mánudagur, janúar 23, 2006

Gler og steinsteypa.

Það verður að segjast eins og er: Boxið sem upphaflega átti að vera bráðabirgðahúsnæði er komið til að vera. Að minnsta kosti í bili.

Eins og allir hlutir hefur boxið sína kosti og galla. Af kostunum ber staðsetninguna auðvitað hæst. Héðan er stutt í allt. Á efnahagslegum mælikvarða er staðsetningin oftar en ekki metin til 50 punda á nótt í litlu hótelherbergi með gömlum húsgögnum, skítugum teppum og fúkkalykt á þessu svæði. Þótt boxið sé á stærð við hótelherbergi er allt nýtt þar. Teppin eru hrein, fúkkalyktin víðs fjarri og gistingin talsvert undir 50 pundunum. Það væri ljótt að kvarta yfir þessu.

Einhvern tíma var mér sagt að hús væri ekki heimili nema maður gæti tekið á móti gestum í því. David Byrne söng líka að ef hús væri ekki heimili þá væri það bara gler og steinsteypa.

Í þessu er helsti galli boxins: Að bjóða einhverjum í mat hingað krefst þess að maður sé þá líka reiðubúinn til þess að láta samviskuna naga sig yfir því að láta viðkomandi matast í þrengslum. Það setur gestrisninni óneitanlega viss takmörk.

Helgin sem leið var gott dæmi um gildi þess að eiga góða að sem sjá til þess að tilfinningin fyrir heimilislegri stemmningu glatist ekki. Á föstudagskvöldið var okkur og Christinu vinkonu okkar boðið til þeirra hjónaleysa Anderson og Ligiu sem eru lögmenn frá Brasilíu. Daginn eftir nutum við gestrisni sómahjónanna Árna og Guðrúnar á heimili þeirra í Hampstead.

Ég sé mig til knúinn að vitna til orða Viktors (Björn Jörundur í myndinni) við yfirþjóninn á Grillinu í Englum alheimsins um bæði kvöldin: ,,Þetta var ákaflega ánægjuleg máltíð.” Samverustundirnar voru heldur ekki síðri.

0 Innlegg:

Skrifa ummæli

<< Home