laugardagur, janúar 28, 2006

Ný hlið janúar.


Einhvern tíma sagði fúll og geðvondur Breti að að apríl væri grimmastur mánaða. Þetta var auðvitað fræg setning. Hún er svo gjörsamlega merkingarlaus að maður gæti haldið að hún væri ofurgáfuleg.

Ef apríl er grimmastur mánaða þá er janúar örugglega ærulausastur mánaða. Um daginn minnkaði orðstír mánaðarins enn þegar prófessor við Cardiff-háskóla lýsti því yfir að samkvæmt rannsóknum sínum væri 23. janúar mest niðurdrepandi dagur ársins.

Ég get alveg játað það að þessi janúar fór ekki vel af stað. Eftir aðstandendur þessarar síðu sneru hingað aftur frá Íslandi þurftu þau enn á ný að horfast í augu við þá bláköldu staðreynd að nám er vinna. Vinna er auðvitað sem slík ekki slæm. Hún er samt vissulega eitt af því sem gæta verður hófs í.

Á þriðjudaginn sem leið komu foreldrar mínir í heimsókn. Okkur hafði með klækjum tekist að véla þau aftur hingað í annað sinn á þremur mánuðum með því að gefa mömmu miða í óperuna í afmælisgjöf. Eftir komu þeirra hefur vegur janúar sannarlega farið vaxandi.

Dauður kokkur í eldhúsinu.


Afmælisdegi mömmu var fagnað á veitingastaðnum Passione við Charlotte-Street hér í London. Ef lesendur þessarar síðu þurfa einhvern tíma að velja á milli þess að fara út að borða eða í leikhús hér í stórborginni skal á það bent að sú leiksýning þarf að geta staðið undir miklum væntingum ef hún á að vera upplifun á við kvöldmat á þessum veitingastað. Ég mun örugglega alltaf minnast Passione sem staðarins þar sem ég smakkaði tiramisuið sem öll tiramisu ævi minnar voru borin saman við eftir það.

Mamma, pabbi og Sylvía voru reyndar ekki jafnlánsöm með panna cotta sem þau fengu: Það hafði greinilega verið notað of mikið matarlím í það.

Sylvía lét nægja að spyrja yfirþjónninn hvort þetta ætti að vera svona. ,,Of course not, madame!” Hann tók réttina umsvifalaust og fór með þá niður í eldhús.

Að því búnu kom hann aftur, bað margfaldlega afsökunar og bætti svo við með rammítölskum hreim: ,,There is one pastry chef dead in the kitchen now.”

Í fimm sekúndur hélt ég að yfirþjóninum væri full alvara.

Grátur í óperunni.


Í gærkvöldi var ég síðan minntur á það í annað sinn að Konunglega óperuhúsið í Covent Garden er góður staður. Mér myndi örugglega líða vel þar með því einu að hlussast bara í einu af mjúku sætunum í salnum. Það fer hins vegar ekki verr um mann í sætinu ef verið er að sýna La Traviata og Ana Maria Martinez er í aðalhlutverki.

Ég get þó ekki neitað því að það sló mig dálítið út af laginu þegar ókunn kona við hliðina á mér brast í grát með ekkasogum undir lokaatriðinu.

Slíkur var gráturinn að ég velti því fyrir mér hvort hún hefði hugsanlega rétt í sömu andrá fengið frétt um andlát einhvers sem hún þekkti.

Eftir smástund sá ég þó að það gat ekki verið. Í fyrsta lagi er stranglega bannað að nota farsíma í óperunni. Ef hún hefði fengið fréttirnar í hlénu er enn fremur heldur ólíklegt að hún hefði setið út fjórða þáttinn í klukkutíma.

Maður veit samt aldrei. Þetta var býsna góð sýning.

mánudagur, janúar 23, 2006

Gler og steinsteypa.

Það verður að segjast eins og er: Boxið sem upphaflega átti að vera bráðabirgðahúsnæði er komið til að vera. Að minnsta kosti í bili.

Eins og allir hlutir hefur boxið sína kosti og galla. Af kostunum ber staðsetninguna auðvitað hæst. Héðan er stutt í allt. Á efnahagslegum mælikvarða er staðsetningin oftar en ekki metin til 50 punda á nótt í litlu hótelherbergi með gömlum húsgögnum, skítugum teppum og fúkkalykt á þessu svæði. Þótt boxið sé á stærð við hótelherbergi er allt nýtt þar. Teppin eru hrein, fúkkalyktin víðs fjarri og gistingin talsvert undir 50 pundunum. Það væri ljótt að kvarta yfir þessu.

Einhvern tíma var mér sagt að hús væri ekki heimili nema maður gæti tekið á móti gestum í því. David Byrne söng líka að ef hús væri ekki heimili þá væri það bara gler og steinsteypa.

Í þessu er helsti galli boxins: Að bjóða einhverjum í mat hingað krefst þess að maður sé þá líka reiðubúinn til þess að láta samviskuna naga sig yfir því að láta viðkomandi matast í þrengslum. Það setur gestrisninni óneitanlega viss takmörk.

Helgin sem leið var gott dæmi um gildi þess að eiga góða að sem sjá til þess að tilfinningin fyrir heimilislegri stemmningu glatist ekki. Á föstudagskvöldið var okkur og Christinu vinkonu okkar boðið til þeirra hjónaleysa Anderson og Ligiu sem eru lögmenn frá Brasilíu. Daginn eftir nutum við gestrisni sómahjónanna Árna og Guðrúnar á heimili þeirra í Hampstead.

Ég sé mig til knúinn að vitna til orða Viktors (Björn Jörundur í myndinni) við yfirþjóninn á Grillinu í Englum alheimsins um bæði kvöldin: ,,Þetta var ákaflega ánægjuleg máltíð.” Samverustundirnar voru heldur ekki síðri.