laugardagur, janúar 28, 2006

Grátur í óperunni.


Í gærkvöldi var ég síðan minntur á það í annað sinn að Konunglega óperuhúsið í Covent Garden er góður staður. Mér myndi örugglega líða vel þar með því einu að hlussast bara í einu af mjúku sætunum í salnum. Það fer hins vegar ekki verr um mann í sætinu ef verið er að sýna La Traviata og Ana Maria Martinez er í aðalhlutverki.

Ég get þó ekki neitað því að það sló mig dálítið út af laginu þegar ókunn kona við hliðina á mér brast í grát með ekkasogum undir lokaatriðinu.

Slíkur var gráturinn að ég velti því fyrir mér hvort hún hefði hugsanlega rétt í sömu andrá fengið frétt um andlát einhvers sem hún þekkti.

Eftir smástund sá ég þó að það gat ekki verið. Í fyrsta lagi er stranglega bannað að nota farsíma í óperunni. Ef hún hefði fengið fréttirnar í hlénu er enn fremur heldur ólíklegt að hún hefði setið út fjórða þáttinn í klukkutíma.

Maður veit samt aldrei. Þetta var býsna góð sýning.