Art. Það var sannarlega vel við hæfi enda var aðalsýningin á safninu uppsetning Rachel Whiteread á 14.000 hvítum kössum (boxum) í túrbínusal safnsins. Grípum niður í sýningarskrá verksins:

,,The form of a cardboard box has been chosen because of its associations with the storage of intimate personal items and to invoke the sense of mystery surrounding ideas of what a sealed box might contain.”

Aldrei hafði það hvarflað að mér að boxið okkar gæti verið sveipað dulúð hugmynda um hvað væri inni í því. Mér líður eins og það hafi stækkað.



sunnudagur, nóvember 20, 2005

Fótbolti

Ég skellti mér í fótbolta á miðvikudagskvöld. Liðið samanstóð af allra þjóða kvikindum þar á meðal voru fulltrúar frá New York, Nígeríu, Cayman-Eyjum, Kaliforníu, Íslandi, Mauritíus, Indonesíu og Bretlandi. Alþjóðlegra liði hef ég aldrei spilað með áður. Þetta var vináttuleikur á milli WFC LSE og einhvers strákaliðs. Þegar við vorum á leiðinni að keppnistað spurði Nígería: Afhverju vilja þeir spila við stelpur? New York svarar: Annaðhvort eru þeir 1) feitir og latir og þjálfarinn þeirra vill hvetja þá til að taka sig á eða 2) Þá vantar “Ego-búst” .

Þeir voru ekki feitir, veit ekki um leti en við unnum þá 8-6.