fimmtudagur, mars 09, 2006

Samúð.


Samkvæmt dagblöðum og gáfumönnum í Englandi þjáist heimurinn af því sem á ensku er kallað ,,compassion fatigue”. Á íslensku myndi þetta líklega útleggjast sem ,,samúðarþreyta”.

Samúðarþreytan á víst að vera tilkomin að núorðið vegna þess að núorðið vita menn miklu meira um miklu fleiri sem eiga bágt í heiminum. Þetta þýðir að ef maður ætlar að finna til eðlislægrar samúðar sinnar í hvert skipti sem tilefni er til þá á maður jafnframt að hættu á að ofgera sér og detta niður í depurð og þunglyndi.

Reyndar hef ég aldrei upplifað það að vera þreyttur á eigin samúð. Ég annaðhvort hef samúð með fólki eða ekki, allt eftir aðstæðum.

Þær aðstæður eru sjálfsagt umdeilanlegar. Það hefur til dæmis aldrei nokkru sinni hvarflað að mér að gefa betlara í London pening út af samúð. Stundum hefur það þó hvarflað að mér af praktískum ástæðum.

Ef umræddur betlari er augljóslega heróínfíkill eða eitthvað þaðan af verra hefur til dæmis skotið upp í kollinum hugmyndinni: ,,Er ekki ágætt að viðkomandi sé að betla peninginn fyrir dópinu í stað þess að vera að ræna og drepa fólk fyrir því? Ber mér þá ekki siðferðisleg skylda við að styðja þessa hegðun svo samborgarar mínir verði síður fyrir barðinu á tilefnislausu ofbeldi?”

Af prinsippástæðum vil ég hins vegar ekki styðja fólk í þeirri viðleitni að tortíma sjálfu sér. Örlæti mitt fellur með því prinsippi.

Um daginn vaknaði samúð mín við óvenjulegar aðstæður. Mér barst sú vitneskja að hinn geðþekki samnemandi minn Róbert frá Slóvakíu drekki reglulega Neskaffi til þess að halda sér vakandi yfir bókunum. Það sem verra er: Hann drekkur það saman blandað við KALT vatn af snyrtingu bókasafns LSE.

Þeir sem mig þekkja vita að ég veit fátt leiðinlegra en að lesa á bókasöfnum. Samt get ég ekki bægt þeirri hugsun frá mér að það sé einhvers konar siðferðisleg skylda mín að fara að lesa á bókasafninu. Ef svo yrði væri það í þeim eina tilgangi að geta komið með eigið nýmalað og heitt kaffi af Monmouth kaffi á brúsa á safnið og boðið Róberti félaga mínum með mér.

mánudagur, mars 06, 2006

Í sumarhúsi drottningarinnar

Förinni var heitið í Cumberland Lodge ekki svo langt frá Windsor kastala. Nú gafst skólafélögunum tækifæri til þess að kynnast almennilega og jafnramt ræða við kennara um notkun greinarinnar í þágu samfélagsins. Þetta eru einskonar góðgerðarsamtök sem lána hús drottingarinnar til þess að nemendur geti fræðst um þessi mál.


Hér var hópmynd smellt af göngugörpum sem gengu í kringum "Cow Pond". Nei ég er ekki stödd í Asíu ég er í London. Asíubúarnir skefla mig stundum sögum óbilandi aga og dugnaðar. Ég komst að því yfir Cumberland pulsum og djúpsteiktum rauðlauk að þeim er kennt að nudda augun í barnaskóla í 10 mínútur á dag - hina átta eru þau að lesa.


Hér sést Sindri Sigurjónsson stinga sér til sunds.


"The Long Walk" Nær frá hestinum góða að windsor kastala. Þessi leið er lengri en hún sýnist og fórum við Mohjid hana á met-tíma.


Því til staðfestingar fengum við að vera þess heiður aðnjótandi að smella af okkur mynd með þessum bresku herramönnum.


Þessi dádýrahjörð varð á vegi okkar. Mér leið eins og breskri hefðarfrú í heilsubótargöngu á leið í "Tea & biscuits".



Kennararnir gerðu ýmislegt til þess að hafa ofan af fyrir nemendum. Blásið var til Pub quiz og þessi sýndi töfrabrögð.

sunnudagur, mars 05, 2006

Perfect Day.



Það er erfitt að finna uppskrift að fullkomnum degi. Sennilega vegna þess að fullkominn dagur snýst ekki um það hvað maður gerir heldur hvernig manni líður. Þannig getur dagur sem maður gerir ekkert allt eins verið fullkominn.

Laugardagurinn var einn þessara daga. Reyndar vöknuðum við hjónaleysin ekki fyrir heldur eftir allar aldir þann dag. Kannski var það einfaldlega það sem þurfti að sofa úr sér stress liðinnar viku.

Ein skemmtilegasta gatan í London er Exmouth Market. Nafnið er reyndar villandi þar sem þarna er engan markað að sjá. Gatan er hins vegar full af veitingastöðum sem eru bæði mjög góðir og ódýrir. Vandinn er oft að að ákveða hvað mann langar í.

Gatan er um það bil hundrað metra löng. Stundum orkar hún á mig eins og þar megi finna sérstaka tegund af mat fyrir hvern metra.

Eftir það var hoppað um borð í strætó og farið niður í Chelsea í tilefni af því að Sylvía hafði eitt sinn búið þar. Hún sýndi mér húsið sem hún bjó í (sjá myndina hér að neðan) en síðan eru liðin heil tíu ár.



Í framhaldinu skelltum við okkur upp í tveggja klukkutíma göngutúr meðfram Thames. Meðal annars gengum við framhjá brúnni þar sem andanefjan drapst um daginn. Ég er ennþá pínu skúffaður að hafa ekki drifið mig þangað þegar það gerðist. Það er ekki á hverjum degi sem manni gefst færi á hvalaskoðun í Thames.

Göngutúrinn endaði í Victoria, en líflausara hverfi er líklega vandfundið í London. Það var ekki um annað að ræða en að taka fyrstu lest upp í Islington þar sem borðað var á ítölskum stað. Dagurinn endaði síðan á hverfispöbbnum.

Svona eins dags helgarferð er bara býsna ódýr þegar maður þarf hvorki að borga fyrir flug né hótelsgistingu.