þriðjudagur, febrúar 28, 2006

Lurða.

Síðari hluti ferbrúarmánaðar hefur verið nokkuð lurðulegur. Til dæmis hefur íþróttaiðkun boxaranna færst frá skvassi yfir í “pool”. Eldamennskan hefur einkennst af skyndiréttum úr Tesco og auknum pizzupöntunum hjá Ciao Bella ítalska veitingastaðnum handan hornsins. Það er spurning hvort boxararnir séu að undirbúa sig undir komandi átök eða bara almenn leti og nennuleysi.

Grámyglan náði samt nýjum víddum í gær þegar undirritaður boxari reif sig á fætur og mætti í tíma 9.30 (veit hvað þið sem vaknið alltaf kl 8.00 eruð að hugsa – þið eigið alla mína samúð) og hlustaði á einn af prófessorunum til klukkan 11.00 þá rétt stauluðumst ég og sammnemandi minn Sindri á Starbucks. “Double shot latte” dugði ekki til að að koma blóðflæðinu til heilans. Þetta var greinilega einn af þeim dögum þar sem pródúksjónin yrði í lágmarki og langa gatið á milli tíma yrði ekki nýtt til hins ýtrasta á bókasafninu svo við ákváðum að taka næsta strætó sem kæmi og taka útsýnistúr í einum tveggja hæða almenningsvagni. London hefur að geyma margar fallegar viktoríanskar byggingar en því miður er oft hrikalega ljótum byggingum í anda VRII plantað í næsta nágrenni við.

Eftir góðan hring um stórborgina fór ég í einn af furðulegustu fyrirlestrum sem ég farið á. Kennarinn lauk tímanum (tók ca. hálf tíma í þetta) í svona quiz. Bretar eru quiz óðir, ekki hægt að kveikja á sjónvarpinu án þess að rekast á quiz. Quizzið var þannig að við áttum að giska á hvaða drasl safnaðist fyrir á litlum eyjum í Kyrrahafinu. Mér varð strax hugað til bernskuára minna í unglingavinnunni í Viðey sem fólst í því að safna drasli á svörtum ströndum Viðeyjar og brenna. Þar var annaðhvert drasl plastpoki, dömubindi eða korkur.

En kennarinn verðlaunaði þá nemendur fyrir að geta upp á rétta draslinu með að gefa þeim eintak því. Þannig að einn nemandi giskaði skór og hann fékk gamlan inniskó úr fataskáp kennarans. Ég verð að viðurkenna að hvatning mín fyrir vinningunum minnkaði við hvern vinning sem hann dróg úr pokanum sínum. Hann endaði svo tímann á ljóðalestri. Ljóðalesturinn endaði svo á mjög dramatískum nótum þegar hann allt í einu dró upp úr stórum svörtum ruslapoka umferðakeilu og henti á kennaraborðið.