fimmtudagur, desember 29, 2005

Ljúfa líf.

Þegar við komum til landsins fengum við þær fréttir að við ættum inni dágóða upphæð frá skattinum. Það rifjaðist upp fyrir mér að ég hafði sótt um þessa peninga einhvern tíma í haust. Ég var samt löngu búinn að gleyma því.

Einhverra hluta vegna gleðja óvæntir peningar mig alltaf meira en þeir sem ég geri ráð fyrir. Kannski er það merki um að maður kunni meira að meta það sem maður fær með heppni í lífinu en það sem maður verðskuldar.

Við erum búin að vera á landinu í nokkra daga og njótum gestrisni foreldra minna og bræðra í Frostaskjólinu. Það hafa verið góðir dagar en því miður ívið fljótari að líða en við bjuggumst við.

Í fyrstu töldum við það ekkert mál að hitta alla vini og vandamenn oftar en einu sinni. Reynslan hefur hins vegar sýnt að til þess að sú áætlun gæti gengið upp hefðum við sennilega þurft að skipuleggja Íslandsheimsókn okkar með sama hætti og opinbera heimsókn þjóðhöfðingja.

Það hefur verið mikið gaman að hitta alla aftur. Þá skemmir ekki fyrir að hafa fengið fjölmörg fyrirheit um hitting í London á árinu sem er að koma. Vonandi ná sem flestir að standa við þau.