sunnudagur, mars 05, 2006

Perfect Day.



Það er erfitt að finna uppskrift að fullkomnum degi. Sennilega vegna þess að fullkominn dagur snýst ekki um það hvað maður gerir heldur hvernig manni líður. Þannig getur dagur sem maður gerir ekkert allt eins verið fullkominn.

Laugardagurinn var einn þessara daga. Reyndar vöknuðum við hjónaleysin ekki fyrir heldur eftir allar aldir þann dag. Kannski var það einfaldlega það sem þurfti að sofa úr sér stress liðinnar viku.

Ein skemmtilegasta gatan í London er Exmouth Market. Nafnið er reyndar villandi þar sem þarna er engan markað að sjá. Gatan er hins vegar full af veitingastöðum sem eru bæði mjög góðir og ódýrir. Vandinn er oft að að ákveða hvað mann langar í.

Gatan er um það bil hundrað metra löng. Stundum orkar hún á mig eins og þar megi finna sérstaka tegund af mat fyrir hvern metra.

Eftir það var hoppað um borð í strætó og farið niður í Chelsea í tilefni af því að Sylvía hafði eitt sinn búið þar. Hún sýndi mér húsið sem hún bjó í (sjá myndina hér að neðan) en síðan eru liðin heil tíu ár.



Í framhaldinu skelltum við okkur upp í tveggja klukkutíma göngutúr meðfram Thames. Meðal annars gengum við framhjá brúnni þar sem andanefjan drapst um daginn. Ég er ennþá pínu skúffaður að hafa ekki drifið mig þangað þegar það gerðist. Það er ekki á hverjum degi sem manni gefst færi á hvalaskoðun í Thames.

Göngutúrinn endaði í Victoria, en líflausara hverfi er líklega vandfundið í London. Það var ekki um annað að ræða en að taka fyrstu lest upp í Islington þar sem borðað var á ítölskum stað. Dagurinn endaði síðan á hverfispöbbnum.

Svona eins dags helgarferð er bara býsna ódýr þegar maður þarf hvorki að borga fyrir flug né hótelsgistingu.